Landsliðsmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson var valinn maður leiksins er hann og liðsfélagar hans í Magdeburg höfðu betur gegn Barcelona í stórleik í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í handbolta í gærkvöldi. Urðu lokatölur í Magdeburg 29:28. Gísli skoraði sigurmarkið með síðasta skoti leiksins.
Gísli skoraði sex mörk í leiknum og Ómar Ingi Magnússon fimm. Janus Daði Smárason gerði eitt mark. Barcelona og Magdeburg eru nú jöfn á toppi riðilsins með 22 stig þegar einni umferð er ólokið. Tvö efstu liðin fara beint í átta liða úrslit en liðin í þriðja til sjötta sæti fara í 1. umferð útsláttarkeppninnar.
Bjarki Már Elísson og samherjar hans í ungverska liðinu Veszprém eiga enn möguleika á að fara beint í átta liða úrslit, en liðið er með 20 stig eftir 37:31-útisigur á Montpellier frá Frakklandi. Bjarki Már komst ekki á blað.
Veszprém fær Magdeburg í heimsókn í lokaumferðinni og nægir Magdeburg jafntefli til að tryggja sér í það minnsta annað sætið. Barcelona mætir Montpellier á heimavelli í lokaumferðinni.
Í A-riðli vann pólska liðið Kielce 31:23-heimasigur á Kolstad frá Noregi. Haukur Þrastarson skoraði tvö mörk fyrir Kielce, sem er öruggt með sæti í útsláttarkeppninni. Sigvaldi Björn Guðjónsson gerði fjögur fyrir Kolstad, sem er úr leik.
Kielce er í fjórða sæti riðilsins með 15 stig, en liðið mætir Aalborg á útivelli í lokaumferðinni. Kolstad er með níu stig, fjórum stigum á eftir Pick Szeged.