Lovísa Ólafsdóttir
Lovísa Ólafsdóttir
„Fyrstu tölur frá Vinnueftirlitinu frá árinu 2023 benda til þess að vinnuslysum fari fjölgandi og er það ekki ósvipað því sem er í nágrannalöndunum,“ segir Lovísa Ólafsdóttir forvarnasérfræðingur hjá VÍS í samtali við Morgunblaðið

„Fyrstu tölur frá Vinnueftirlitinu frá árinu 2023 benda til þess að vinnuslysum fari fjölgandi og er það ekki ósvipað því sem er í nágrannalöndunum,“ segir Lovísa Ólafsdóttir forvarnasérfræðingur hjá VÍS í samtali við Morgunblaðið. Samkvæmt tölum frá embætti landlæknis urðu 16 vinnuslys hvern virkan dag árið 2019, en þar eru tiltekin öll vinnuslys, bæði minni háttar sem ollu ekki fjarveru frá vinnu sem og svokölluð fjarveruslys sem leiddu til a.m.k. eins dags fjarvistar, en fjarveruslysin ber að tilkynna Vinnueftirlitinu.

Aðspurð segir Lovísa að tvær atvinnugreinar skeri sig úr hvað fjölda vinnuslysa varðar, annars vegar mannvirkjagerð og hins vegar flutningaþjónusta. Þar sé um að ræða hlutfallslega fjölgun slysa, þ.e. fjölgun slysa umfram fjölda starfandi fólks á vinnumarkaði.

Lovísa segir að banaslys á vinnustöðum hér á landi á tímabilinu 1980 til 1989 hafi verið 5,4 að jafnaði á ári, en á tímabilinu 2010 til 2022 hafi slíkum slysum fækkað. Þau voru 2,2 á ári á tímabilinu. Banaslys hafi þó orðið þrjú á síðasta ári.

Forvarnaráðstefna VÍS fer fram í dag en þar eru forvarnir vinnuslysa í forgrunni og Forvarnaverðlaun VÍS afhent til þeirra fyrirtækja sem þykja skara fram úr í öryggismálum. Segir Lovísa að samkvæmt rannsókn Evrópusambandsins gangi litlum og meðalstórum fyrirtækjum illa að uppfylla ákvæði vinnuverndarlaga og um 70% þeirra framkvæmi ekki áhættumat eins og lög kveði á um. Ástæðuna segir hún að áhættumatið sé flókið í framkvæmd og fyrirtækin skorti bolmagn.

„Mikilvægt er að styðja við þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki og einfalda þætti eins og framkvæmdina við áhættumatið,“ segir Lovísa, en þar kemur atvikaskráningarkerfi sem VÍS hefur þróað að gagni og hjálpar fyrirtækjum að hafa yfirsýn svo hægt sé að innleiða forvarnir með markvissum hætti. Í kerfinu verða til staðlaðar skýrslur sem sendar eru rafrænt, meðal annars til Vinnueftirlitsins,“ segir Lovísa.