Sunna Jónsdóttir fæddist 24. janúar 1982 á Fæðingarheimili Reykjavíkur og ólst upp í Hvítarhlíð í Bitrufirði á Ströndum. Hún lést á HSN Húsavík 11. febrúar 2024.
Foreldrar hennar eru Sigríður Einarsdóttir og Jón Hákonarson, blóðfaðir er Ingvar Magnússon.
Systkini Sunnu eru sex: Lilja Guðrún, maki hennar Ásmundur Ragnar og eiga þau tvö börn. Pétur Ingi, maki hans Bryndís Ben og eiga þau eina dóttur. Kristín, maki hennar Benedikt og eiga þau fjögur börn. Erna Ósk, maki hennar Aron Líndal og eiga þau þrjú börn. Einar Hákon, maki hans Harpa Mjöll og eiga þau einn son. Helga Rún, maki hennar Ásbjörn og eiga þau tvö börn.
Eiginmaður Sunnu er Kári Kristjánsson, f. 18. janúar 1979. Foreldrar hans eru Rannveig Benediktsdóttir og Kristján Pálsson sem lést 2020.
Sunna og Kári hófu sambúð á Húsavík haustið 2015 og voru til heimilis á Brávöllum 11. Þau gengu í hjónaband 16. júní 2018. Barn Sunnu og Kára er Jón Guðni, f. 15. september 2017, eldri börn Kára eru Lilja Lea, f. 31. nóvember 2011, og Óskar Arnar, f. 16. september 2013.
Sunna sleit barnsskónum á Ströndum þar sem foreldrar hennar bjuggu í sambýli við foreldra Sigríðar, Herselíu (Heddu) og Einar, og var á milli þeirra og Sunnu gott og náið samband alla tíð. Yngsti bróðir Sigríðar, Magnús, ólst upp með Sunnu, á milli þeirra var nokkurs konar systkinasamband sem með árunum þróaðist í fallega og nána vináttu. Á bænum var sauðfjárbú en einnig nokkrar kýr og hestar sem voru ætíð uppáhaldsskepnur Sunnu og átti hún sjálf hesta frá fermingu allt til haustsins 2023. Árið 2001 var búskap hætt í Hvítarhlíð og fjölskyldan flutti á Marbakka á Svalbarðsströnd.
Sunna var samviskusamur námsmaður. Hún gekk í grunnskóla í Broddanesi og á Hólmavík, nam einn vetur á hestabraut við Framhaldsskólann á Skógum undir Eyjafjöllum og útskrifaðist búfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri árið 2001. Hún lauk síðar stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri og nokkru síðar B.ed.-gráðu í kennslufræðum frá Háskólanum á Akureyri en varð því miður að hætta námi af heilsufarsástæðum áður en henni tókst að ljúka prófi til kennara. Samhliða námi og að námi loknu vann Sunna ýmis störf og var ætíð samviskusöm, ósérhlífin og dugleg til vinnu, m.a. var hún aðstoðarverslunarstjóri í 10-11 á Akureyri. Á Húsavík starfaði Sunna í Húsasmiðjunni við góðan orðstír, þótti þjónustulunduð og með eindæmum lausnamiðuð.
Í byrjun árs 2018 greindist Sunna með illvígt krabbamein. Hún lét það aldrei stoppa sig, hélt áfram að lifa lífinu á sínum forsendum með jákvæðni og áræði og lét aldrei heyra á sér nokkra uppgjöf eða neikvæðni þrátt fyrir margs konar mótbyr. Að lokum hafði þó meinið vinninginn í baráttunni við Sunnu sem neitaði að gefast upp allt fram á síðasta dag.
Útför Sunnu verður gerð frá Húsavíkurkirkju í dag, 1. mars 2024, klukkan 14. Streymt verður frá athöfninni á vef Húsavíkurkirkju.
Elsku Sunna, þá er komið að því. Stundin sem við höfum vitað að biði handan við eitthvert hornið síðastliðin sex ár. Það er ótrúlegt að hugsa til þess hve langt er síðan við fengum fréttirnar, ólæknanlegt krabbamein. Þegar ég hugsa til baka get ég ekki annað en dáðst að æðruleysi þínu og auðmýkt gagnvart hlutskipti þínu. Það eru fáir sem komast með tærnar þar sem þú hafðir hælana í ákveðni og jákvæðu viðhorfi og þú lést ekkert og engan segja þér að þú gætir ekki gert eitthvað sem þú ætlaðir þér. Stuttu eftir að greiningin kom tókst þú af mér loforð um að skrifa eitthvað að þér látinni. Það var auðsótt en ég væri að ljúga ef ég segði að það væri auðvelt að sitja hér og skrifa þessi orð.
Þú varst stóra systirin og tókst það hlutverk mjög alvarlega. Þú vildir passa upp á okkur yngri systkini þín og barst einnig mestu ábyrgðina af okkur. Stundum fannst mér þú óþarflega stjórnsöm, var ekki alltaf par sátt við þínar ákvarðanir og sem barn reyndi ég iðulega mitt besta til að ná einhverri stjórn af þér. Það var varla hægt að finna ólíkari systur, hvort sem er í útliti, hegðun eða skoðunum. Við áttum það til að takast hraustlega á um ólíkar skoðanir eða ákvarðanir sem krakkar og unglingar. En með árunum lærðum við þó að meta þennan mun á okkur og gátum síðustu árin jafnvel leitað hvor til annarrar með ýmsar vangaveltur.
Sumt gátum við þó sameinast um, við vorum til að mynda báðar miklar prjónakonur, þó auðvitað hvor á sínum meiði þar eins og víða annars staðar. Ég með fínt garn og fína prjóna en þú helst ekki annað en íslenskan lopa og því grófara því betra. Við höfðum líka báðar sótsvartan húmor og stundum tókst þér að stuða aðra með því að gera grín að aðstæðum þínum. Mér fannst það alltaf ákveðinn styrkur að heyra þig bjóða örlögunum birginn á þennan hátt. Fyrst þú gast staðið bein í baki og hlegið framan í hættuna þá gat ég svo sannarlega fylgt þér. Við höfðum líka báðar mjög gaman af því að syngja og höfðum svipaðan tónlistarsmekk. Þegar við vorum yngri sungum við oft saman og lékum okkur að því að radda mismunandi lög án þess að kunna nokkuð fyrir okkur í þeim efnum. Við vorum þokkalega lagvissar og þú með breitt tónsvið svo við gátum sett saman hinar ýmsu útfærslur. Eina vandamálið var að þér tókst ómögulega að læra suma texta en það stoppaði þig ekkert frekar en nokkuð annað. Þú skáldaðir bara jafnharðan í eyðurnar sem iðulega sló mig út af laginu og skildi okkur báðar eftir í hláturskasti. Síðustu árin sungum við minna en í staðinn fórstu að syngja með börnunum mínum. Það er mér minnisstætt kvöldið sem þið Unnur sátuð í myndsímtali, hún í stofunni hjá mér og þú á sjúkrahúsinu á Húsavík, og sunguð saman öll þau leikskólalög sem Unnur bað um. Þannig muna börnin mín Sunnu frænku, alltaf til í fíflagang og glens og vissi fátt skemmtilegra en að fá börnin í kringum sig til að brosa og hlæja.
Bless, elsku Sunna mín. Ég veit að þú heldur áfram að passa upp á okkur öll og við sjáumst svo aftur þegar minn tími er kominn. Hakúna matata!
Kristín Jónsdóttir.
Elsku frænka.
Þó við kynntumst ekki fyrr en ég var að leggja leið mína í framhaldsskóla á Akureyri, þá var eins og þú hefðir alltaf verið til staðar fyrir mig. Árin mín á Akureyri eru ekkert nema frábærar minningar og það er þér að þakka. Vídeókvöld, stærðfræðiaðstoð, endalaus tími í hesthúsinu og ég gæti haldið endalaust áfram. Toppurinn var samt alltaf að koma með í mömmumat á sunnudögum á Marbakka. Þar eignaðist ég líka bestu fjölskyldu sem tók litlu mér eins og sinni eigin og fyrir það verð ég alltaf ævinlega þakklát. Ég dáðist alltaf að jákvæðni þinni. Það var bara ekki til vesen, vandamálin voru til að leysa þau.
Takk fyrir allar ráðleggingarnar, hvort sem ég var tilbúin til að hlusta á þær eða ekki. Ef kom upp vandamál hjá mér, þá dugði yfirleitt eitt símtal til þín og þú hættir ekki fyrr en ég sá jákvæðu hliðarnar á málinu.
Þrátt fyrir að fjarlægðin á milli okkar færi að lengjast, þá styrktust stoðirnar enn frekar. Myndir og myndsímtöl með krökkunum okkar, hrossin og pælingar um alla heima og geima.
Ef ég ætti til eitt orð að lýsa þér Sunna, en þau verða að vera töluvert fleiri en það. Þú varst höfðingi heim að sækja, á Akureyri og síðar á Húsavík með yndislega Kára þínum. Vinur vina þinna, það geislaði af þér jákvæðnin og gleði. Þú lagðir kapp á að sjá skoplegu hliðarnar. Þú varst og verður áfram sólin í lífi svo margra.
Það er kannski ekki furða að dóttir mín fái að bera nafnið þitt. Ég mun halda því áfram á lofti og sjá til þess að dóttir mín fái að vita hvaðan nafn hennar kemur.
Þangað til næst.
Hakúna matata.
Dagrún Kristinsdóttir.
Elsku hjartans Sunna vinkona okkar hefur kvatt þennan heim eftir hetjulega baráttu við óvelkominn gest, sem tók sér bólfestu í henni. Fyrir sex árum var dómurinn kveðinn upp en síðan þá hefur hún komið læknavísindum og okkur sem hana þekktum sífellt á óvart. Annað eins baráttuþrek hefur ekki sést; Sunna var Strandamaður og stóð undir nafni.
Sunna var hrein og bein, með flugbeittan húmor sem kom henni áfram. Hún var hetja sem við mættum öll taka okkur til fyrirmyndar. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með hvernig hún tókst á við þennan illvíga sjúkdóm af miklu æðruleysi og ekki síður hvernig hún stóð af sér mótvindinn sem blés úr ólíklegustu átt!
Missir Jóns Guðna er mikill, og það er honum mikils virði að fá ömmufaðm og afaknús til að umvefja sig og hugga á þessum erfiðu tímum. Ekki síður í gegnum lífið sem fram undan er.
Við sendum Jóni Guðna okkar innilegustu samúðarkveðjur og fjölskyldunni allri. Sunna svífur allt um kring og faðmar drenginn sinn.
Ásta og Vilhjálmur.
Það er alltaf jafn sárt og ósanngjarnt þegar fólk í blóma lífsins er hrifið burt úr þessari jarðvist til mikilvægari hlutverka eins og Sunna okkar hefur nú verið kölluð til.
Þau gleymast aldrei okkar fyrstu kynni af Sunnu, það var fyrsta kvöldið sem við stóðum saman í dyravörslu í Sjallanum.
Þegar hún kom þessi skellibjalla, hlæjandi með ljósu krullurnar sínar, björtu augun og brosið sem lýsti upp umhverfið. Okkur lærðist það fljótt að Sunna var einstök vinkona, traust og góðhjörtuð með einstaka nærveru og mjög gott að vinna með henni. Krakkarnir okkar elskuðu hana frá fyrstu kynnum enda ekki annað hægt því hún hafði svo ótrúlega þolinmæði fyrir þeim.
Sunna elskaði hestana sína og í hesthúsinu naut búfræðingurinn sín í botn, helst í lopapeysunni og ullarsokkunum og ekkert alltaf nauðsyn að hafa hnakk í reiðtúrum.
Oft er talað um að ástfangnar stúlkur svífi um á bleiku skýi, svoleiðis ferðaðist Sunna sko um þegar hún kynntist Kára sínum. Hann var að vísu til að byrja með einhver dularfullur maður sem hvorki hafði nafn né búsetustað. Við fengum að vita að hann ætti tvö yndisleg börn áður en við fengum að vita að hann hefði nú nafn. Fljótlega flutti Sunna svo austur til Kára síns og barnanna. Svo kom Jón Guðni til sögunar, fallegur og einstaklega skýr drengur. Samband þeirra var einstakt og fallegt. En ekki mikið löngu seinna börðu svo veikindin dyra. Veikindi sem elsku Sunna barðist við af fullu afli allt til enda.
Við hittumst alltof alltof sjaldan eftir að hún flutti austur, en héldum alltaf góðu síma- og skilaboðasambandi sem er okkur einstaklega dýrmætt.
Nú er þessi einstaka vinkona okkar laus við þrautir sínar, laus frá krabba-ógeðinu.
Við trúum því að nú sitji hún með prjónana sér í hönd, hlæjandi með ljósu krullurnar sínar, björtu augun og brosið sem lýsir upp himnaríki.
Góða ferð, góða ferð, góða ferð
góða ferð já það er allt og síðan bros
því ég geymi alltaf vina það allt er gafstu mér
góða ferð, vertu sæl já góða ferð.
(Jónas Friðrik)
Elsku Kára, Lilju, Óskari, Jónga, Siggu, Nonna og öðrum aðstandendum sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Klara, Sigurður, Guðbjörg, Þorsteinn, Hjörtur, Steinar og Sólrún Gauja.