Ástvaldur Pétursson fæddist 9. ágúst 1943 í Djúpuvík, Strandasýslu. Hann lést á hjúkrunar- og dvalaheimilinu Höfða 21. febrúar 2024.
Foreldrar hans voru Ingibjörg Benediktsdóttir húsmóðir, f. 14.9. 1922 í Kaldrananeshreppi, d. 19.6. 1998, og Pétur Áskelsson sjómaður, f. 12.1. 1917 í Kaldrananeshreppi, d. 17.3. 1971.
Ástvaldur var þriðji elsti af tíu systkinum, systkin hans eru: Ásdís Guðný, f. 1940, Finnfríður Benedikta, f. 1942, Jón Gunnar, f. 1943, d. 1965, Birgir Hafstein, f. 1946, Guðrún Björg, f. 1948, Svavar Hreinn, f. 1952, d. 2007, Benedikt Sigurbjörn, f. 1954, Ingvar Þór, f. 1958 og Linda Dröfn, f. 1962, d. 2017.
Þann 7. maí árið 1967 kvæntist Ástvaldur Jyttu Juul.
Börn þeirra eru Petra, f. 1971, gift Yannick Odwrot. Þeirra börn eru Tatiana Vigdís, Ísak Þór, Naomi Jancy og Ivana Lou. Súsanna, f. 1977, gift Daníel Örn Davíðsson. Þeirra börn eru: Ástdís Eik Aðalsteinsdóttir, Sudario Eiður Carneiro og Emelía Eivör Daníelsdóttir. Bára, f. 1980, í sambúð með Oddi Páll Reyes Laxdal. Þeirra börn eru Úlfur Páll og Ástvaldur Örn.
Útför hans fer fram í Akraneskirkju í dag, 1. mars 2024, klukkan 13. Streymi:
https://www.akraneskirkja.is/
Litli karlinn okkar hefur yfirgefið þessa þessa jarðvist og því fylgir skrítin tilfinning. Pabbi var elstur drengja í stórum systkinahóp en því fylgdi ábyrgðarhlutverk sem hann var stoltur að sinna þó það hafi ekki alltaf verið auðvelt. Hann fór í sína fyrstu sjóferð níu ára gamall og tekinn úr skóla tólf ára en þá voru aðrir tímar en í dag. Sú reynsla hefur án efa átt stóran sess í að gera pabba að þeim manni sem hann var. Pabbi var okkur afar góð fyrirmynd enda indæll maður með stórt og fallegt hjarta. Hann var bóngóður með afbrigðum, gerði bókstaflega allt fyrir alla, skoraðist aldrei undan þeirri ábyrgð sem á honum hvíldi. Það er ekki hægt að tala um pabba án þess að nefna hversu hreinskilinn hann var og vissum við ávallt hvar við höfðum hann. Þó samfélagið kynni ekki ávallt að virða gildi pabba okkar, þá kastaði hann neti sínu víðfeðmt í viðleitni sinni að sýna öðrum góðvilja og sanngirni þar sem í honum hvíldi mikil réttlætiskennd. Pabbi mátti aldrei neitt aumt sjá og tók oft á sig hlutverk málamiðlarans. Allir þessu góðu persónutöfrar pabba féllu stundum í skuggann á því hversu skemmtilegur hann var en stríðnari menn var erfitt að finna. Það eru til ófáar sögur af prakkarastrikum pabba við misgóðar undirtektir þolandans, en hann hélt fast í barnið í sér og hætti aldrei að gantast fram undir lokin. Pabbi var feikna laginn við að segja sögur og hafði sérlega gaman af því að segja aldrei sömu söguna eins. Það var því iðulega kátlegt í nærveru pabba og létti hann marga lundina enda vinamargur.
Pabbi var ávallt mjög vinnusamur en þegar líkaminn gerði honum ókleift að stunda veiðar þá fann hann sér annan fararskjóta á leigubílnum. Þar hafði hann gaman af því að ræða við landsmenn og ferðamenn þó óvíst sé hvort ferðamennirnir hafi alltaf skilið hvað fór fram. Pabbi varð á endanum að hætta vinnu vegna heilsubrests, sem var honum afar erfitt enda hafði hann unnið eins lengi og hann mundi eftir sér. Pabbi naut þess þó að geta eytt tíma með börnum sínum og barnabörnum, bæði til að gantast með þeim og segja sögur, yfirleitt í nýjum búningi. Pabbi horfði þó ávallt til sjávar aftur, talaði um að kaupa sér annan bát fram undir lokin.
Pabbi var sjómaður í hjarta sínu en hann var einnig einstakur faðir, eiginmaður, bróðir, frændi, vinur og afi með jafnstóra sálu og hafið sjálft. Megum við öll leitast við að fylgja gildum pabba, stuðla þar með að heimi þar sem sanngirni, góðvilji og glettni eru ríkjandi.
Gersemar og gyllta steina
gaf hann óspart sínum.
Gullkollur með hjartað hreina
sýndi gildi og visku í gjörðum fínum.
Öldur kakldar og skarpir steinar;
tíðum var í líf hans stráð.
Úr þeim gerði hann grænar greinar
með hvítum blómum af mikilli náð.
Hreinskilinn og hrífandi,
sterkur eins og naut.
Ákveðinn og drífandi
hélt fólki sínu á réttri braut.
Berskjaldaður og barngóður
við stelpurnar þrjár.
Eiginmaður þolinmóður,
elskaði okkur upp á hár.
Þakklátssemi og mikil ást
eru orð sem skilja eftir má.
Kletturinn í lífi okkar
fallinn er nú frá.
(Petra Ástvaldsdóttir)
Dætur þínar þrjár,
Petra, Súsanna og Bára.