Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Frambjóðendur til embættis forseta Íslands geta í dag hafist handa við að safna undirskriftum á netinu, en frá 1. mars er hægt að safna meðmælum rafrænt. Fresturinn til að bjóða sig fram rennur hins vegar ekki út fyrr en 26. apríl og hinn 2. maí mun landskjörstjórn auglýsa hver eru í framboði. Kjördagur er 1. júní 2024.
„Mikið hagræði er fyrir frambjóðanda, meðmælendur og landskjörstjórn að nota rafrænt meðmælakerfi,“ segir á Ísland.is.
Forsetaframbjóðandi þarf að safna meðmælum með framboði sínu frá kjósendum. Meðmæli skulu ekki vera færri en 1.500 og ekki fleiri en 3.000, en viðmiðum um fjölda meðmælenda hefur ekki verið breytt um árabil. Gerð er krafa um ákveðinn fjölda meðmælenda í hverjum landsfjórðungi og er því skipt niður í Sunnlendinga-, Vestfirðinga-, Norðlendinga- og Austfirðingafjórðung. Í hverjum landsfjórðungi þarf mjög fáa meðmælendur og einungis þarf innan við 60 manns hvort heldur sem er á vestur- eða austurhluta landsins.
Fimm gefa kost á sér
Umboð Guðna Th. Jóhannessonar rennur út í sumar. Guðni er á öðru kjörtímabili sínu og hefur tekið ákvörðun um að gefa ekki kost á sér, eins og hann greindi frá í ávarpi sínu á nýársdag.
Eftir að Guðni greindi frá ákvörðun sinni hafa fimm lýst yfir framboði. Þau eru í stafrófsröð: Axel Pétur Axelsson, Arnar Þór Jónsson, Ástþór Magnússon, Tómas Logi Hallgrímsson og Sigríður Hrund Pétursdóttir.