— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hækkun stýrivaxta hefur haft greinileg áhrif á eftirspurn eftir fjármögnun vinnuvéla og segir Jón Hannes Karlsson, framkvæmdastjóri Ergo, að kaupendur hafi m.a. brugðist við breyttu vaxtaumhverfi með því að reiða sig meira á tækjaleigur

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Hækkun stýrivaxta hefur haft greinileg áhrif á eftirspurn eftir fjármögnun vinnuvéla og segir Jón Hannes Karlsson, framkvæmdastjóri Ergo, að kaupendur hafi m.a. brugðist við breyttu vaxtaumhverfi með því að reiða sig meira á tækjaleigur.

„Undanfarið hálft annað ár hefur vaxtakostnaður um það bil tvöfaldast og sé ég að margir reyna að stilla tækjakaupum sínum í hóf: fjárfesta kannski í ákveðnum lykilbúnaði en taka svo vinnuvélar á leigu þess á milli í nokkra mánuði í senn í takt við stöðu verkefna. Þetta er töluverð breyting frá því sem var fyrir nokkrum árum, þegar flest félögin áttu öll sín tæki og höfðu þau klár og til taks árið um kring.“

Jón Hannes bendir á að að sama skapi hafi vinnuvélaleigurnar vaxið hratt og ekki sé annað að sjá en að þeim gangi vel að anna þörfum viðskiptavina sinna: „Háir vextir þýða að menn eru síður viljugir að festa sig í lánasamningum. Þeir stilla tækjakaupum sínum upp í samræmi við þau verkefni sem eru fram undan, og eiga þann búnað sem þeir nota mest, en leigja fleiri tæki þegar kúfur er í verkefnunum,“ útskýrir hann, en sú fjármögnun sem Ergo býður upp á er á breytilegum vöxtum og algengur lánstími 3 til 5 ár og finna því bæði nýir og gamlir lántakendur fyrir áhrifum vaxtahækkana undanfarinna missera.

Jón Hannes segir hins vegar ekki að sjá að kaupendur vinnuvéla reyni að lækka hjá sér kostnaðinn með því að sækja í ódýrari vinnuvélar eða spara kaup á aukabúnaði. Hann tekur undir að þegar um sé að ræða verðmætaskapandi tæki sem séu í mikilli notkun borgi það sig sjaldan að gefa afslátt af þeim eiginleikum sem geri vinnuna þægilegri og bæti afköstin. „Svo eru menn einfaldlega vanir ákveðnum tækjum og vilja gjarnan halda tryggð við sín merki. Að því sögðu hafa ný og ódýrari merki tekið að skjóta rótum, t.d. frá framleiðendum í Kína, og tekið til sín einhverja markaðshlutdeild.“

Að mati Jóns Hannesar er hljóðið nokkuð gott í framkvæmdageiranum, enda útlit fyrir góða verkefnastöðu á komandi árum. Eru t.d. fyrirhugaðar meiri háttar framkvæmdir í tengslum við nýjar landeldisstöðvar á suðvesturhorninu og talað um að gera þurfi stórátak í húsbyggingum á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Einnig er búist við miklum framkvæmdum við orkuinnviði og loks hafa jarðhræringar á Reykjanesi bæði kallað á umfangsmikla jarðvegsvinnu og viðgerðir.

Ferðaþjónustan er líka tiltölulega brött og útlit fyrir mikla eftirspurn eftir hópferðabifreiðum. „Það er mikið að gera hjá rútufyrirtækjunum og eru þau jafnvel farin að reka sig á að framboð af nýjum og notuðum rútum nær ekki að halda í við eftirspurn vegna þeirrar röskunar sem varð hjá framleiðendum í kórónuveirufaraldrinum, sem enn hefur ekki tekist að vinna upp að fullu.“

Hljóðið er ekki alveg jafn gott í bændum: „Í fyrra fundum við að samdráttur varð í fjármögnun til bænda og spilar þar sennilega inn í bæði þróun vaxtakostnaðar og einnig að hækkandi fóður- og áburðarverð hefur þrengt töluvert að greininni.“

Af öðrum tíðindum úr greininni nefnir Jón Hannes að grænir orkugjafar séu smám saman að ryðja sér til rúms og t.d. sé orðið mjög algengt að sjá rafmagns-leigubíla í umferð. Rafknúnum sendi- og vörubílum fer líka fjölgandi og rafknúnar stórvirkar vinnuvélar meira að segja farnar að líta dagsins ljós. „Við höfum reynt að koma sérstaklega til móts við þá sem vilja leggja sitt af mörkum við orkuskiptin og getum oft boðið þeim ögn hagstæðari lánakjör. Við lítum á þetta sem okkar leið til að sýna samfélagslega ábyrgð og standa vonir til þess að síðar á árinu getum við kynnt til leiks græna fjármögnunarvöru fyrir atvinnulífið.“

Kaupleiga í boði fyrir bæði ný og notuð tæki

Þegar kemur að fjármögnun vinnuvéla stendur valið á milli kaupleigu og fjárfestingarláns. Fjárfestingarlán Ergo eru hefðbundin veðlán, í boði fyrir allt að 70% af kaupverði og með að hámarki sjö ára lánstíma, en kaupleigusamningarnir eru fyrir allt að 80% af kaupverðinu. Lengd kaupleigusamninganna er svipuð en samningnum hagað þannig að með síðustu greiðslunni eignast viðskiptavinurinn tækið að fullu.

Að undanskildu lánshlutfallinu segir Jón Hannes að sáralítill munur sé á þessum tveimur fjármögnunarleiðum. „Helsti munurinn er sá að fjárfestingarlán eru aðeins í boði fyrir nýjar vinnuvélar en kaupleiga nýtist til að fjármagna bæði ný og notuð tæki.“

Með báðar tegundir fjármögnunar má líka greiða lán upp á undan áætlun og segir Jón Hannes að hækkandi vextir hafi skapað töluverðan hvata fyrir viðskiptavini að ljúka afborgunum hraðar. „Eru fyrirtækin þá að nota tækifærið þegar tekjustreymið er gott og svigrúm í rekstrinum til að greiða lánin hraðar upp og spara sér þannig hækkaðan vaxtakostnað.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson