Gestastofa Tölvugerð mynd af fyrirhugaðri þjónustumiðstöð í Þjórsárdal, séð yfir til Gvendarrana. Gátt fyrir upplifunina að sögn Magnúsar Orra.
Gestastofa Tölvugerð mynd af fyrirhugaðri þjónustumiðstöð í Þjórsárdal, séð yfir til Gvendarrana. Gátt fyrir upplifunina að sögn Magnúsar Orra. — Basalt arkitektar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Kristján Jónsson kris@mbl.is Fyrirhugaðar framkvæmdir Rauðukamba ehf. í Þjórsárdal eru samkvæmt nýlegum úrskurði Skipulagsstofnunar ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Til stendur að byggja þar upp þjónustumiðstöð sem kölluð er Gestastofa og er henni meðal annars ætlað að vera móttaka fyrir gesti Fjallabaða sem áður hefur verið greint frá.

Baksvið

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Fyrirhugaðar framkvæmdir Rauðukamba ehf. í Þjórsárdal eru samkvæmt nýlegum úrskurði Skipulagsstofnunar ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Til stendur að byggja þar upp þjónustumiðstöð sem kölluð er Gestastofa og er henni meðal annars ætlað að vera móttaka fyrir gesti Fjallabaða sem áður hefur verið greint frá.

„Nú liggja fyrir öll skipulagsskilyrði fyrir uppbyggingu í Þjórsárdal bæði gagnvart Fjallaböðum og Gestastofunni sem verður níu kílómetrum framar í dalnum,“ segir Magnús Orri Marínarson Schram framkvæmdastjóri Rauðukamba.

„Við höfum unnið út frá þeim áætlunum að geta opnað 2025 eða 2026. Hönnunin á byggingunni er mjög langt komin og við reiknum með að fara í jarðvegsframkvæmdir síðar á þessu ári. Í framhaldinu mun líklega taka eitt og hálft til tvö ár að byggja, en byggingin verður mjög umhverfisvæn og BREEAM-vottuð. Hún verður öll byggð úr timbri og arkitektúrinn er metnaðarfullur. Við vonumst eftir því að byggingin muni falla vel inn í umhverfið.“

Friðlýstur dalur

Þjórsárdalur var friðlýstur árið 2020 en frá Gestastofunni verður gestum Fjallabaða ekið lengra inn í dalinn.

„Þetta verkefni varðandi Þjórsárdal hefur verið í undirbúningi síðan 2015 en árið 2018 var tekin ákvörðun um að byggja Gestastofu Þjórsárdals. Við erum að byggja Fjallaböð sem eru innst í dalnum en Gestastofa yrði í mynni dalsins. Gestirnir sem sækja Fjallaböðin leggja bifreiðum sínum við Gestastofu og fara þar upp í rútur á okkar vegum sem fara fram og til baka. Þetta er friðlýst svæði og dalurinn er fallegur. Þar af leiðandi viljum við ekki of mikið álag þar upp frá og færum álagið niður eftir þar sem Gestastofan verður,“ segir Magnús, en fleira verður um að vera í húsnæðinu.

„Í húsinu verður auk þess sýning í bíósal þar sem sýnd verður kvikmynd um sögu Þjórsárdals, en í öðrum sal verður stór sýning þar sem hægt verður að fræðast um hálendið, nýtingu fallvatnsins í orkuöflun og fleira. Auk þess verður veitingasala, þjónusta og upplýsingamiðstöð í Gestastofunni. Hugmyndin er sú að þegar fólk heimsækir dalinn eða ætlar upp á hálendi sé tekið á móti því í Gestastofunni og þar sé hægt að fá upplýsingar. Gestastofan verður eins og gátt fyrir upplifunina hvort sem það verður í dalnum eða á hálendinu,“ segir Magnús enn fremur.

Höf.: Kristján Jónsson