Sveinn Snæland fæddist á æskuheimilinu á Túngötu 38 í Reykjavík og ólst þar upp í hópi þriggja bræðra og ástríkra foreldra. „Ég átti einstaklega góða æsku og var mikið að stússa með pabba. Við vorum báðir á sömu línunni og hann hafði áhuga á bílum og vélum og rak fyrirtæki með trukka, svo þú getur ímyndað þér hvað þetta var skemmtilegt,“ segir Sveinn og bætir við að hann hafi lært mikið af föður sínum og ekki síst að vera óragur við að prófa hlutina. „Með pabba var ég eins og kóngur í ríki mínu og ég bý að þessu góða atlæti sem ég fékk í æsku.“
Sveinn gekk í Melaskóla, Gaggó Vest og síðan í Menntaskólann í Reykjavík og útskrifaðist 1964. Hann fór í vélaverkfræði við Háskóla Íslands og lauk fyrrihlutaprófi hér heima, en framhaldsnámi við Danmarks Tekniske Universitet, DTU, í ársbyrjun 1971. Hann hafði unnið öll sumur við fyrirtæki föður síns við margs konar framkvæmdir, m.a. við byggingu laxastiga við Sveðjufoss í Langá, sem tók mörg sumur að reisa, og sú reynsla kom sér vel í náminu í Danmörku.
„Strax að loknu námi erlendis réðst ég til Ísal og vann þar við stjórnun í framleiðslunni og viðhaldsdeild þar til ég ákvað að söðla um liðlega fertugur og fór að vinna hjá fjölskyldufyrirtækinu. Sá iðnaður átti erfitt uppdráttar hér á níunda og tíunda áratugnum af ýmsum ástæðum og eftir áratug urðum við gjaldþrota.“ Sveinn fór þá að vinna hjá Norðuráli sem stjórnandi skautsmiðjunnar og líkaði vel og eignaðist þar góða starfsfélaga og vini.
„Ég á því láni að fagna að eiga yndislega fjölskyldu sem ég er einstaklega þakklátur fyrir. Það er auðvitað það mikilvægasta í lífinu. Samband okkar allra er þétt, kærleiksríkt og gott svo ekki er hægt að hugsa sér betra. Þetta byrjaði auðvitað allt með konunni minni, Nínu, en við kynntumst í menntaskóla. „Mér var boðið til vinar á afmælisdaginn minn og þar sá ég hana fyrst. Ég lamaðist þegar ég sá hana, ég varð ástfanginn um leið og þar með voru örlögin ráðin. Ég er mikill smekkmaður,“ segir Sveinn og hlær dillandi hlátri. Þau giftu sig 1965 og hafa því gengið veginn saman í tæp 60 ár. „Við höfum átt góða ævi og staðið saman í gegnum þykkt og unnt og ég er þakklátur fyrir barnalán okkar og hvað þau hafa líka verið heppin með maka og börnin sem eru óðum að stækka og sýna hvað í þeim býr, öll hæfileikarík, dugleg og góðar manneskjur.
Ég greindist fyrir fáeinum árum með alzheimer og hef verið að læra að lifa með því. Það gengur bara þokkalega, enda er það algengur misskilningur að þar með sé lífið búið. Ég var svo ljónheppinn að komast að á þjónustustöð Alzheimersamtakanna sem heitir Seiglan og starfar í Lífsgæðasetrinu St. Jó í Hafnarfirði fyrir þau sem eru nýlega greind með þennan sjúkdóm. Þangað sæki ég félagsskap og alls kyns iðju fjóra daga vikunnar og gæti ekki án þess verið. Þar er fjölbreytt starf í boði, við sækjum leikhús og tónleika á vegum Seiglunnar, fyrir utan heimsóknir á söfn, daglega göngutúra og margs konar uppbyggilega virkni í setrinu sjálfu. Þangað er alltaf gott að koma og glaðlegt viðmót gefur yl í sálina. Svo er ómetanlegt að eiga allt mitt góða fólk að í þessum kringumstæðum.“
Fjölskylda
Eiginkona Sveins er Jónína Margrét Guðnadóttir, f. 17.3. 1946, fv. útgáfu- og vefstjóri hjá Embætti landlæknis. Foreldrar hennar eru hjónin Guðni Jónsson, prófessor og ættfræðingur, f. 22.7. 1901, d. 4.3. 1974, og Sigríður Hjördís Einarsdóttir, f. 28.8. 1910, d. 18.7. 1979, húsmóðir.
Börn Sveins og Jónínu eru 1) Pétur Snæland, f. 30.5. 1971, yfirhugbúnaðararkitekt hjá Annata, kvæntur Solveigu Huldu Jónsdóttur tannréttingasérfræðingi. Þeirra sonur er Jón Pétur, f. 10.7. 2000, kvæntur Þuríði Rut Þuríðardóttur. 2) Tinna Kristín Snæland, f. 4.7. 1973, tannlæknir, gift Valtý Guðmundssyni, f. 2.2. 1969, viðskiptafræðingi, starfar hjá HMS. Dætur þeirra eru Ásdís, f. 1.3. 2002, Nína Margrét, f. 19.5. 2004, og Ágústa María, f. 5.2. 2008. 3) Sveinn Orri Snæland, f. 28.11. 1981, vélaverkfræðingur, starfar hjá Verkís, kvæntur Guðlaugu Ósk Sigurðardóttur, f. 21.4. 1981, byggingaverkfræðingi. Synir þeirra eru Sigurður Guðni, f. 29.11. 2009, og Gunnar Ágúst, f. 18.12. 2012.
Bræður Sveins eru Pétur H. Snæland, f. 1938, viðskiptafræðingur; Halldór Þórður Snæland, f. 1946, verslunarstjóri; og Gunnar Snæland, f. 1950, iðnhönnuður.
Foreldrar Sveins eru Pétur Valdimar Snæland, f. 10.1, 1918 í Reykjavík, d. 27.6. 2002, búfræðingur og ketilsmiður, lengst af forstjóri P. Snæland hf., og kona hans Ágústa Pétursdóttir Snæland, f. 9.2. 1915 í Reykjavík, d. 6.12. 2008, auglýsingateiknari og húsfreyja.