Framkvæmdir Starfsmenn HS Veitna hafa staðið í ströngu á Reykjanesskaga undanfarið og m.a. lagt nýja hitaveitulögn yfir nýrunnið hraun.
Framkvæmdir Starfsmenn HS Veitna hafa staðið í ströngu á Reykjanesskaga undanfarið og m.a. lagt nýja hitaveitulögn yfir nýrunnið hraun. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Einn af lykilþáttum í öryggisstjórnun er að staldra við, framkvæma áhættumat, meta og undirbúa hverja verklega framkvæmd sérstaklega. Ekki síst leggjum við áherslu á að hugsa í lausnum,“ sagði Páll Erland, forstjóri HS Veitna, í erindi sem hann flutti á forvarnarráðstefnu VÍS sl

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Einn af lykilþáttum í öryggisstjórnun er að staldra við, framkvæma áhættumat, meta og undirbúa hverja verklega framkvæmd sérstaklega. Ekki síst leggjum við áherslu á að hugsa í lausnum,“ sagði Páll Erland, forstjóri HS Veitna, í erindi sem hann flutti á forvarnarráðstefnu VÍS sl. fimmtudag, þar sem umfjöllunarefnið var öryggisstjórnun á tímum náttúruhamfara.

Nefndi Páll þar ýmis dæmi um aðgerðir sem til hefði verið gripið til að leysa aðkallandi viðfangsefni með öðrum leiðum en þeim að senda starfsfólk í hættulegar aðstæður, með áherslu á að verk yrðu unnin þannig að þau skiluðu árangri og að starfsfólk kæmi óskaddað frá þeim.

Hann sagði HS Veitur vinna eftir skýrri stefnu í öryggismálum og að öryggismenning væri ein af lykilstoðunum í starfsemi fyrirtækisins sem sinnir veiturekstri á Reykjanesi, í Hafnarfirði, Garðabæ, á Árborgarsvæðinu og í Vestmannaeyjum.

Í erindi Páls kom fram að á síðustu fjórum mánuðum hefðu náttúruhamfarir dunið yfir í fjórgang á þjónustusvæðum fyrirtækisins og hefðu eðlilega haft mikil áhrif á starfsemina og ekki síst öryggismálin, þar sem starfsfólk fyrirtækisins hefði haldið uppi þjónustu fyrirtækisins við krefjandi aðstæður.

Tók hann sérstaklega fyrir öryggisstjórnun í tengslum við verkefnin í Grindavík eftir að náttúruhamfarir sködduðu innviði fyrirtækisins í bænum illa allt frá 10. nóvember sl. Þá hófst atburðarás sem olli mikilli eyðileggingu, bæði vegna jarðhræringa og síðan eldgosa.

„Allt voru þetta viðfangsefni öryggismála þar sem í bænum varð jarðsig, sprungur mynduðust og eldgos í framhaldinu með tilheyrandi hraunflæði og skemmdum á veitukerfum, auk þess sem langvarandi kuldatíð setti strik í reikninginn og skapaði aukna hættu,“ sagði Páll.

Sagði hann áherslur fyrirtækisins í öryggismálum hafa miklu skipt við fordæmalausar aðstæður. Neyðarstjórn HS Veitna hafi verið virk frá því í október, skipuð fagfólki þvert á fyrirtækið og þar væru aðstæður metnar og teknar ákvarðanir í hverju tilfelli fyrir sig. Páll lagði áherslu á mikilvægi góðs samstarfs við Almannavarnir, björgunarsveitir og lögregluna og aðra viðbragðsaðila sem hafa aðstoðað starfsfólk fyrirtækisins á vettvangi og tryggt öryggi þess. Þannig hafi ýmis verkefni verið unnin á hættulegustu svæðunum í Grindavík í samvinnu við sérsveit ríkislögreglustjóra.

Páll sagði að starfsfólk HS Veitna hefði þurft að laga sig að krefjandi aðstæðum í náttúruhamförum sem því miður virtist ekki sjá fyrir endann á og staðan sú að búist væri við að enn drægi til tíðinda á næstu dögum. HS Veitur myndu halda áfram að leggja áherslu á að halda einbeitingunni í öryggismálum.

„Við leggjum mikla áherslu á að sinna þjónustunni vel, en í fyrsta sæti hjá okkur er að starfsfólkið komi heilt heim,“ sagði Páll.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson