Jón Friðhólm Friðriksson fæddist í Kópavogi 10. apríl 1954. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 16. febrúar 2024.

Foreldrar Jóns voru Friðrik Björnsson, f. 2. mars 1927, d. 17. janúar 2004, og Þórhildur Sigurðardóttir, f. 10. júlí 1927, d. 23. desember 2010.

Systkini Jóns eru Steinunn F., f. 1948, gift Gunnlaugi Sigmarssyni, Sigurður Sævar F., f. 1949, kvæntur Sólrúnu Bragadóttur, Þorbjörg Elín F., f. 1951, d. 2010, eftirlifandi eiginmaður hennar er Rúnar Þórarinsson, Friðrik Þór, f. 1961, kvæntur Mörtu Eiríksdóttur, Fanney, f. 1964, sambýlismaður hennar er Theódór B. Einarsson, Heiður Huld, f. 1967, sambýlismaður hennar er Þórir Jónsson.

Eiginkona Jóns var Alma Jónsdóttir læknaritari, f. 17. apríl 1955, d. 5. október 2019. Þau gengu í hjónaband 1. júní 1974. Foreldrar Ölmu voru Jón Hallvarður Júlíusson, f. 1927, d. 1987 og Rósa Jónsdóttir, f. 2. maí 1930. Synir Jóns og Ölmu eru: 1) Jónas Guðbjörn Friðhólm, f. 11. mars 1974, kvæntur Helgu Sigrúnu Þórsdóttur, f. 15. nóvember 1978. Börn þeirra eru Jón Grétar, f. 13. ágúst 2005, og María Sigrún, f. 21. maí 2012. 2) Eiríkur, f. 18. júlí 1983, kvæntur Kristjönu Vilborgu Árnadóttur, f. 20. mars 1985. Dætur þeirra eru Eva Natalie, f. 26. október 2007, og Nadia Liv, f. 23. ágúst 2014.

Jón ólst upp í Kópavogi til 14 ára aldurs en þá fluttu foreldrar hans í Sandgerði. Alma og Jón hófu búskap sinn á Lágholtsvegi 7 í Reykjavík í húsi afa Jóns. Þau byggðu sér hús í Sandgerði og fluttu þangað inn árið 1974. Jón var ungur að árum þegar hann hóf störf við sjómennsku en lærði síðan plötu- og ketilsmíði og vann lengst af við stálsmíðar. Hann átti og rak vélsmiðjuna Skip og stál í nokkur ár.

Jón hafði mikinn áhuga á félagsmálum og fengu meðal annars knattspyrnufélagið Reynir og Golfklúbbur Sandgerðis að njóta krafta hans. Hann var einn af stofnendum Golfklúbbs Sandgerðis. Helstu áhugamál hans voru veiðar, golf og ferðalög. Árið 2021 keypti Jón sér sumarbústaðarland í Borgarbyggð þar sem hann náði að reisa sér lítið sumarhús og eyddi þar ófáum stundum.

Útför Jóns fer fram frá Lindakirkju í dag, 29. febrúar 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi, það eru þvílík forréttindi að hafa fengið að vera sonur þinn og fyrir það er ég mjög þakklátur. Dugnaðurinn og eljusemin í þér er eitthvað sem ég hef reynt að tileinka mér í lífinu. Ef það átti að vinna eitthvað þá vildir þú láta hlutina ganga og klára verkið. Það var ekki verið að hangsa mikið við hlutina. Ég var ekki orðinn hár í vexti þegar ég fékk stundum að vera með þér og reyna að hjálpa til. Ferðalög fjölskyldunnar um allt Ísland eru mér dýrmæt minning en ég hafði eflaust séð meginhluta af Íslandi fyrir 12 ára aldur. Það var farið upp á fjöll, inn á hálendi, yfir vötn, veiðiferðir í vötn og ár og svo mætti lengi telja. Þú kenndir mér ótalmargt og varst ávallt tilbúinn að hjálpa mér og mínum í einu og öllu. Tíminn okkar saman pabbi náði næstum 50 árum en ég hefði viljað hafa hann lengri.

Að kveðja þig er eitthvað sem ég er búinn að vera að reyna að undirbúa mig fyrir en það er víst aldrei hægt að vera tilbúinn fyrir svona missi. Þó svo að þú hafir verið með þennan sjúkdóm í um níu ár þá gerðist þetta alltof hratt í lokin. Þú barðist við sjúkdóminn til síðasta dags og ætlaðir ekki að gefast upp. En kallið kom og þín er sárt saknað hér.

Sit ég hér með sjálfum mér, langt frá
þér.

Minningar sem kvelja mig í huga mér.

Týndur, dofinn, … Ekkert á.

Yfirgefinn, ekkert að sjá.

Myrkrið svart það meiðir mig, stingur
sárt.

Þögnin er óbærilega há.

Stjörnurnar á himninum minna á þig.

Jörðin mætti alveg eins gleypa mig.

Ég er týndur dofinn, hvar er ég?

Yfirgefinn, langt frá þér.

(Þorvaldur Halldórsson)

Takk fyrir allt elsku pabbi. Þinn sonur,

Jónas Guðbjörn.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að tilheyra fjölskyldu Jóns og Ölmu síðustu 26 ár eða síðan við Jónas sonur þeirra kynntumst og hófum okkar sambúð. Ég komst fljótt að því að þarna var á ferðinni einstakt fólk sem gott var að umgangast. Nonni var afskaplega ljúfur maður sem sparaði aldrei brosin sín. Hann og Alma áttu gott hjónaband þar sem virðing og kærleikur ríkti þeirra á milli. Það var unun að fylgjast með þeim hjónum í framkvæmdum, verkaskiptingin skýr og saman gengu þau í verkin. Dugnaðurinn, eljusemin, vandvirknin og sá mikli hæfileiki að klára verkefnin sín lýsir þeim hjónum nokkuð vel. Þau voru ófá verkin sem þau hjónin hafa unnið saman en Nonni var aðeins 16 ára gamall þegar hann hóf að byggja sitt fyrsta hús í Sandgerði. Hann lagði hamrinum nýlega vegna veikinda en síðustu ár hafði hann dundað sér við að byggja lítið sumarhús í Borgarfirðinum. Það gaf honum mikið að smíða og þurfti hann alltaf að hafa eitthvað slíkt fyrir stafni. Eftir að Alma lést urðu samskipti okkar Nonna enn meiri og við urðum nánari. Samverustundirnar margar og dýrmætar og símtölin okkar á milli nokkrum sinnum í viku. Oftar en ekki hófust þau á orðunum, sæl Helga mín, það er komið að stöðutékki og svo var hlegið. Við áttum auðvelt með að tala saman um daginn og veginn og aldrei skorti umræðuefnið okkar á milli. Börnin okkar Jónasar áttu stóran stað í hjarta Nonna. Hann var duglegur að fylgja þeim eftir hvort sem það var að mæta á íþróttaleikina þeirra til að hvetja þau áfram, heimsækja okkur til Eyja eða eiga samveru í Kópavogi. Nonni var blíður og góður afi sem var stoltur af barnabörnunum. Jón Grétar og María Sigrún hugsa með hlýju til afa Nonna, þakklát fyrir allar samverustundirnar sem við áttum saman. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Síðustu ár barðist Nonni við erfið veikindi. Hann nýtti tímann sinn vel þrátt fyrir að veikindin tækju sinn toll. Hann var duglegur að eiga samverustundir með fjölskyldunni, systkinum, mökum og vinum. Veiðiferðirnar voru margar enda elskaði hann fátt meira en að veiða. Ferðalögin vítt og breitt um landið í húsbílnum sem hann keypti til að ferðast á. Síðasta ferðin hans var í desember sl. þar sem hann ferðaðist í góðum hópi til Flórída að heimsækja mág sinn og svilkonu. Sú ferð gladdi hann mikið. Nonni fór langt á hugarfarinu og eljunni en hann var staðráðinn í að lifa lífinu og láta veikindin ekki taka öll völd. Mikið er ég þakklát fyrir þennan tíma sem við fengum en það var erfitt að þurfa að sleppa takinu því kveðjustundin kom fljótt. Ég verð að trúa því að nú séu þau hjónin sameinuð á ný, komin út í á að veiða eða að byggja næsta sumarhús. Þau tvö saman að njóta, frjáls úr viðjum veikinda. Söknuðurinn er mikill en við fjölskyldan stöndum þétt saman og munum halda minningu Nonna á lofti.

Elsku Nonni, ég sagði það eflaust ekki nógu oft hversu þakklát ég var fyrir þig en faðmlögin okkar sögðu meira en þúsund orð. Ég kveð þig að sinni með þakklæti fyrir allt og allt.

Þín tengdadóttir,

Helga Sigrún

Þórsdóttir.

Elsku tengdapabbi.

Komið er að leiðarlokum á okkar tæplega 19 ára kynnum, en það var þá sem við kynntumst fyrst þegar ég gekk inn í Arnarsmárann. Þú tókst mér opnum örmum þegar leiðir okkar Eika lágu saman árið 2005. Við bjuggum hjá ykkur tengdamömmu fyrstu tvö árin og fluttum þá í okkar eigið. „Nokkrum“ árum seinna fluttum við inn til ykkar aftur með tvö börn að auki og kött á meðan við byggðum okkur nýtt heimili.

Þú sýndir okkur svo sannarlega hvað í þér bjó. Þú lést veikindin ekki stoppa þig í að gera akkúrat það sem þig langaði, hvort sem það var að ferðast út um hvippinn og hvappinn, standa úti í vatni og veiða eða byggja eitt stykki hús á nýjum sælureit.

Við höfðum margoft áhyggjur af þér vera að bardúsa þetta allt saman og oft einsamall á ferðalagi í alls konar aðstæðum, en alltaf komstu okkur á óvart með ákveðni þinni og æðruleysi.

Þú ferðaðist víða innanlands síðustu árin á ferðabílnum með veiðistöngina í farteskinu og laukst síðasta ári með frábærri ferð á gamlar slóðir í Flórída þar sem þú skemmtir þér konunglega og naust veðurblíðunnar. Það sem við erum þakklát fyrir að ferðin gekk svona vel hjá ykkur félögunum.

Hjálpsemi var eitt af þínum einkennum. Þú varst alltaf til í að rétta fram hjálparhönd. Þú aðstoðaðir okkur eins og þú gast við að koma okkur inn í húsið okkar og gekkst í þau verk sem þurfti. En á sama tíma voruð þið tengdamamma bæði að kljást við ærin verkefni í veikindunum.

Stelpurnar okkar Eika voru heppnar með afa. Þú varst alltaf boðinn og búinn að aðstoða þær og okkur, sama hvað, og að mæta á mót eða sýningar og hvetja þær áfram var iðulega í forgangi. Þær nutu þess að eiga gæðastundir með þér þegar við foreldrarnir vorum á faraldsfæti og kötturinn Nói fékk að njóta góðs af miklu spjalli og klappi.

Nú hefur elsku Alma tekið vel á móti þér í sumarlandinu þar sem þið eruð sameinuð á ný. Nú þurfum við fjögur að fara að standa á eigin fótum og passa upp á hvert annað og barnabörnin, sólargeislana ykkar sem þið dýrkuðuð og dáðuð.

Takk fyrir öll árin, alla hjálpina, hugulsemina, spjallið og bílferðirnar í sveitinni.

Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst ykkur dásamlegu hjónum og fengið að vera hluti af ykkar fjölskyldu.

Þín tengdadóttir,

Kristjana
Árnadóttir.

Elsku afi, ég er svo þakklát fyrir að hafa átt þig sem afa. Ég elskaði þegar við töluðum saman í símann og við gátum spjallað um allt. Alltaf þegar ég kom frá Vestmannaeyjum til þín í Arnarsmárann þá var ég spenntust að fá hlýtt og gott knús frá þér. Takk fyrir að koma alltaf á fótboltaleikina mína og styðja mig áfram. Það var svo gott að fá afaknús eftir leiki. Mér leið alltaf svo vel hjá þér. Ég veit að þinn tími var kominn elsku afi minn og ég mun aldrei gleyma þér og öllum stundunum sem við áttum saman. Nú ertu kominn til ömmu og þið saman að spila. Ég elska þig mikið elsku afi og sakna þín.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Þín

María Sigrún
Jónasdóttir.

hinsta kveðja

Takk fyrir samveruna og ánægjulegar minningar.

Guð veiti strákunum þínum og fjölskyldum þeirra styrk í sorginni.

Þitt starf var farsælt, hönd þín hlý

og hógvær göfgi svipnum í.

Þitt orð var heilt, þitt hjarta milt

og hugardjúpið bjart og stillt.

(Jóhannes úr Kötlum)

Þín tengdamóðir,

Rósa Jónsdóttir.