Hermína Jónsdóttir fæddist á Akureyri 14. janúar 1932. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð 17. febrúar 2024.

Foreldrar hennar voru Jón Sigurðsson og Rannveig Sigurðardóttir. Systur Hermínu voru sex: Ingibjörg, Ester, Jakobína, Ragnhildur, Pálína og Sigríður. Þær eru allar látnar.

Hermína giftist 1. mars 1958 Níelsi Jakobi Erlingssyni frá Hvalba á Suðurey, f. 10. júlí 1933, d. 9. apríl 2020. Foreldrar hans voru Erling Niclasen og Maria Elisabet Fredrikka Niclasen.

Börn Hermínu og Níelsar eru fjögur: 1) Rannveig María, f. 3. ágúst 1959, eiginmaður hennar er Dag Albert Bårnes, f. 1960. Börn þeirra eru Jón Albert, María Elísabet og Anna Margrét. 2) Erling, f. 5. febrúar 1962, eiginkona hans er Ann Merethe Niclasen, f. 1962. Börn þeirra eru Jan Hermann, Rebekka, Níels Jakob og Íris. 3) Anna Marit, f. 26. september 1966, eiginmaður hennar er Jón Stefán Baldursson, f. 1960. Börn þeirra eru Daði, Freyr og Katrín. 4) Ragnhildur Jóna, f. 11. september 1969. Barnabarnabörnin eru orðin tólf.

Hermína fór ung suður að vinna fyrir Hjálpræðisherinn þar sem hún kynnist Níelsi eiginmanni sínum. Hún starfaði lengst af sem húsmóðir á Akureyri en þegar börnin urðu eldri sinnti hún ýmsum störfum, m.a. í verslun og í fyrirtæki þeirra Níelsar, Stáliðn. Síðustu starfsárin vann hún við umönnun fatlaðra. Hún var virk í starfsemi Hjálpræðishersins og Gídeon.

Útför Hermínu fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 1. mars 2024, klukkan 13.

Við systkinin erum á margan hátt ólík og metum hluti gjarnan á mismunandi hátt. En við erum svo hjartanlega sammála um að betri mömmu hefðum við ekki getað fengið. Þess vegna kveðjum við í dag með miklum söknuði, en umfram allt þakklæti, móður okkar Hermínu Jónsdóttur, betur þekkta sem Hemmu.
Sem ung kona flutti hún til Reykjavíkur til að vinna á Gesta- og sjómannaheimili Hjálpræðishersins og þar kynntist hún honum sem valinn var til að fylgja henni í rúm 60 ár. Níels Jakob var einn þeirra fjölmörgu færeysku manna sem á þeim tíma komu til Íslands. Séra Bjarni gaf þau saman í Reykjavík, á þessum degi, 1. mars, fyrir 66 árum en nokkrum árum síðar fluttu þau norður til Akureyrar og festu fljótlega kaup á íbúð í Strandgötu 25b.
Við systkinin nutum mikils ástríkis sem birtist meðal annars í því að í upphafi dags var alltaf morgunmatur á borðum og eins í hádeginu þegar við komum heim í hádegishlé. Svo ekki sé talað um fötin sem hún saumaði á okkur.
En ást mömmu fundum við fyrst og fremst í hlýju og að við gátum alltaf treyst á að hún elskaði okkur skilyrðislaust. Við vissum líka að alla morgna báðu þau fyrir öllum afkomendum með nafni auk þeirra sem höfðu hringt og beðið um fyrirbæn.
Ein af systrum mömmu, Ester, hafði Downs-heilkenni og það kom því ekki á óvart að starf með fötluðum yrði fyrir valinu þegar hún fór út á vinnumarkaðinn aftur, komin yfir fertugt eftir að hafa varið mestum tíma í barnauppeldi og heimilisstörf.
Það er ómögulegt að minnast á mömmu án þess að nefna barnabörn hennar 10 og langömmubörnin 12. Við börn hennar áttuðum okkur best á hvaða forréttinda við nutum þegar við sáum hvernig hún, ásamt pabba, jós af kærleika, gleði og umönnun yfir þessa litlu afkomendur. Oft var bakað, horft á fótbolta en stundum bara spjallað. Það var ekki nauðsynlegt að gera eitthvað sérstakt, bara vera með ömmu. Svo var alltaf til ísblóm í frystinum.
Mamma tók virkan þátt í starfi Hjálpræðishersins og var Heimilasambandið henni sérlega hugleikið. Um miðjan tíunda áratuginn voru fáar konur sem sóttu fundi Heimilasambandsins, hún hringdi þá í konur, bauð þeim á fund, hvatti aðrar til að byrja aftur að sækja fundi og þetta bar tilætlaðan árangur. Fleiri og fleiri sóttu Heimilasambandsfundi og mamma sinnti forystu þar til fjölda ára.
Mamma bjó heima í Kjarnagötu þar til hún var orðin níræð. Þá hafði hún misst pabba, málstol var farið að vera henni erfitt og hún var svolítið týnd í þessum heimi.
Því var það mikið lán að henni bauðst pláss á Lögmannshlíð, fyrst í Sandgerði og svo í Melgerði. Þar leið henni vel og við verðum ætíð þakklát starfsfólkinu þar fyrir góða umönnun.
Við sáum mömmu hraka mikið síðustu mánuði og teljum að það sé lausn fyrir hana að fá hvíldina. Við höfum þá einföldu trú að hún hafi nú á ný sameinast honum Kobba sínum, foreldrum og systrum. Og litlu stúlkunni sem þau misstu forðum. Sumum finnst þessi trú mikil einfeldni og eingöngu til þess að slá á sáran söknuð og missi. Við hins vegar felum góða móður okkar í faðm frelsarans sem við trúum að muni taka á móti henni og opna hlið himnaríkis og kalla: „Hún Hemma af Eyrinni er komin!“

Rannveig María, Erling, Anna Marít, Ragnhildur.

Ég var svo heppinn að eiga þessa ömmu, bestu ömmuna!

Ömmu sem bjó til besta grjónagrautinn, appelsínukökuna og lagkökuna. Ömmu sem var svo hlý, skemmtileg, hreinskiptin og yndisleg. Ömmu sem hafði endalausa trú á manni og áhuga á því sem maður gerði, hvort sem það var tengt skóla, vinnu eða íþróttum. Hún hafði í fyrsta og eina skiptið áhyggjur þegar hún frétti af mætingu á Heimdallarfundi og mér að þvælast uppi í Valhöll.

Dýrmætast var þó að fá að upplifa ömmu sem langömmu og finna ástina sem hún sýndi stelpunum okkar. Stelpurnar elskuðu að fara til langömmu, fá að sitja með henni í stólnum og njóta. Mun aldrei gleyma gleðisvipnum á ömmu þegar við birtumst óvænt til hennar í síðustu heimsókn okkar.

Söknuðurinn er svo mikill en ég ylja mér við þá huggun að amma sé sameinuð honum afa, því saman voru þau best.

Jan Hermann Erlingsson.

Elsku amma.

Það er erfitt að setjast niður og koma þakklæti okkar og ást til þín í orð. Ósjálfrátt hefur hugurinn reikað víða síðan þú kvaddir okkur. Fyrstu minningarnar af þér einkennast af tilhlökkun og spennu að komast í heimsókn eða pössun til ömmu Hemmu og afa Níelsar. Ykkar heimili var endalaus uppspretta ævintýra, kærleiks, leikja, útiveru og góðgætis. Þar fundum við fyrir þinni smitandi lífsgleði, skilyrðislausu ást og þolinmæði. Strax í bernsku okkar vorum við höfð með í öllum heimilisverkum, hvort sem það var eldamennska, þvottur, garðvinna eða viðgerðir. Allar stundir í Lönguhlíð voru gæðastundir, uppfullar af kennslu, athygli og umburðarlyndi. Sömuleiðis fengum við að fylgja með í flest erindi utan heimilisins. Í minningunni snerust öll þau erindi um sjálfboðastörf og vinnu fyrir náungann, sem er góður vitnisburður um ævistarf og arfleifð ykkar.

Það var mikil gleðistund hjá okkur systkinunum þegar okkur var tilkynnt um fyrirhugaðan flutning í Kjarnagötu, nýja íbúðin varð að algjöru aukaatriði þegar við heyrðum af nágrönnunum. Þessir flutningar reyndust vera eitt mesta gæfuspor lífs okkar og það er að stórum hluta ykkur að þakka. Það var ómetanlegt að hafa þennan greiða aðgang að heimilinu ykkar. Við gátum alltaf treyst á að vera tekið með opnum örmum og brosi. Hvort sem erindið var að létta af sér áhyggjum, fá klapp á bakið eða komast hjá heimilisverkum, áttum við alltaf öruggt skjól í sófanum ykkar. Sömuleiðis var hægt að treysta á næði til lærdóms og sköpunar, fótbolta í sjónvarpinu og appelsínukökuna.

Þú hafðir einstakt lag á að hvetja okkur áfram í verkefnum lífsins. Með jákvæðnina að vopni fylltir þú okkur sjálfstrausti hvort sem það var í námi, íþróttum, hljóðfæraleik eða öðrum verkefnum. Án vafa hvatti þetta okkur áfram en aldrei fundum við fyrir neinni pressu frá þér. Einungis einlægum vilja þínum um að okkur myndi vegna vel. Jafnvel síðustu árin þegar kraft þinn fór að þverra fundum við að þú hafði hagsmuni okkar fyrir brjósti. Við munum koma til með að sakna þín ótrúlega en það er ekki annað hægt í sorginni en að fyllast þakklæti. Þakklæti fyrir að hafa átt þig að öll þessi ár og vera hluti af þínu fallega lífi. Þakklæti fyrir kærleikann, hlýja faðminn og allt sem þú kenndir okkur. Þakklæti fyrir trú þína á eilíft líf og að þú fáir þína verðskulduðu hvíld við hlið afa. Minning þín og gildi lifa í hjörtum okkar. Við munum gera okkar allra besta við að breiða út þinn óþrjótandi kærleik sem víðast og hjálpa náunganum eins og þú kenndir okkur.

Daði Jónsson, Freyr
Jónsson, Katrín Jónsdóttir.

Þú varst alltaf svo góð og skemmtileg og áttir alltaf nammi. Þú vildir alltaf knúsa okkur og lesa fyrir okkur. Okkur fannst skemmtilegast að vera með þér og þér fannst skemmtilegast að vera með okkur.

Núna ert þú í hjartanu okkar við getum beðið til Guðs þegar við söknum þín. Við erum búnar að fara í garðinn til langafa og segja honum að þú sért á leiðinni til hans.

Langömmustelpurnar þínar,

Klara Elea, Anna Svala og Emma Margrét.

Hemma var með skemmtilegri konum sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Hún tók mér frá fyrsta degi sem sinni eigin og í henni átti ég dýrmæta vináttu. Ég vil trúa því að við höfum náð svo vel saman því við áttum það sameiginlegt að brenna fyrir samfélaginu okkar en um leið láta stundum illa að stjórn. Það var eitthvað svo hressandi við lífsviðhorf Hjálpræðisherskonunnar sem var uppfull af kærleika gagnvart öllum en lét fátt ósagt sem henni mislíkaði, hvort sem það voru rifnar gallabuxur eða annar óskapnaður.

Á meðan hún og Níels bjuggu enn á Kjarnagötunni var alltaf öruggt að okkar biði kvöldkaffi við komuna norður, sama þó langt væri liðið á kvöld. Fyrir norðan gerðum við lítið annað en að sitja hjá þeim gömlu og njóta samverunnar, horfa á íþróttir, drekka óhóflegt magn af kaffi og aldrei klikkaði laugardagsgrauturinn. Eftir að við Jan eignuðumst stelpurnar urðu samverustundirnar enn dýrmætari og ég mun aldrei fullþakka hversu dásamleg langamma hún var dætrum mínum sem hún baðaði í ást og hlýju.

Hún Hemma væri ekki ánægð með mig að ausa öllu þessu lofi á hana svona opinberlega en hún verður að fyrirgefa mér það, stundum læt ég illa að stjórn.

Ég ann þér hvíldarinnar, mín kæra, hafðu þökk fyrir allt og allt.

María
Guðjónsdóttir.