Margur minnist þess tíma þegar augljóst virtist að stutt væri orðið í að Rússland gerði alvöru úr því að gefa her sínum fyrirmæli um ráðast inn í Úkraínu fyrir rúmum tveimur árum, en þá tóku einstök valdaeintök í Evrópu upp á því óboðin að skaffa Pútín óumbeðna málamiðlun.
Pútín hafði stillt upp ógnandi herstyrk við norðurlandamæri Úkraínu, nærri Hvíta-Rússlandi, og voru uppi getgátur um að með því væri hann m.a. að leggja áherslu á að þau Vesturlönd sem hefðu verið ábyrgðaraðilar að „Minsk-samkomulaginu“ hefðu svo látið vera að tryggja að það samkomulag gengi eftir, þrátt fyrir ábyrgð sína.
Virtust ýmsir af ESB-leiðtogunum af „stærri gerðinni“ telja sig sjálfskipaða málamiðlunarmenn og sumir eygðu þar gott tækifæri til að slá sér verulega upp með slíkt erindi. Ekki væri verra ef Friðarverðlaun Nóbels gætu að auki orðið innan seilingar. Fóru nokkur þessara stórmenna í þotum sínum og lentu á Moskvuflugvelli, þar sem vel var tekið á móti slíkum höfðingjum og fyrirmennum, og tignar bifreiðar með þjóðfána viðkomandi í bak og fyrir færðu þau áleiðis til Kremlarkastala.
Þegar inn var komið tók þar reyndar við skreyting sem Pútín hafði látið setja upp og kom hverjum gesti af öðrum í þessu kapphlaupi á óvart: „Langa borðið“, sem þeir tveir, Pútín og gesturinn, sátu einir við. Og borðið virtist lengjast nokkuð eftir því sem slíkum heimsóknum fjölgaði, og vantaði þá helst leikhúskíki til að auðvelda samskiptin.
Undirstrikaði „langa borðið“, sem lengdist í sífellu, óneitanlega vandræðaganginn, en þessi pínlegi leikaragangur meintra bjargvætta varð þó fljótlega endanlega úr sögunni.
Nú hefur eitt af þessum fyrirmennum sem komu við sögu í nefndum opnunarkafla átakanna haft frumkvæði að því, á leiðtogafundi í París í vikunni, að ræða opinberlega „þann kost“ að lýðræðisríki Evrópu sendi evrópskan her til Úkraínu og styðji stjórnina í Kænugarði til að vinna stríðið við Rússa og stuðlað þannig í leiðinni að mikilli útþenslu þessa stríðs, sem yrði þá það mesta sem orðið hefði frá því að seinni heimsstyrjöldinni lauk. Það var Macron forseti Frakklands sem hreyfði svo óvænt við sínum valdamiklu sessunautum og bætti því svo við að þótt slíkt virtist fjarlægt væri þó alls ekki hægt að útiloka svo óþægilega þróun.
Þeir í Kreml brugðust hart við. Hver Evrópuleiðtoginn af öðrum reyndi að tala þessa óvæntu yfirlýsingu niður, og helst á bak og burt, og talsmaður Nató taldi nauðsynlegt að árétta að ekkert slíkt væri uppi á þeirra borði.
Scholz kanslari Þýskalands sagði að fundurinn í París hefði verið góður og allir þátttakendur þar verið sammála um að evrópskur her yrði ekki sendur yfir landamæri Úkraínu.
Macron forseti hafði hins vegar sagt við fréttamenn á staðnum að þótt þessi 21 leiðtogi sem verið hefði á fundinum hefði ekki verið sammála um að senda herlið á vettvang hefði það verið hreinskilnislega rætt! „Ekki er hægt að útiloka neinn þátt,“ sagði hann. „Við munum gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að Rússland vinni þetta stríð.“
En talsmenn margra þjóða, og á meðal þeirra þau sem stutt hafa Úkraínu hvað mest í baráttunni, brugðust við á þriðjudag, þar á meðal Bretland, Pólland, Spánn og Ítalía, og andmæltu öllum slíkum hugmyndum.