Hveragerði Skolphreinsun í Hveragerði er sögð standa til bóta.
Hveragerði Skolphreinsun í Hveragerði er sögð standa til bóta. — Morgunblaðið/Golli
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Heilbrigðisnefnd Suðurlands vill beita Hveragerðisbæ þvingunarúrræðum þar eð bærinn hefur ekki brugðist við kröfu nefndarinnar um tafarlausar úrbætur varðandi förgun á seyru sem og að farið verði að kröfum sem fram koma í starfsleyfi skolphreinsistöðvar bæjarins. Frá þessu greinir í fundargerð nefndarinnar frá 12. febrúar sl. Skortur á viðbrögðum bæjarins virðist þó vera málum blandinn, því forseti bæjarstjórnar segir að ákvörðun um stækkun stöðvarinnar hafi þegar verið tekin.

Þau þvingunarúrræði sem um ræðir eru stjórnvaldssektir, en ákvörðun um slíka sektargerð kemur til kasta Umhverfisstofnunar. Í samtali við Morgunblaðið staðfestir Sigrún Ágústsdóttir forstjóri stofnunarinnar að formlegt erindi hafi borist frá heilbrigðisnefnd Suðurlands hvað þetta varðar og sé það nú til meðferðar hjá stofnuninni.

Viðbrögð koma á óvart

Njörður Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar, segir að viðbrögð heilbrigðisnefndarinnar komi á óvart, enda sé bærinn búinn að taka frá 500 milljónir til stækkunar á fráveitunni á næstu þremur árum, þar af 100 milljónir á þessu ári og 300 á því næsta. Aðspurður segir hann að þessir fjármunir muni duga til að leysa málið eins og staðan sé nú, en meira fé þurfi að veita í málaflokkinn í framhaldinu.

Í téðri fundargerð heilbrigðisnefndarinnar segir m.a. að bænum beri að fara að kröfum sem fram koma í starfsleyfi hreinsistöðvarinnar þar sem segir m.a. að hreinsaða seyru skuli geyma í lokuðum og vökvaheldum gámum við aðstæður þar sem auðvelt sé að safna og hreinsa sigvatn, fari geymslugámur að leka. Hreinsuð seyra skuli flutt af svæðinu jafnóðum og hún sé tilbúin til notkunar.

Alvarleg staða

Í fundargerðinni er vísað í önnur frávik sem getið er um í eftirlitsskýrslu frá nóvember í fyrra, en þar var veittur frestur til 13. desember sl. til að gera úrbætur. Segir þar að nefndinni hafi hvorki borist úrbótaáætlun varðandi förgun seyru, né önnur frávik sem fram koma í skýrslunni. Þó hafi borist upplýsingar frá bænum um að drög að verkáætlun frá verkfræðistofu liggi fyrir bæjarstjórn en ekki hafi borist upplýsingar um áætlunina. „Heilbrigðisnefnd telur að staða fráveitumála sé grafalvarleg og með öllu óviðunandi. Að öllu óbreyttu er ljóst að frekari uppbygging í sveitarfélaginu getur ekki átt sér stað,“ segir í fundargerðinni.

„Það er alveg ljóst að það þarf að huga betur að fráveitumálum en gert hefur verið,“ segir Njörður og nefnir að litlu fé hafi verið varið til fráveitumála á undanförnum árum. „Þegar við tókum við stjórn bæjarins fengum við upplýsingar um að athugasemdir hefðu verið gerðar við skolphreinsistöðina frá árinu 2012. Samkvæmt okkar upplýsingum var sett 17,1 milljón í stöðina á árunum 2014 til 2022, síðustu tvö kjörtímabil Sjálfstæðisflokksins og á sama tíma fjölgaði íbúum um meira en 650 manns. Það má segja að þetta mál hafi verið vanrækt af fyrri meirihluta,“ segir Njörður og bætir við að í raun hefði sú áætlun og fjármagn sem Hveragerðisbær hafi nú sett fram átt að vera lögð fram fyrir um 8 til 10 árum. „Þá værum við ekki í þeirri stöðu sem við erum nú. En nú skiptir máli að verið er að vinna að úrlausnum,“ segir Njörður.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson