Fjölhæf Fríða Hansen, hesta- og tónlistarkona, hefur sungið frá barnsaldri.
Fjölhæf Fríða Hansen, hesta- og tónlistarkona, hefur sungið frá barnsaldri. — Ljósmynd/Gunnlöð Rúnarsdóttir
Fyrsta plata Fríðu Hansen, Vaxtarverkir, kom út í fyrrasumar. Á henni eru sex lög og verða útgáfutónleikar á Sviðinu á Selfossi í kvöld. „Ég frumflyt líka nokkur ný eigin lög,“ segir tónlistarkonan, en sérstakir gestir verða Hreimur Örn…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Fyrsta plata Fríðu Hansen, Vaxtarverkir, kom út í fyrrasumar. Á henni eru sex lög og verða útgáfutónleikar á Sviðinu á Selfossi í kvöld. „Ég frumflyt líka nokkur ný eigin lög,“ segir tónlistarkonan, en sérstakir gestir verða Hreimur Örn Heimisson söngvari, Anna Hansen, söngkona og systir Fríðu, og kórinn Sunnlenskar raddir. Tónleikarnir byrja klukkan 21:00 og er miðasala á netinu (svidid.is).

Fríða ólst upp í Landsveitinni, býr þar og starfar við hrossarækt, tamningar og ferðaþjónustu og sinnir tónlistinni samhliða. „Ég hef sungið alla tíð, skrifað sögur og ljóð og samið lagstúfa á píanó og orgel.“ Bætir við að hún kenni gjarnan tamningar erlendis og þá hafi hún líka fengið tækifæri til að syngja opinberlega. „Eitt sinn hélt ég til dæmis jólatónleika í Sviss.“

Hoppaði upp á svið

Eftir að hafa verið í Tónlistarskóla Rangárþings fór Fríða í söngnám í Tónsmiðju Suðurlands. Róbert Dan Bergmundsson, bassaleikari í Made in Sveitin, bandi Hreims, spilaði þá oft með henni í prófum í skólanum. „Síðan ég var lítil stelpa hef ég alltaf verið mikið fyrir að trana mér fram, spilaði gjarnan fyrir gesti á veitingastaðnum heima, Heklusetrinu, og í afmælum og þess háttar. Svo æxlaðist það þannig að endrum og sinnum fékk ég að hoppa upp á svið og syngja með Hreimi, þegar bandið var að skemmta á sveitaböllum, sem ég fór á. Þannig kynntist ég honum og eitt leiddi af öðru,“ segir hún um ferilinn.

Til nánari skýringar segir Fríða að þegar hún hafi verið ólétt 26 ára hafi hún áttað sig á því að þótt hugurinn hafi lengi tengst hestum og búskap og hún hafi útskrifast úr hestafræðideild Háskólans á Hólum hafi hún alltaf viljað vera tónlistarkona, hafi samið lög en ekkert gefið út. „Þá sendi ég Hreimi nokkur lög til að hlusta á, honum leist vel á þau og bauð mér að syngja með sér lagið „Lítið hús“ sem kom út sumarið 2020 og sat lengi á vinsældalistum.“

Haustið 2020 sendi Fríða frá sér lagið „Tímamót“, popplag með djassívafi. Árið eftir gaf hún út lagið „Höldum áfram“ og á Landsmóti hestamanna á Gaddastaðaflötum á Hellu sumarið 2022 sungu Fríða og Hreimur landsmótslagið „Drottning um stund“. „Ég samdi lagið ásamt Önnu systur og Vigni Snæ Vigfússyni, gítarleikara og söngvara í Írafári, og við fengum Hreim til að syngja það með mér.“

Anna Hansen hefur lengi verið söngkennari í Kaupmannahöfn og starfað sem söngkona í ýmsum verkefnum. „Hún hefur verið mér mikil fyrirmynd í og mig langaði að vera tónlistarkona eins og hún, þótt ég hafi farið aðra leið,“ segir Fríða og boðar frekari lagaútgáfu og tónleikahald í nánustu framtíð.

Höf.: Steinþór Guðbjartsson