— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Endurbætur á kór Hallgrímskirkju hafa gengið vel að undanförnu og áætlað er að þeim ljúki í júní. Grétar Einarsson kirkjuhaldari segir að endurbæturnar hafi staðið í rúmt ár en kórinn hafi lengi legið undir skemmdum

Endurbætur á kór Hallgrímskirkju hafa gengið vel að undanförnu og áætlað er að þeim ljúki í júní. Grétar Einarsson kirkjuhaldari segir að endurbæturnar hafi staðið í rúmt ár en kórinn hafi lengi legið undir skemmdum.

„Þetta kom í ljós þegar setja átti upp nýja lýsingu. Steypuverkið var svo illa farið að það var ekki hægt að festa þar lampa. Þá lak inn í kór kirkjunnar. Við vonumst til þess að í júní verði búið að enduruppsteypa og setja steinsteypuklæðningu utan á kórinn,“ segir hann.

Þessi viðgerð hefur reynst mjög kostnaðarsöm að sögn Grétars. „Kostnaðurinn verður sjálfsagt nálægt 200 milljónum. Þetta eru gríðarlegar framkvæmdir. Við þurfum að sjá hvernig fjárhagsstaðan verður í júní, hvort við getum klárað að setja upp lýsinguna. Viðhald á kirkjunni er mjög dýrt.“

Eins og kom fram í Morgunblaðinu síðasta haust hlaut lýsingarhönnunarfyrirtækið Liska þekkt erlend verðlaun fyrir hönnun sína við Hallgrímskirkju, annars vegar í flokki innanhússlýsingar og hins vegar utanhússlýsingar. hdm@mbl.is