Svavar Haraldsson, bæklunarlæknir í Reykjavík, fæddist á Akureyri 2. febrúar 1946. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni 16. febrúar 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Helga Magnúsdóttir húsmóðir, f. 21. ágúst 1903, d. 1. mars 1997 og Haraldur Ingvar Jónsson húsgagnasmíðameistari, f. 21. janúar 1904, d. 13. október 1969. Bræður Svavars voru Jón Jóhann, f. 21. apríl 1929, d. 3. maí 2009, kvæntur Eddu Dagbjartsdóttur, og Úlfar Haraldsson, f. 27. nóvember 1935, d. 11. nóvember 2009, kvæntur Margréti Ríkarðsdóttur.

Svavar kvæntist 21. september 1974 Sigríði Jónsdóttur, f. 23. maí 1949. Foreldrar hennar voru Jón Egilsson útvarpsvirki og Ingunn Ásgeirsdóttir hattagerðarmeistari. Bræður Sigríðar eru: Sveinn, f. 1942, kvæntur Sigríði Stefánsdóttur, f. 1944 og Þorgeir, f. 1945, d. 2022, kvæntur Dröfn Björgvinsdóttur, f. 1947.

Synir Svavars og Sigríðar eru: 1) Haraldur, f. 5. apríl 1975, kvæntur Sonju Örnu Chan, f. 30. júní 1976. Dætur þeirra eru Helga Chan, f. 2003, og Anna Chan, f. 2013. 2) Jón, f. 5. apríl 1975, kvæntur Heiðu Óskardóttur, f. 25. nóvember 1975. Börn þeirra eru Óskar, f. 2003, og Harpa, f. 2006. 3) Helgi, f. 5. apríl 1975, kvæntur Guðrúnu Birnu Ólafsdóttur, f. 16. febrúar 1975. Börn þeirra eru Egill Högni, f. 2003, Ólöf Svava, f. 2008, og Þórunn Hanna, f. 2012. Dóttir Sigríðar er Ingunn Björg Arnardóttir, f. 17. desember 1970, gift Gunnlaugi Sveini Ólafssyni, f. 17. febrúar 1967. Þeirra dætur eru: 1) Unnur Björk, f. 1989, gift Þóri Jökli Finnbogasyni, f. 1987. Þeirra dætur eru Hrafntinna Rós, f. 2018, og Hekla Sól, f. 2020. 2) Sigríður Laufey, f. 1991, gift Einari Sveini Kristjánssyni, f. 1990. Börn þeirra eru Steinunn Björg, f. 2013, og Sveinþór Andri, f. 2016. 3) Ólöf Jóhanna, f. 1997, í sambúð með Hlín Sveinsdóttur, f. 1996. Þeirra synir eru Hrafn Óli, f. 2021, og óskírður nýfæddur drengur, f. 2024.

Svavar varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1966 og hóf nám í læknisfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1973. Kandídatsárinu, 1976, varði hann meðal annars á Landspítalanum, Reykjalundi og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Árið 1976 hóf hann sérnám í bæklunarlækningum við Central lasarettet í Västerás í Svíþjóð. Í byrjun árs 1980 lá leiðin til Akademiska sjukhuset i Uppsala þar sem hann sérhæfði sig í beinbrotafræði. Síðla árs 1980 flutti fjölskyldan til Suður-Svíþjóðar þar sem Svavar hóf nám við Malmö Allmänna Sjukhus. Að loknu námi, árið 1983, fluttist fjölskyldan til Íslands á nýjan leik og fékk Svavar sérfræðistöðu við Landakotsspítala. Á Landakoti starfaði hann allt til ársins 1992 þegar deildin var flutt á Landspítalann Hringbraut þar sem hann starfaði allt til ársins 2001 þegar deildin var flutt á nýjan leik og nú á Landspítalann Fossvogi þar sem hann starfaði allt til ársins 2021 þegar hann lét af störfum vegna aldurs.

Útför Svavars fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 1. mars 2024, og hefst athöfnin kl. 15.

Nú er elsku pabbi minn fallinn frá og það verður skrýtið að hitta hann ekki á sunnudögum eins og við bræðurnir vorum vanir að gera undanfarin tvö ár. Þessi tími er búinn að vera erfiður fyrir okkur öll.

Eftir stendur fullt af góðum minningum um góðan pabba og afa. Pabbi var afskaplega skemmtilegur maður sem ég bar heilmikla virðingu fyrir. Pabbi hafði haft ýmis áhugamál í gegnum tíðina sem hann kynnti okkur og hafa orðið hluti af okkar lífi líka. Hann hafði dálæti á jazzi sem hann hóf að hlusta á sem ungur maður. Hann reyndi að kynna okkur þá tónlist en með takmörkuðum árangri þó. Hann hafði einnig áhuga á golfi og skíðum sem gekk heldur betur að innleiða. Pabbi var bæði afbragðs skíðamaður og golfari. Hann hafði líka mikinn áhuga á Ítölsku mafíunni í New York og átti ótal bækur því tengdar. Hann hefði hæglega getað boðið upp á fræðsluferðir um slóðir John Gotti og Sammy the bull Gravano á götum New York-borgar. Á unglingsárum okkar bræðra dró hann okkur með sér fyrir allar aldir út á Nesvöll að spila golf. Hann sagði þá gjarnan við yrðum að fara nógu snemma „áður en skríllinn veður yfir“. Þetta er einn af þeim frösum sem hann var þekktur fyrir að nota. Þeir frasar sem hann notaði voru allmargir og eru enn notaðir í fjölskyldunni og víðar.

Golfíþróttin heltók okkur bræður og áttum við margar góðar stundir á golfvellinum með pabba. Minnisstæðust er ferð okkar til North Berwick í Skotlandi. Þangað hafði hann farið árlega í um 30 ár með vinum sínum úr læknastétt og spilað golf. Við bræðurnir og pabbi hittumst oft í Vogalandi til að horfa saman á risamótin í golfi. Pabbi naut þess að ferðast með mömmu erlendis en alltaf þótti honum þó best að eyða helgunum með mömmu í sumarbústað þeirra í landi Iðu í Biskupstungum. Hann naut þess að hitta afa- og langafabörn sín og vissi hvað þau voru að sýsla hverju sinni.

Pabbi var vel inni í því sem við vorum að gera og þekkti hann til að mynda vini mína vel. Hann spurðist fyrir um þá og fylgdist með hvað þeir væru að gera. Vinir okkar bræðra höfðu óskaplega gaman af pabba.

Annað sem einkenndi pabba var það að hann var mikill nautnaseggur. Hann elskaði að borða góðan mat. Hann gat verið stórtækur þegar kom að innkaupum og magnkaup voru honum að skapi. Það kom fyrir að hann kom heim með 7-8 tómatsósuflöskur heim úr búðinni í einni og sömu ferðinni.

Ótal margar fyndnar sögur eru til af pabba sem ekki verður tíundað hér en verður gaman að rifja þær upp í framtíðinni. Pabbi reyndist mér og minni fjölskyldu afskaplega vel og verður sárt saknað.

Hvíldu í friði, elsku pabbi.

Helgi.

Ég kynntist Svavari tengdapabba mínum fyrir nítján árum þegar ég kynntist Helga manninum mínum. Svavar tók mér strax vel og kunni ég afskaplega vel við hann. Svavar var mjög áberandi maður vegna þess hversu hávaxinn hann var. Það var í raun allt stórt í kringum Svavar. Hann hló hátt, átti stóran bíl og þegar hann keypti inn þá keypti hann mikið og tónlistin sem hann hlustaði á var líka stór. Svavar var mjög áhugasamur um starfið sitt, sinnti endurmenntun nánast fram á síðasta dag í starfi og veðraðist allur upp þegar rætt var um sjúkdóma við hann. Það er mikil gæfa að vera enn áhugasamur um vinnuna sína við starfslok. Margar skemmtilegar sögur eru til af Svavari sem munu halda áfram að vera sagðar eftir hans dag. Við fjölskyldan vörðum alltaf jólunum í Vogalandi og eru það dýrmætar minningar núna fyrir okkur fjölskylduna. Svavar var heimakær, var mikill matmaður og vildi þá helst gamaldags mat. Ég minnist Svavars í Vogalandi, brosmilds uppi í sófa með bók í hendi. Minning um góðan mann lifir áfram hjá okkur fjölskyldunni og afkomendum hans. Elsku Svavar, takk fyrir samfylgdina.

Guðrún Birna.

„Þá er þessu lokið“ hljómaði einn af frösum hans pabba. Já, núna er þessari viðburðaríku ævi hans pabba lokið og hann kominn á betri stað eftir löng og erfið veikindi.

Í dag kveð ég föður minn með söknuði. Pabbi var alveg laus við alla tilgerð, kom til dyranna eins og hann var klæddur og fór ekki manngreinarálit. Stundum örlaði þó á smá eyfirskum hroka þegar hann hann lýsti því að hafa verið a.m.k. 20-30 metrum lengri í upphafshöggunum í golfi en hinir læknarnir í golfhollinu þann daginn.

Pabbi var nokkuð formfastur. Hann var mjög vandlátur maður, þoldi ekki fúsk og það vottaði ekki fyrir nísku hjá honum. Hann vildi oft greiða meira fyrir hlutina en verðið sagði til um. Pabbi þoldi ekki skrílslæti og vitleysisgang. Hann predikaði yfir okkur bræðrunum og sagði okkur að haga okkur ávallt eins og menn. Pabbi var alltaf vel tilhafður, nýrakaður og snyrtilega klæddur. Ég minnist þess ekki að hafa séð hann í íþróttagalla eða stigaskóm.

Segja má að við systkinin höfum alist upp við að hlusta á jazztónlist og skilur hann eftir sig myndarlegt safn af jazzplötum. Pabbi þótti eflaust vera svolítið sérstakt barn á uppvaxtarárum sínum á Akureyri þar sem hann hlustaði á jazz, sökkti sér í lesefni um ítölsku mafíuna í New York og spilaði golf. Sagan segir að hann hafi verið einn af fremstu kylfingum á landinu á sínum tíma, að minnsta kosti norðan heiða. Hann var þekktur fyrir sína högglengd og bárust sögur um högglengd hans víða. Bærinn North Berwick í Skotlandi var einn af uppáhaldsstöðum pabba. Þangað fór hann ásamt félögum sínum úr læknastéttinni á hverju ári í golfferð. Sjaldan voru spilaðar færri en 36 holur. Sagan segir að þegar pabbi komst ekki með eitt árið í golfferðina sökum veikinda, hafi verið tekið eftir því á götum North Berwick að pabba vantaði í læknahópinn sem þangað var kominn til að spila golf. Spurðu þá heimamenn: Where is the tall one? Við bræðurnir fengum svo að upplifa það árið 2013 að fara með pabba ásamt fleiri góðum mönnum til Skotlands að fylgjast með The Open-mótinu í golfi og spila sömu golfvellina sem pabbi og félagar hans höfðu spilað í um 30 ára skeið. Minning um þessa ferð mun lifa í huga okkar alla tíð.

Ef maður ætti að lýsa pabba í stuttu máli þá má segja að allt var eitthvað svo stórt og fyrirferðarmikið hjá honum. Hann var stór maður, mikill persónuleiki, hló hátt, sló golfkúluna langt, ók um á stórum amerískum bílum, eignaðist þrjá drengi á einu bretti og spilaði jazzinn í hæstu stillingu.

Pabbi var þekktur frasamaður og eru til óteljandi frasar sem hann hefur sagt í gegnum tíðina. Marga þeirra hafa barnabörnin hans meira að segja gaman af að kasta fram í fjölskylduboðum og hafði hann sérstaklega gaman af því þegar eitthvert þeirra kastaði fram frasanum „hér verða engin jól“ í jólaboði. Alla þessa skondnu frasa skilur hann okkur eftir með nú þegar hann er farinn og munum við fjölskyldan viðhalda þeim og minnast þá pabba í leiðinni. Takk fyrir allt pabbi.

Jón Svavarsson.

Elsku Svavar, þó að þú sért búinn að kveðja lífið hér hjá okkur þá ertu og verður alltaf í hjörtum okkar.

Við munum áfram sjá takta þína og húmor. Þegar Halli minn er að fíflast þá er það oft eitthvað sem hann lærði af þér.

Þú sagðir ekki alltaf margt. En ég sá þig hafa svo gaman af því að fylgjast með barnabörnunum. Ég man svo vel þegar þú sást Helgu í fyrsta skiptið. Það fór ekki á milli mála að þú varst að springa úr gleði og stolti. Það sama var þegar Anna fæddist. Þér fannst stelpurnar alltaf svo flottar.

Ég er 173 cm á hæð og hef alltaf verið talin mjög hávaxin í fjölskyldu minni. En þegar ég kom í fjölskyldu ykkar var ég allt í einu minnst. Þegar fjölskyldan mín frá Malasíu kom í brúðkaupið okkar Halla þá fannst þeim svo gaman að sjá svona hávaxinn mann eins og þig. Þau voru líka svo ánægð með hvað þið Sigga tókuð vel á móti þeim.

Það eru margar stundir með ykkur Siggu sem ég er svo þakklát fyrir. Það er ekki hægt að segja annað en ég sé mjög heppin með tengdaforeldra. Núna munum við passa upp á Siggu þína. Eins og þú sagðir stundum þá er það bara áfram gakk.

Takk fyrir allt, Svavar minn.

Þín tengdadóttir,

Sonja.

Afi Svavar var fyndnasti, skemmtilegasti og besti afi sem við hefðum getað beðið um. Hann var skurðlæknir og var góður í því. Hann hafði gaman af því að hlusta á djass og spila golf.

Hann elskaði að fara til útlanda, mest til Bandaríkjanna til New York til að hlusta á djass. Honum fannst líka gaman að fara í golfferðir. Það var alltaf svo gaman að fara til ömmu og afa um jólin, í matarboð og í bústaðinn. Afi var alltaf svo glaður að sjá okkur. Hann var alltaf hress og jákvæður, alltaf að grínast og hlæja yfir einhverju fyndnu sem við höfðum gert eða sagt. Við afi áttum okkar eigin einkahúmor. Jafnvel þó svo hann hafi legið á hjúkrunarheimili og verið veikur var hann alltaf kátur þegar hann sá fjölskylduna sína. Við munum ekki muna eftir honum veikum. Við munum eftir öllum jólunum sem við vorum saman og hvernig afi grínaðist, hvað hann gat stundum verið mikill klaufi og hversu góður hann var. Við eigum bara góðar minningar um afa og okkur þótti mjög vænt um hann. Við munum sakna afa á hverjum degi og hann verður alltaf í hjartanu okkar.

Egill Högni, Ólöf Svava (Lóló) og Þórunn Hanna.

Elsku afi minn, þó þú sért farinn þá fara aldrei góðu minningarnar um þig.

Eins og flestir vita sem þekkja þig þá varst þú algjör húmoristi. Þú varst alltaf með eitthvert grín. Það er svolítið fyndið að þegar við fjölskyldan hittumst þá heyrist greinilega að við erum öll með sama húmorinn, það sýnir bara það að brandarar þínir munu aldrei gleymast.

Þú varst líka alltaf með einhverja sniðuga frasa, einn sem mátti heyra þig segja var: „Hér verður ekki aftur snúið.“ Það var líka svo gaman hvernig þú greipst ótrúlegustu setningar sem maður sagði. Eins og þegar ég var lítil hafði ég sagt við þig og ömmu að „hér væri alltaf kjöt og kartöflur í matinn“, þér fannst þetta svo fyndið að þú varst alltaf segja þessa setningu.

Það er svo sárt að skrifa þetta og hugsa til þess að ég mun ekki hitta þig aftur. En ég veit að þú hefur það gott núna. Hvíldu í friði, elsku afi minn. Ég elska þig og mun alltaf sakna þín.

Þín

Helga Chan.

Elsku mágur og kær vinur, Svavar Haraldsson, hefur kvatt þessa jarðvist eftir erfið veikindi til nokkurra ára. Við Sigga minnumst Svavars sem skemmtilegs manns sem gott var að verða samferða í lífinu.

Svavar var bæklunarlæknir af bestu gerð, lærður frá Svíþjóð. Við raunverulega kynntumst ekki vel fyrr en fjölskyldan flutti heim frá Svíþjóð. Svavar var á margan hátt sérstakur maður. Fyrst var hann verulega hár vexti en þrátt fyrir það var hann afburðagóður golfari og stundaði golf af miklum krafti hérlendis og erlendis. Fór meðal annars árum saman með vinahópi til Skotlands að vori til og þreyttist ekki á að lýsa flottum aðstæðum, sýna myndir og bækur frá þessum ferðum.

Hann hafði líka tónlistarsmekk sem var ekki allra. Hann elskaði djass og átti mikið úrval hljómplatna og fræðibóka um djass. Það var svolítið sérstakt að sækja afmæli og veislur heim í Vogalandið, þar sem djassplötu var skellt á fóninn og Svavar lýsti nákvæmlega hverjum snillingi sem spilaði hverju sinni, en við sem lítið skildum reyndum að fylgjast með.

Hann var stoltur faðir sona sinna þríburanna og svo auðvitað Ingunnar dóttur Siggu. Öll var þessi fjölskylda hávaxin og Sigga sagði mér að í bílferðum hefði bíllinn bókstaflega verið fullur af löngum fótum og stórum skóm; a.m.k. átta metrar af löppum! Það var verulega skemmtilegt að ferðast og tala nú ekki um allar dásamlegu samverustundirnar í sumarbústaðnum við Iðu. Það var sko ekki amalegt að borða og skemmta sér saman með fjölskyldu og vinum úr nálægum sumarhúsum.

Það var verulega dapurt að sjá þennan flotta mann verða fyrir veikindum sem svo lögðu hann að velli. Hann dvaldi sl. ár á Sóltúni hjúkrunarheimili við góða umönnun og var undir það síðasta rúmliggjandi þar til lífi hans lauk hinn 16. febrúar. Ég heimsótti Svavar á Sóltúnið 14. febrúar og var hann þá búinn að bjóða okkur Siggu minni í þorramáltíð í Miðleitið. Ég sá hvað hann var glaður með þetta og færðist bros yfir allt andlit hans. Hann átti erfitt með mál en hann reyndi að tjá sig og mátti vel finna velvildina frá honum. Við vorum einnig mjög ánægð með boðið, en því miður slokknaði lífsneistinn þannig að ekki varð að þessu að sinni, en svo sannarlega áttum við kyrrðarstund heima með kertaljós og góðar minningar.

Við Sigga mín viljum þakka góðar samverustundir og sendum innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Sveinn Þ. Jónsson.

Fallinn er frá góður vinur og starfsbróðir eftir langvinn og erfið veikindi. Kynni okkar hófust er hann kom á Landakotsspítala sem bæklunarlæknir eftir sérnám í Svíþjóð. Hann var stór og sterkur sem var ekki verra í þessari sérgrein. Svavar var farsæll í starfi, röskur og þoldi illa hangs. Hann gekk ávallt beint til allra verka. Svavar var orðheppinn og urðu mörg tilsvör hans fleyg. Hermt er að hann hafi sagt þegar von var á þríburum: „Það er víst best að drífa þessar barneignir af.“ Satt eða logið þá lýsir þetta skaphöfn hans vel.

Við Svavar urðum fljótt miklir mátar, enda höfðum við mörg lík áhugamál. Báðir unnum við sígildri tónlist, þótt hann hafi sótt meira í djassinn en ég. Báðir smituðumst við af golfbakteríunni; hann sem ungur maður á Akureyri, en golfið er krónískur sjúkdómur eins og margir vita. Svavar náði fljótt tökum á íþróttinni og varð öflugur kylfingur. Hópur lækna fór árlega á vormánuðum í pílagrímsferð til Skotlands í golf, til Mekka golfíþróttarinnar. Í bænum North Berwick vorum við Svavar oftast herbergisfélagar, en þarna í kring voru fjölmargir golfvellir og leikið var frá sólarupprás til sólseturs flesta daga. Ótal minningar lifa frá þessum ferðum og ekki einungis var það golfið sem er minnisstætt. Bærinn er lítill og óneitanlega setti stór hópur íslenskra kylfinga svip á hann. Fáir voru veitingastaðirnir en sá sem var í uppáhaldi bauð upp á pekingönd sem var uppáhaldsrétturinn hans Svavars. Hann pantaði öndina á hverju kvöldi og urðu það því nokkur vonbrigði þegar vertinn tilkynnti síðasta kvöldið: „Sorry, no more duck.“

Golfferðirnar til Skotlands voru sannarlega hápunktur margra okkar ár hvert. Þær skilja eftir góðar minningar en þegar horft er til baka er það okkar trausta og góða vinátta sem stendur upp úr. Svavars er sárt saknað. Ég votta Sigríði og börnum samúð mína.

Ásgeir Jónsson.

Í dag kveðjum við mikinn mann. Svavar kom inn í líf okkar mömmu þegar ég var tveggja ára gömul og það er óhætt að segja að það hafi tekið miklum breytingum. Minningarnar streyma um hugann á kveðjustund og gott er að fanga þær og geyma. Það má segja að sambúð okkar þriggja hafi byrjað á Akureyri, hans heimabæ, og þaðan á ég mínar fyrstu minningar. Þar kynntumst við bænum og hverri brekku og gömlum söguslóðum og enn þann dag í dag er tekinn rúnturinn um Oddeyrargötu, að golfvellinum, skíðasvæðinu, Pollinum og endað í ísbúðinni Brynju.

Eftir Akureyrardvölina fluttumst við í Arahólana og von var á systkini. Spennan var mikil hjá litlu fjölskyldunni og er óhætt að segja að okkur hafi öllum brugðið þegar ekki eitt barn leit dagsins ljós heldur þrjú! „Mikið af öllu og fá það strax,“ var einn af frösum pabba og átti það svo sannarlega við í apríl 1975! Ári síðar fluttist fjölskyldan sem var nú orðin að stórfjölskyldu til Västerås í Svíþjóð þar sem pabbi hóf sérnám í bæklunarlækningum. Nýtt líf hófst í nýju landi fjarri ættingjum og tengslaneti. Aðstæður og samskiptaleiðir við heimahagana voru talsvert frábrugðnar því sem við þekkjum í dag. Símtöl við fjölskyldu og vini á Íslandi heyrðu til hátíðabrigða og strangheiðarlegar bréfaskriftir voru raunveruleikinn. Sundurklipptur Moggi var látinn flakka milli heimila og lesinn upp til agna. Dýrmæt vinasambönd mynduðust við aðrar læknafjölskyldur sem komu í stað ættingja á Íslandi.

Árið 1980 færðum við okkur um set og nýr vinkill með frekari sérhæfingu á sviði bæklunarlækninga hófst í Malmö. Stutt var til Köben og mikill gestagangur einkenndi þessi ár og gladdi það pabba mjög að stutt væri að skreppa yfir sundið að kaupa rauðar pylsur og fleira góðgæti í föstu og fljótandi formi.

Námi pabba í Svíþjóð lauk 1983 og haldið var til Íslands á ný og tók hann við sérfræðistöðu við Landakot. Það var mikil gleði hjá okkur að vera loksins komin heim og eignuðum við okkur griðastað í sumarhúsi afa á Iðu og þar var pabbi yfirleitt í essinu sínu og naut sín með vinum, við grillið og í pottinum með tóna Miles Davis í hátölurum. Á þessum stundum heyrðist hærra í hlátrasköllum en mófuglunum.

Í Vogalandi 13 var heimili og miðpunktur fjölskyldunnar í tæp þrjátíu ár og margar minningar tengdar samverustundum þar. Eins og áður hefur komið fram var pabbi að öllu leyti mikill maður, ekki nóg með að hann hafi verið rúmir tveir metrar að hæð heldur var hann stór persónuleiki og muna sennilega allir eftir honum sem einu sinni höfðu hitt hann, í kringum hann var engin lognmolla. Hann hafði sérkennileg áhugamál, einkennilegan matarsmekk og vitnaði oftar en ekki í mjög sérkennilega frasa sem áttu sér ekki endilega stoð í samhengi samræðnanna. „Það verða engin jól hér.“ „Sá sem sofnar fyrstur fær verðlaun.“ „Getur það aldrei verið heima hjá sér.“ „Mér er sama hvað þú gerir, pabbi, en ég er farinn í land.“ „Það er rassgat á því.“ Allt eru þetta frasar sem munu lifa hann og fá okkur til að glotta út í annað og minnast hans. Hvíldu í friði.

Ingunn Björg Arnardóttir og fjölskylda.

Einstöku sinnum getur maður orðið svo gæfusamur að kynnast fólki sem hefur svo jákvæð og skemmtileg áhrif á tilveruna að ánægjan, minningarnar og skemmtilegu atvikin rifjast upp ótal sinnum. Þannig var að fá að kynnast Svavari Haraldssyni og verða samferða honum í leik og starfi.

Svavar var fæddur og uppalinn á Akureyri og tók stúdentspróf frá MA en leiðin lá svo í læknisfræði í Háskóla Íslands. Eftir kandídatspróf og tveggja ára starf hér heima héldu hann og Sigríður til Svíþjóðar þar sem hann stundaði framhaldsnám í bæklunarskurðlækningum í Västerås og Uppsölum auk sérfræðistarfa í Malmö. Þar mun hann ávallt hafa gengið undir nafninu stóri maðurinn enda óvenju hávaxinn og sterkbyggður en breiðari merking var þó vafalaust í þeim orðum. Árið 1983 flutti Svavar heim til að taka við starfi bæklunarskurðlæknis á Landakotsspítala með nýja þekkingu og aðferðir. Það var á Landakotsspítala sem við Svavar kynntumst og unnum fyrst saman. Svavar var farsæll skurðlæknir og hafði ákveðnar skoðanir sem byggðust á góðri þekkingu og stefnufestu. Hann talaði enga tæpitungu og var þekktur fyrir orðatiltæki sem jafnan hittu í mark. Mér er minnisstæðast þegar ég leitaði til hans rúmlega fimmtugur vegna slitgigtar í hnjám og spurði hann hvort tími væri kominn til að gera aðgerð. Hann hugsaði sig um og sagði svo: „Í þessum málum á maður að bíða og bíða lengi, því að það er enginn sjúkdómur svo slæmur að ekki sé hægt að gera hann verri með aðgerð.“ Þetta svar lýsir varfærni sem er oft góð í skurðlækningum en þegar á reyndi var enginn betri bandamaður.

Á unglingsárunum fékk Svavar vinnu hjá Golfklúbbi Akureyrar við að annast völlinn og þar vaknaði hjá honum ævilöng ástríða fyrir golfíþróttinni. Hann keppti á landsmótum og hefur vafalaust verið meðal efnilegustu kylfinga á landinu í sínum aldursflokki. Svavar fylgdist vel með alþjóðlegum golfmótum og fór 1976 til Skotlands að fylgjast með opna breska meistaramótinu. Um þetta leyti fóru Íslendingar að leggja leið sína til Skotlands í golf, aðallega á East Lothian-svæðið með aðsetur í North Berwick. Frá 1987 hafa læknar farið í árlegar golfferðir á þessar slóðir á vorin. Þarna var Svavar fremstur í flokki, kunni söguna og þekkti vellina út og inn. Mörg orðatiltæki Svavars í golfinu eru ógleymanleg. Þegar talið barst að kostnaði sagði Svavar gjarnan: „Þegar golf er annars vegar skipta peningar engu máli.“ Af öllum okkar ferðum er eftirminnilegust ferðin á opna breska meistaramótið á Muirfield í júlí 2013. Þá voru með okkur synir Svavars og Hallgrímur yngri sonur minn. Við spiluðum okkar uppáhaldsvelli og fylgdumst með mótinu í yndislegu sumarveðri.

Eftir að gamalt mein tók sig upp hjá Svavari versnaði líkamleg færni hans til muna. Tel mig tala fyrir hönd Skotlandsgolfara fyrr og nú að við söknum mjög hans skemmtilegu nærveru. Loks fór svo að okkar góði vinur missti heilsuna og nú er hann horfinn yfir í annan heim. Við félagarnir minnumst hans með þakklæti og sendum Sigríði og fjölskyldunni innilegustu samúðarkveðjur.

Steinn Jónsson.

Horfinn er til feðra sinna bekkjarbróðir minn og fornvinur, Svavar Haraldsson bæklunarskurðlæknir. Hann kvaddi þetta jarðlíf saddur lífdaga eftir langvinn og erfið veikindi. Í hugum vina hans er þó minningin sveipuð glaðbeittum karlmennskublæ og þakklæti fyrir eftirminnilegar samverustundir.

Svavar ólst upp á Akureyri yngstur þriggja bræðra í fremur karllægu andrúmslofti og umhverfi. Hann tók snemma út ríflegan vöxt sinn og gerðist þurftarfrekur og kom sér þá vel fyrir hann að njóta hins kjarnmikla, norðlenzka góðmetis frá KEA, sem hann dásamaði alla tíð síðan enda frægur matmaður. Svavar fór jafnan eigin leiðir og rakst misvel í hópi. Snemma gerðist hann forfallinn jazzunnandi. Safnaði ógrynni platna og hámhlustaði. Gerði síðar víðreist um heiminn til að sækja jazzhátíðir og hljómleika. Þriðja lífsnautn hans var golfíþróttin, sem hann stundaði alla tíð frá barnsaldri. Hann varð snemma afreksmaður meðal kylfinga og ávann sér verðlaun og verðskuldaða frægð.

Svavar var harðsækinn námsmaður og kaus sér lækningar að ævistarfi. Hann var af smiðum kominn og sérhæfði sig í bæklunarskurðlækningum. Varð farsæll og vel liðinn fagmaður, góðviljaður skjólstæðingum og samvizkusamur. Í starfi var hann ókvalráður og úrræðagóður. Hann tamdi sér orðfæri og orðatiltæki, er léttu lund þeirra samferðamanna sem voru með á nótunum. Einn af uppáhaldsfrösum hans var: „Mikið af öllu og fá það fljótt!“ Það rættist eftirminnilega, þegar kona hans ól honum þríbura eftir tiltölulega skamma sambúð.

Svavar heitinn var lukkumaður í fjölskyldulífi og bjó við barnalán. Eftirlifandi kona hans, Sigríður Jónsdóttir læknaritari, er mikilhæf úrvalskona með einstakt þrek og þrautseiga skaphöfn. Seinni hluta ævinnar átti Svavar öðru hvoru við að etja alvarleg veikindi og naut þá ómetanlegs stuðnings konu sinnar. Hann reif sig þó jafnan upp úr lífshættulegum heilsubresti sínum af karlmennsku og hörku og sneri aftur til vinnu sinnar. Síðustu árin urðu honum þó mjög erfið sakir vaxandi hrumleika.

Ég þakka hinum gengna garpi fyrir trausta vináttu og ógleymanlega samveru. Syrgjendum votta ég samúð mína og óska þeim blessunar.

Pétur Ingvi Pétursson læknir.

Nú verður ekki aftur snúið! Þessi orð hljóma endurtekið þegar ég minnist vinar og samstarfsmanns.

En þetta hljómaði hátt og skýrt þegar Svavar var búinn að saga mjaðmarkúluna af við liðskipti á mjöðm.

Svavar var einn af sérfræðingum bæklunarskurðdeildar Landspítala þegar undirritaður kom heim frá námi 1992. Við sátum saman í herbergi næstu 24 árin. Okkur varð fljótt vel til vina og unnum mikið saman við liðskiptaaðgerðir. Stundum vorum við kallaðir lærbræður. Sá þriðji í hópnum sem sat með okkur var Höskuldur Baldursson sem að öðrum ólöstuðum var mesti heiðursmaður bæklunarlækna. Þá eru ónefndir bakbræður, Halldór Jónsson jr. og Bogi Jónsson, en þessi hópur starfaði sama á Landspítala Hringbraut og flutti síðan á Landspítala Fossvogi 2001.

Oft var kátt í aðgerðum okkar. Svavar sagði sögur, en hann hafði einstakt lag á að segja sögur þannig að manni var verulega skemmt. Sum orðatiltæki Svavars eru okkur sem störfuðum með honum ógleymanleg. „Litlu verður Vöggur feginn,“ en oft talaði Svavar um sig og okkur sem störfuðum með honum í þriðju persónu. Annað var, akút það má bíða, varð að vísu en sjúklingar urðu oft að bíða þess að komast á skurðstofu vegna anna.

Vandamálið virðist brátt.

Við það þarf að stríða.

En ávallt ansar Svavar hátt!

Akút það má bíða.

Við kynni af Svavari komst maður ekki hjá að kynnast Miles Davis og jass. Svavar gerði einnig heiðarlega tilraun til að auka áhuga undirritaðs með því að bjóða mér á djasstónleika í New York. Þetta varð til þess að keyptur var diskur með Miles.

Þá kynntist ég John Gotti mafíuforingja í New York í gegnum Svavar, en hann hafði mikið dálæti á þeim heiðursmanni. Fékk ég margar sögur um snilli hans.

Ekki má gleyma helsta áhugamáli Svavars golfi. Svavar iðkaði golf frá unglingsárum. Hann var sláttumaður á golfvellinum á Akureyri á sumrin jafnhliða því sem hann æfði og spilaði golf. Mér er sagt að hann hafi verið unglingameistari fyrir Ísland. Golfáhugi hans smitaði út frá sér og var mér hvatning til frekari afreka þrátt fyrir að árangurinn yrði lítill. Svavar kom mér í hóp lækna sem árlega fara til Skotlands í golf. Mér skilst að ferðir Svavars með hópnum hafi verið um 25 og hin seinni ár til North Berwick, en þar var uppáhaldsvöllur Svavars, Westlinks. Einnig elskaði Svavar Longniddry-golfvöllinn, en þar bankaði hann létt inn á flatir á tveimur höggum þar sem aðrir þurftu þrjú. Ekki má gleyma Muirfield, en sá völlur var að mati Svavars sá fremsti í Skotlandi.

Þessar ferðir voru Svavari mjög kærar og mikið tilhlökkunarefni ár hvert. Félagarnir í hópnum eru vinir frekar en félagar. Veit ég að Svavars verður sárt saknað af Skotlandsförum.

Ég kveð vin minn með sorg í huga. Ég sendi Siggu, sonum, dóttur og fjölskyldu mínar samúðarkveðjur.

Ríkarður Sigfússon bæklunarlæknir.

hinsta kveðja

Endurminning

Ég lít í anda liðna tíð,

er leynt í hjarta geymi.

Sú ljúfa minning – létt og hljótt

hún læðist til mín dag og nótt,

svo aldrei, aldrei gleymi.

(Halla Eyjólfsdóttir frá Laugabóli)

Sigríður Jónsdóttir.

Hljóðum skrefum

vegaslóð á enda geng.

Heyri síðustu tóna

dagsins fjara út.

Stíg inn í svala

huliðsslæðu örlaganna.

Svalt húmið blikar

í þögninni.

Strýkur vanga

blær hins

óborna dags.

Valgarður Stefánsson.