Kerlingartún Fallegt er um að litast í heyskapnum í Norðurárdal.
Kerlingartún Fallegt er um að litast í heyskapnum í Norðurárdal.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta er eins fáránlegt og mest má vera. Það var ekki annað en hægt að hlæja í fyrstu en svo er ég bara fjúkandi reið yfir því að svona mistök séu gerð,“ segir Þórhildur Þorsteinsdóttir bóndi á Brekku í Borgarfirði.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er eins fáránlegt og mest má vera. Það var ekki annað en hægt að hlæja í fyrstu en svo er ég bara fjúkandi reið yfir því að svona mistök séu gerð,“ segir Þórhildur Þorsteinsdóttir bóndi á Brekku í Borgarfirði.

Þórhildur og hennar fólk hafa óvænt dúkkað upp í miðju stormsins í kringum kröfur íslenska ríkisins um þjóðlendur á svonefndu svæði 12, sem tekur til eyja og skerja innan landhelginnar en utan meginlandsins, og það þótt heimaból þeirra sé í miðjum Norðurárdal. Nú þarf Þórhildur að sanna eignarrétt sinn á 11 hektara túni í miðjum dalnum, en svo óheppilega vill til að það ber heitið Kerlingarhólmi.

Talsverð umræða hefur verið um þessar kröfur og sýnist sitt hverjum. Þeir sem lýst hafa óánægju hafa þó átt hagsmuna að gæta við sjávarsíðuna en ekki inni í miðju landi. Kveðst Þórhildur telja að einhvers staðar í ferlinu hafi menn gleymt að nota lestrarkunnáttu sína og hvað þá landafræðikunnáttu. Kerlingarhólmi liggi hvergi að sjó né gæti neinna sjávarfalla þar í kring.

„Nú er það svo að ríkið er búið að lýsa kröfu í þennan túnbleðil okkar. Ef kröfugerðin í þennan ágæta hólma er lesin þá geta allir sem eru svona sæmilega viti bornir og þokkalega lesandi séð að hann er ekki nálægt neinu fjöruborði og það gætir alls ekki neinna sjávarfalla. Vissulega getur Norðurá verið stórstreymis fljót stundum en fjandinn hafi það. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Það er ekki nema von að embættismannakerfið svokallaða þrífist vel og tútni út eins og blöðruselur og fari sínar eigin leiðir. Þarna er tilviljanakennd krafa í hólma lengst inn í landi og ekki bara þennan heldur einnig í tún sem nefnist Hólsey sem er hér enn lengra inn í dal. Er nóg að bera heitið -ey og -hólmi?,“ segir Þórhildur á Facebook-síðu sinni.

Hún segir í samtali við Morgunblaðið að óþolandi sé að ríkið þurfi ekki að sanna eignarréttinn á landinu. Það þurfi hún að gera þó að hann nái næstum heila öld aftur í tímann. „Við erum að velta fyrir okkur hver næstu skref verða en auðvitað á ríkið að viðurkenna að þarna hafi verið gerð mistök og taka þessi tún út. Það er fáránlegt að við eigum að þurfa að gjalda fyrir þessi mistök.“

Óbyggðanefnd vísaði á lögmann ríkisins, sem fer með fyrirsvar fyrir ríkið f.h. fjármála- og efnahagsráðherra í þjóðlendumálum fyrir óbyggðanefnd. Engin svör bárust þaðan í gær en upplýsingafulltrúi ráðuneytisins boðaði að málið yrði skoðað.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon