Aðvörun Rússlandsforseti fór ekki í neinar grafgötur í ávarpi sínu og nefndi beitingu kjarnavopna berum orðum.
Aðvörun Rússlandsforseti fór ekki í neinar grafgötur í ávarpi sínu og nefndi beitingu kjarnavopna berum orðum. — AFP/Sergey Guneyev
Vladimír Pútín Rússlandsforseti varaði í gær við „raunverulegri“ hættu á kjarnorkustyrjöld færðu vesturveldin sig frekar upp á skaftið í Úkraínudeilunni. Þessi orð lét forsetinn falla í árlegu ávarpi sínu til rússnesku þjóðarinnar í ráðstefnuhöllinni Gostiny Dvor í Moskvu

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Vladimír Pútín Rússlandsforseti varaði í gær við „raunverulegri“ hættu á kjarnorkustyrjöld færðu vesturveldin sig frekar upp á skaftið í Úkraínudeilunni.

Þessi orð lét forsetinn falla í árlegu ávarpi sínu til rússnesku þjóðarinnar í ráðstefnuhöllinni Gostiny Dvor í Moskvu. Kvað hann rússneska hermenn í sókn í Úkraínu og sagði afleiðingarnar verða hörmulegar því ríki sem dirfðist að senda hermenn til Kænugarðs.

„Þeir hafa hreyft því að senda herlið til Úkraínu [...] Afleiðingarnar fyrir þá sem hyggjast skerast í leikinn með þeim hætti verða enn hörmulegri,“ sagði Pútín og nefndi notkun kjarnavopna berum orðum. „Þeir ættu að lokum að átta sig á því að við búum einnig yfir vopnum sem geta hæft skotmörk á þeirra yfirráðasvæði. Allt sem vesturveldin aðhafast skapar raunverulega hættu á væringum með beitingu kjarnavopna og þar með tortímingu siðmenningar,“ sagði Pútín í ávarpi sínu.

Virtist sjá að sér um tíma

Er ummælum forsetans talið beint til Emmanuels Macrons Frakklandsforseta, sem fyrr í vikunni neitaði að útiloka að Frakkar sendu herlið til Úkraínu, nokkuð sem aðrir evrópskir leiðtogar sóru þegar af sér.

Hefur Pútín ítrekað sætt gagnrýni vestrænna leiðtoga fyrir óvarlega orðræðu um kjarnavopn og virtist hann raunar hafa séð að sér á tímabili – í kjölfar þess að hafa fyrst dregið Rússland frá samningaborðinu í viðræðum um kjarnorkuvopnaeftirlit og svo lýst því yfir að hann væri „ekki að blekkja“ þegar hann kvaðst reiðubúinn að grípa til kjarnorkuvopna.

Afgreiddu bandarískir embættismenn hótanir Pútíns sem „ábyrgðarlausar“ og kváðu ekki ástæðu til að óttast. „Þetta er ekki fyrsta skiptið sem við heyrum ábyrgðarlausan málflutning frá Vladimír Pútín,“ sagði Matthew Miller, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, við fréttamenn í gær.

Bætti hann því við að Bandaríkjamenn hefðu áður átt beinskeyttar viðræður við Rússa um afleiðingar þess að bregða kjarnorkuvopnum.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson