Þessari vorvísu var gaukað að mér og fylgdi sögunni, að hún væri ort fyrir mörgum árum: Veðráttan er hagstæð, vindurinn er logn og vorið er að koma bak við skýin. Þeir segja mér í Grindavík að hundar éti hrogn en hamingja sé fallin ofan í dýin

Þessari vorvísu var gaukað að mér og fylgdi sögunni, að hún væri ort fyrir mörgum árum:

Veðráttan er hagstæð, vindurinn er logn

og vorið er að koma bak við skýin.

Þeir segja mér í Grindavík að hundar éti hrogn

en hamingja sé fallin ofan í dýin.

Á 16. degi yrkir Hallmundur Guðmundsson Kanaríljóð og birtir á Boðnarmiði:

Þó puði drjúgt og prumpi hér

– er postularnir skálma,

– þá augum fyrir margt er mér

og marga lít ég pálma.

Guðmundur Hagalín sat að sumbli á Hótel Íslandi. Þar kom Bjarni frá Vogi, þekkti hann ekki og spurði hver hann væri. Kynnti Hagalín sig þá með þessari hispurslausu sjálfslýsingu:

Eg hef farið yfir Rín,

eg hef drukkið brennivín,

ég er hundur, ég er svín,

ég er Gvendur Hagalín.

Baldvin Halldórsson kvað:

Ellin herðir átök sín

enda sérðu litinn.

Ævi-ferðafötin mín

fara að verða slitin.

Indriði Þorkelsson á Fjalli orti, þegar Pétur Jónsson ráðherra á Gautlöndum lést. Hinir ráðherrarnir munu hafa verið Jón Magnússon forsætisráðherra og Magnús Guðmundsson:

Er frétti ég lát hins mæta manns,

mér varð á að spyrja svo:

Fyrst guð tók einn úr óstjórn lands

á þá fjandinn hina tvo?

Sigurður Helgason á Jörva orti svo um Glym í Botnsdal:

Botns af háu brúnum fláu

breytinn þrymur,

vatni bláu fleytir fimur

fossinn sá er heitir Glymur.

Jóhanna Friðriksdóttir ljósmóðir kvað:

Þegið gætni, heimska, hik,

héðan þó ég víki.

Ég ætla að skreppa augnablik

inn í himnaríki.

Hjálmar Freysteinsson orti um flókin fjölskyldutengsl:

Lísbet talar lon og don

lofsamlega, það er von,

um fjarverandi,

fyrrverandi

tilvonandi tengdason.

Öfugmælavísan:

Hákarlinn í hnakk ég sá

hesti gröðum ríða,

flugu og eldfjall fljúgast á,

fálka kurla og svíða.