Frelsishetja Oft var reynt að drepa Navalní.
Frelsishetja Oft var reynt að drepa Navalní.
Tvær heimildarmyndir fann ég nýlega inni á sarpinum hjá RÚV sem voru báðar sérlega áhugaverðar. Annars vegar horfði ég á Óskarsverðlaunamyndina Navalny, um rússneska stjórnarandstæðinginn Alexei Navalní, sem kom út árið 2022, en eins og flestir vita lést hann nýlega í rússnesku fangelsi

Ásdís Ásgeirsdóttir

Tvær heimildarmyndir fann ég nýlega inni á sarpinum hjá RÚV sem voru báðar sérlega áhugaverðar. Annars vegar horfði ég á Óskarsverðlaunamyndina Navalny, um rússneska stjórnarandstæðinginn Alexei Navalní, sem kom út árið 2022, en eins og flestir vita lést hann nýlega í rússnesku fangelsi. Myndin er ákaflega áhrifamikil, ekki síst nú þegar hann er látinn, og varpar ljósi á líf hans og baráttu. Atriði í myndinni þegar hann hringir í menn sem reyndu að myrða hann með eitri er eitt það eftirminnilegasta sem ég hef séð í heimildarmynd.

Önnur athyglisverð heimildarmynd er myndin Assasins frá 2020. Hún fjallar um stórundarlegt morð á Kim Jong-nam, hálfbróður einræðisherrans Kim Jong-un, sem lét drepa hann. Það er ljóst að ekki er gott að vera óvinsæll hjá þeim manni og skiptir þá litlu hvort um blóðtengsl er að ræða eður ei.

Undarleg aðferð var notuð til verksins, en tvær konur um tvítugt voru plataðar til þess að maka á andlit hans eitri. Þær voru handteknar og áttu yfir höfði sér dauðadóma ef þær yrðu fundnar sekar. Aumingja stúlkurnar héldu að þær væru að leika í grínmyndbandi og voru algjörlega saklausar. Ég skal sleppa því að upplýsa hvernig fór fyrir þeim; þið verðið sjálf að horfa!

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir