[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Reykjavík Early Music Festival er fyrsta alþjóðlega barokkhátíðin í Reykjavík en hún verður haldin í fyrsta skipti í Hörpu, dagana 26.-28. mars. Hátíðin er vettvangur fyrir samstarf íslenskra og erlendra tónlistarhópa sem sérhæfa sig í…

Viðtal

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Reykjavík Early Music Festival er fyrsta alþjóðlega barokkhátíðin í Reykjavík en hún verður haldin í fyrsta skipti í Hörpu, dagana 26.-28. mars. Hátíðin er vettvangur fyrir samstarf íslenskra og erlendra tónlistarhópa sem sérhæfa sig í upprunaflutningi barokktónlistar en listrænn stjórnandi hennar er Elfa Rún Kristinsdóttir, fiðluleikari og einn af stofnendum Barokkbandsins Brákar.

„Okkur langar að búa til alþjóðlega hátíð sem er á hverju ári og bjóða hópum frá Evrópu og víðar að til að byggja upp barokksenuna á Íslandi, sem er ekki mjög stór. Svona Early Music-hátíðir eru í rauninni í öllum helstu borgum heims þar sem allt er flutt á upprunahljóðfæri, sem sagt hljóðfæri sem voru notuð á þeim tíma sem tónlistin var samin,“ segir Elfa og bætir því við að „Early Music“ sé í raun mjög víðtækt hugtak sem nái yfir stórt tímabil, allt frá miðaldatónlist til rómantíska tímabilsins.

Safnaði saman góðu fólki

Segist Elfa hafa gengið með hugmyndina að hátíðinni í maganum í lengri tíma.

„Mig langar að gera þetta því þetta er nokkuð sem mér finnst vanta alveg á Íslandi, sérstaklega í Reykjavík. Ég nefndi hugmyndina við þær sem eru með mér í Barokkbandinu Brák, sem og Herdísi Önnu sópransöngkonu, sem ég hef unnið með, þannig að ég safnaði í raun fólki í kringum mig sem ég hugsaði að hefði áhuga á þessu og ég gæti hugsað mér að vinna með. Þannig hefur tekist að búa til mjög sterkan hóp sem er mjög spenntur fyrir þessu,“ segir hún. Að sögn Elfu er boðið upp á fjölbreytta tónleikadagskrá frá morgni til kvölds með heimsklassatónlistarfólki sem flytur barokktónlist í ólíkum rýmum Hörpu. Þá verða haldnir fernir kvöldtónleikar með hópunum Arte dei Suonatori, Barokkbandinu Brák, Amaconsort og kammerhópnum Consortico. Sjálf kemur Elfa fram sem einleikari á hátíðinni en auk hennar má nefna fiðluleikarann Rachel Podger, franska sellóleikarann Vladimir Waltham og sópransöngkonuna Herdísi Önnu Jónasdóttur. Að auki verður boðið upp á opið meistaranámskeið með Rachel Podger í samvinnu við MÍT og LHÍ í Norðurljósum Hörpu.

Það vantar ekki eftirspurnina

Spurð nánar út í flytjendur og val skipuleggjenda á þeim segir Elfa markmiðið helst vera að bjóða upp á fjölbreytt úrval bæði erlendra og íslenskra tónlistarmanna.

„Samstarfið við pólska hópinn kom til dæmis þannig til að ég var í alþjóðlegum hópi sem var að skipuleggja verkefni í Evrópu og þar kynntist ég umboðsmanni þeirra. Ég sagði honum frá þessari hugmynd og þess vegna eru þau núna að koma á hátíðina. Svo langar mig að tengja sem mest Íslendinga líka inn á hana en Amaconsort er einmitt grúppa sem Halldór Bjarki tónlistarmaður er í. Mér finnst líka mikilvægt að efla það sem er á Íslandi og þar má nefna hópinn Consortico en í honum eru bæði erlendir tónlistarmenn, sem eru í raun nýfluttir til Íslands og eru menntaðir í barokktónlist, og tónlistarmenn sem eru heima,“ segir Elfa og nefnir í kjölfarið að næstu ár muni hún nota tengslanet sitt í Evrópu til að fá enn fleiri tónlistarmenn á hátíðina en sjálf er hún búsett í Berlín.

„Það vantar ekki eftirspurnina, það vilja allir koma en þetta er allt spurning um fjármagn, sem er helsta áskorunin.“

Þá segir Elfa mikilvægt á hátíð sem þessari að bjóða upp á þétta dagskrá sem nái frá morgni til kvölds svo flestir geti komið og notið. „Þeir sem eru með hátíðarpassa geta í raun mætt á allt en það er frítt inn á hádegistónleikana. Við gerðum það til að auka sýnileikann og fá fólk sem annars myndi ekki koma, fólk sem er kannski bara í Hörpu eða Hafnartorg Gallery.“

Fjölbreytileikinn mikilvægur

Innt eftir því hversu mikla þýðingu hátíðin hafi fyrir íslenskt tónlistarlíf svarar Elfa því til að hún sé gríðarlega mikilvæg til að auka fjölbreytileikann og flóruna.

„Við erum að bjóða upp á eitthvað sem er rosalega takmarkað á Íslandi. Það er mjög sjaldan sem erlendir barokkhópar eða upprunaflutningshópar koma til Íslands. Það hefur eitthvað aukist á síðustu árum, meðal annars í Skálholti, en þó ekki af þessari stærðargráðu sem við vonumst til að geta gert á næstu árum. Það er mikilvægt að geta boðið upp á eitthvað sem fólk heyrir ekki á hverjum degi,“ segir hún en blaðamaður grípur tækifærið og spyr í framhaldinu hvort hátíðin sé þá komin til að vera?

„Já, algjörlega en þetta fer þó náttúrlega pínulítið eftir því hvernig okkur gengur að fjármagna. Því eins og ég segi þá vantar alls ekki hugmyndirnar og áhuga hópa á að koma til Íslands en helsta áskorunin er fjármögnunin.“

Lærdómsríkt ferli

Að sögn Elfu hefur undirbúningur hátíðarinnar gengið mjög vel. Þó sé að mörgum þáttum að huga þar sem um sé að ræða stórt og viðamikið verkefni.

„Það er mjög spennandi að undirbúa svona hátíð og einnig mjög lærdómsríkt því ég hef ekki gert þetta áður. Maður þarf að setja þetta allt saman og hafa til að mynda samskipti við umboðsmenn þannig að þetta er í senn rosa spennandi en einnig krefjandi,“ segir hún og bætir því við að lokum að mikil tilhlökkun sé fyrir hátíðinni hjá öllum sem að henni koma.

„Um leið og markaðsefnið okkar var tilbúið og heimasíðan komin í loftið varð þetta allt í einu svo raunverulegt. Þá sá maður að þetta er að gerast og við erum satt best að segja mjög spennt.“

Allar nánari upplýsingar um dagskrána og flytjendur má finna á heimasíðu hátíðarinnar https://reykjavikearly.is/

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir