[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Upplýst var um tilnefningar til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2024 í gær, en tilnefnt er í tveimur flokkum. Alls eru fjórir listamenn tilnefndir í flokknum Myndlistarmaður ársins og hlýtur sá sem er hlutskarpastur eina milljón króna í verðlaunafé

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Upplýst var um tilnefningar til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2024 í gær, en tilnefnt er í tveimur flokkum. Alls eru fjórir listamenn tilnefndir í flokknum Myndlistarmaður ársins og hlýtur sá sem er hlutskarpastur eina milljón króna í verðlaunafé. Tilnefnd eru Amanda Riffo fyrir sýninguna House of Purkinje í Nýlistasafninu; Arnar Ásgeirsson fyrir sýninguna Hreinsunaraðferðir í Neskirkju; Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar fyrir sýninguna Vísitala í Ásmundarsal og Ólöf Nordal fyrir sýninguna Fygli í Ásmundarsal. Þrír upprennandi myndlistarmenn eru tilnefndir til Hvatningarverðlaunanna og hlýtur sá sem vinnur 500 þúsund krónur í verðlaunafé. Tilnefnd eru Almar Steinn Atlason; Brák Jónsdóttir og Brák Jónsdóttir.

Myndlistarráð stendur nú í sjöunda sinn fyrir úthlutun verðlaunanna. Dómnefnd skipa Ásdís Spanó, formaður dómnefndar frá myndlistarráði; Birta Guðjónsdóttir, fulltrúi Listfræðafélag Íslands; Sindri Leifsson, fulltrúi Sambands íslenskra myndlistarmanna; Wiola Ujazdowska, fulltrúi viðurkenndra lista og höfuðsafna á Íslandi, og Sirra Sigrún Sigurðardóttir, fulltrúi Listaháskóla Íslands. Markmið verðlaunanna er að heiðra íslenska myndlistarmenn eða myndlistarmenn sem búsettir eru á Íslandi og vekja athygli á því sem vel er gert á sviði myndlistar. Jafnframt að veita einstaka myndlistarmönnum mikilvæga viðurkenningu og hvetja til nýrrar listsköpunar.

Verðlaunin verða afhent í Iðnó 14. mars kl. 20. Við sama tækifæri verður einnig veitt heiðursviðurkenning fyrir ævistarf; viðurkenningar fyrir útgefið efni á sviði myndlistar; áhugaverðasta endurlitið og áhugaverðustu samsýninguna, en í þessum fjórum flokkum er ekki tilnefnt. Hér á eftir má lesa brot úr umsögnum dómnefndar um þá listamenn sem tilnefndir eru í ár.

Amanda Riffo

„Amanda er frönsk-sílesk myndlistarkona sem hefur verið búsett í Reykjavík frá árinu 2012. Hún útskrifaðist frá École nationale supérieure des beaux-arts árið 2002 með MA-gráðu í myndlist. […]

Það er mat dómnefndar að House of Purkinje sé einstaklega áhugaverð sýning sem virðist í upphafi vera hlé á uppsetningarferli sýningar á meðan hvert smáatriði í glundroða slíkra ferla er listaverk, sem endurspeglar á snjallan hátt vinnusiðferði innan listheimsins og skapar breyttan veruleika þar sem hver hlutur er sviðsett útgáfa af sjálfum sér, rétt eins og á kvikmyndasetti.“

Arnar Ásgeirsson

„Arnar lauk BA-gráðu í myndlist frá Gerrit Rietveld-akademíunni í Amsterdam árið 2009 og MA-gráðu í myndlist frá Sandberg Institute í Amsterdam árið 2012. Arnar hefur frá útskrift verið virkur í sýningarhaldi bæði hér heima og erlendis. […] Það er mat dómnefndar að í sýningunni Hreinsunaraðferðir takist Arnari á einstakan hátt að sameina vísanir og merkingu úr ólíkum áttum á óvæntan og klókan hátt og kjarna samtal samtíma okkar um staðalímyndir og hugmyndir sem krefjast endurskoðunar.“

Geirþrúður Finnbogad. Hjörvar

„Geirþrúður lauk námi í Rijksakademie van beeldende kunsten í Amsterdam árið 2008. Hún útskrifaðist með MFA-gráðu í myndlist við Konsthögskolan í Malmö árið 2005 og með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2002. […] Það er mat dómnefndar að með sýningunni Vísitölu takist Geirþrúði með einstökum tengingum sínum milli þekkts myndmáls og fagurfræðilegra útgangspunkta, auk áleitinna spurninga um víðtæka merkingu hlutanna í kringum okkur, að skapa sér sitt eigið, sem á sér sérstöðu í íslensku listalífi.“

Ólöf Nordal

„Ólöf Nordal stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1981-85, Gerrit Rietveld-akademíuna í Hollandi 1985 og hlaut MA-gráðu frá Cranbrook Academy of Art, Michigan, 1989-91 og MFA-gráðu frá höggmyndadeild Yale-háskóla 1991-93. Ólöf á að baki veigamikinn feril og hafa verk hennar verið sýnd víðs vegar um heiminn og í helstu listasöfnum og sýningarstöðum hér á landi. […] Það er mat dómnefndar að sýningin Fygli endurspegli kraftmikið vald Ólafar á skúlptúrnum og að í þríþættri innsetningu hennar skapist sterk frásögn, áhrifamikil upplifun sem færir áhorfendur inn á óskilgreint svæði hins viðkvæma og í senn gróteska í náttúrunni, tengslum mannsins við hana og eigið ímyndunarafl.

Hvatningarverðlaunin

Almar Steinn Atlason útskrifaðist frá myndlistardeild LHÍ 2018. „Verk Almars varpa gjarnan upp spurningum um hlutverk og ímynd listamannsins og hvað geti talist list eða hvar listin geti átt sér stað. […] Gjörningurinn og sýningin Almar í tjaldinu fór fram síðsumars í Listasafni Svavars Guðnasonar á Höfn í Hornafirði þar sem listamaðurinn fetaði í fótspor Ásgríms Jónssonar, listmálara. […] Það er mat dómnefndar að Almari takist á kíminn en sannfærandi hátt að ávarpa í gjörningnum og sýningunni Almar í tjaldinu ekki aðeins íslenska listasögu heldur einnig staðbundna sögu Hornafjarðar bæði hvað varðar mannlíf og náttúru, sem þýðist yfir í víðara samhengi samtímans.“

Brák Jónsdóttir útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist frá LHÍ 2021. „Á sýningunni Möguleg æxlun í Gróðurhúsi Norræna hússins í Reykjavík mátti sjá skúlptúra sem unnir voru í náttúruleg jarðefni, trjábörk og ál. […] Það er mat dómnefndar að skúlptúrar Brákar og gjörningatengsl hennar við marga þeirra slái áhugaverðan tón í myndlistinni og að í þeim kjarnist margar af mikilvægari spurningum samtímans um tengsl manns og náttúru, vaxtarferli og hlut ímyndunaraflsins í sköpun veruleikans á jaðri hins mögulega og ómögulega.“

Sara Björg Bjarnadóttir útskrifaðist með BA-gráðu frá myndlistardeild LHÍ 2015. „Á einkasýningu sinni, Tvær eilífðir á milli 1 og 3, í Listasafni Akureyrar skapar Sara Björg nokkuð óhugnanlegt rými sem virðist vera til handan tíma, rúms og veruleika. […] Það er mat dómnefndar að sýning Söru Bjargar kanni samspil líkamlegra hvata og hins gagnrýna huga á áhugaverðan hátt.“

Höf.: Silja Björk Huldudóttir