Frekar en að kaupa of stóran sendibíl segir Kjartan vert að skoða þann möguleika að kaupa í staðinn krók og kerru ef það þarf bara endrum og sinnum að auka flutningsgetuna.
Frekar en að kaupa of stóran sendibíl segir Kjartan vert að skoða þann möguleika að kaupa í staðinn krók og kerru ef það þarf bara endrum og sinnum að auka flutningsgetuna. — Ljósmynd/Stellantis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Orkuskiptin eru ekki bara bundin við einkabílaflotann og eru rafknúnir sendibílar óðara að ryðja sér til rúms. Hjá Ísband má finna fjölbreytt úrval af rafmagns sendibílum en FIAT Doblo og nýr FIAT Scudo eru nú komnir til landsins í rafmangsútgáfu og von á rafmögnuðum FIAT Ducato fljótlega

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Orkuskiptin eru ekki bara bundin við einkabílaflotann og eru rafknúnir sendibílar óðara að ryðja sér til rúms. Hjá Ísband má finna fjölbreytt úrval af rafmagns sendibílum en FIAT Doblo og nýr FIAT Scudo eru nú komnir til landsins í rafmangsútgáfu og von á rafmögnuðum FIAT Ducato fljótlega. „Allir rafmagns-sendibílarnir eru fáanlegir í mismunandi lengdum og þá eru þeir einnig fáanlegir með dísilmótor, bæði beinskiptir og sjálfskiptir,“ segir Kjartan Þór Reinholdsson sölustjóri atvinnubíla og bætir við að FIAT hafi verið í farabroddi í framleiðslu á sendibílum og verið á palli með mest seldu sendibílum í Evrópu.

Fyrir suma kaupendur er rafmagnið augljóslega besti valkosturinn en Kjartan segir rafmagnssendibíla þó ekki henta öllum og að enn sem komið er hafi tæknin ákveðna veikleika. „Framleiðendur hafa glímt við þá áskorun að rafhlaðan er þung og getur því haft áhrif á burðargetu bílsins miðað við sambærilegan bíl með dísilmótor. Þá getur drægnin spilað inn í en uppgefin drægni á rafmagns-Doblo er allt að 280 km á meðan Scudo kemst allt að 330 km á hleðslunni. Þá mun nýr rafmagns Ducato hafa allt að 370 km drægni,“ segir Kjartan og bætir við að nýr Ducato vinnuflokkabíll hafi fyrir skemmstu bæst við framboðið en sá bíll er með meðalstóran pall og tvær gerðir af húsum: hús sem rúmar ökumann og tvo farþega og hús sem rúmar ökumann og sex farþega en umræddur bíll verður fáanlegur í rafmangsútfærslu.

Klára pylsu á meðan bíllinn er hlaðinn

Kjartan bendir á að iðnaðarmaður sem starfar mestmegnist á höfuðborgarsvæðinu og þarf bíl til að ferja á milli staða tól og tæki, og skjótast af og til í byggingavöruverslanir, ætti ekki að eiga í nokkrum vanda með að skipta yfir í rafmagnið, svo fremi að hægt sé að stinga bílnum í samband yfir nóttina. „Drægnin dugar líka til að sinna verkefnum utan borgarmarkanna, og ef það skyldi gerast að hleðslan væri við það að tæmast þá er einfaldlega hægt að staldra við á hraðhleðslustöð. Á þeim tíma sem það tekur að klára eina pylsu er komin næg orka í rafhlöðurnar til að ljúka deginum. Þeir sem sjá hins vegar fram á að aka langar leiðir til að sinna verkefnum gætu verið betur settir með dísilbíl.“

Þá ættu rafmagns-sendibílar að falla mjög vel að þörfum verslana sem eru með sendla á ferðinni yfir daginn. „Það er hægur leikur að t.d. skjótast með eitt og eitt sjónvarp eða hægindastól og stinga bílnum í samband þess á milli, og veit ég af fyrirtækjum sem gengur ljómandi vel að hafa sendla og sölumenn á ferðinni um bæinn á rafmagnsbílum,“ segir Kjartan.

Spurður hve mikil notkunin þarf að vera til að gera rafmagns-sendibílinn að hagkvæmari kosti bendir Kjartan á að reikna megi með því að atvinnubílum sé ekið meira en heimilisbílum yfir árið og því geti munað um að nota ódýra raforku í stað jarðefnaeldsneytis, og munur á orkukostnaði á endanum jafnað þann verðmun sem er á rafmagns- og dísel-sendibílum. „En dæmið ræðst m.a. af því hvar bíllinn er hlaðinn, og getur t.d. verið umtalsvert dýrara að kaupa orkuna frá hraðhleðslustöð frekar en að nota venjulega hleðslustöð við heimilið eða fyrirtækið. Þá bættist nýlega við 6 kr gjald fyrir hvern ekinn kílómetra, sem breytir dæminu enn frekar, en á móti kemur að kaupendur geta reiknað með því að öll þjónusta við rafmagnsbílinn sé einfaldari og ódýrari en ef valinn væri díselbíll.“

Þrjú sæti fyrir skólaskutlið

En hvernig á að útbúa sendibílinn, og hverju má helst ekki sleppa? Kjartan segir það m.a. algengt að þriggja sæta sendibílar verði fyrir valinu enda bílarnir þá heppilegri til að t.d. skjótast með börnin í skólann á leið til vinnu. „Þá höfum við lagt á það áherslu að flytja inn sendibíla með hliðarhurðir báðu megin enda stórbætir það aðgengið þegar sækja þarf áhöld og efni. Undantekningin frá þessu eru bílaleigurnar sem vilja helst aðeins sendibíla með hefðbundna hurð að aftan og er þá dýnu komið fyrir í flutningsrýminu svo nota megi sendibílinn sem ferðabíl.“

Spurður hvort það sé flókið fyrir iðnaðarmenn og verslanir að velja sendibíl af hárréttri stærð segir Kjartan að einföld þarfagreining geti vísað veginn. „Ég er þeirrar skoðunar að það sé eins með sendibíla og með skó og fatnað að maður á að kaupa þá stærð sem maður passar í í dag, frekar en að velja eitthvað sem þarf að stækka upp í. Þeir sem velja sér stærri sendibíl en þeir þurfa standa oft í þeim sporum að bíllinn einfallega fyllist smám saman af drasli og óþarfa, auk þess að það getur verið erfitt að athafna sig á stærri bíl á svæðum þar sem götur eru þröngar, s.s. í Þingholtunum.“

Fyrir þá sem sjá fram á að þurfa endrum og sinnum að flytja stærri hluti á milli staða segir Kjartan vert að skoða að notast þá við kerru, frekar en að vera alla daga á stærri sendibíl. „Það er einfaldlega hægt að setja krók á sendibílinn, og draga kerruna á milli staða ef þörfin fyrir meiri flutningsgetu er bara tilfallandi.“

Laga pallbílana að þörfum kaupandans

Ísland er enn nokkuð á eftir Bandaríkjunum þegar kemur að því að nota pallbíla sem vinnutæki. Kjartan segir þetta þó vera smám saman að breytast og að voldugur RAM-pallbíll geti verið heppilegur valkostur fyrir fjölmarga aðila „Ég veit um nokkra rafvirkja, pípara og málara sem eru á pallbílum við vinnu sína og þá hafa bændur tekið ástfóstri við þessar bifreiðar enda með afburða dráttar- og burðargetu,“ segir hann en Ísband er umboðsaðili RAM-pallbílanna sem notið hafa mikilla vinsælda hér á landi og þykja falla vel að íslenskum aðstæðum. Ljóstrar Kjartan því jafnframt upp að Ísband muni í byrjun næsta árs kynna rafknúinn RAM 1500-pallbíl sem ætti að geta hentað stórum hópi fyrirtækja og einstaklinga.

Kjartan segir að pallbílar geti t.d. hentað vel til að flytja heybagga og aðra landbúnaðarvöru á milli staða, og eins ráði þeir vel við að draga stærstu hestakerrur. Ein ástæða þess að pallbílar nýtast bændum svona vel er að auk þess að gagnast við flutninga geta þeir rúmað alla fjölskylduna og eru pallbílarnir frá RAM gerðir til að takast á við erfið akstursskilyrði svo að komast má í kaupfélagið þó að þung færð sé á vegum.

„Þá eru margar björgunarsveitir á pallbílum ásamt opinberum aðilum einsog lögreglunni, Vegagerðinni og Landhelgisgæslunni. Ísband er eina bílaumboðið sem breytir bílumunum sjálft og miðast breytingar við að ökutækin haldi verksmiðjuábyrgð og höfum við verið að breyta þeim í takt við óskir kaupandans. Mjög algengt er að við setjum þá á 35, 37 eða 40 tommu dekk enda hentar RAM vel til slíkra breytinga.“

Spurður um hvort að gott aðgengi sé að tólum og tækjum sem geymd eru á pallinum segir Kjartan að bílarnir frá RAM séu hannaðir þannig að stíga má á þrep og þannig komast vandræðalítið að því sem pallurinn geymir. „Einnig er RAM fáanlegur með svokölluðum RAMBOX sem eru geymsluhólf í hliðunum á pallinum sem læsast með samlæsingunni en þar er hægt geyma ýmsa hluti og er aðgengi að þeim mjög gott, en RAM eini pallbíllinn sem býður upp á þessi geymsluhólf. Svo er líka hægt að fá útdraganlegan pall, og er hann þá eins og n.k. skúffa sem er dregin fram. Einnig eru til ýmsar gerðir af lokum sem hylja og verja það sem pallurinn geymir, en langa hluti á borð við stiga er hægt að festa við þverboga.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson