Svava Jóhanna Pétursdóttir fæddist 11. desember 1930. Hún lést 12. febrúar 2024.

Útför hennar fór fram 27. febrúar 2024.

Hvar á maður að byrja? Á byrjuninni, myndi svarið frá Svövu verða. Skemmtilega beinskeytt og blátt áfram. Ég minnist þess ekki þegar ég hitti Svövu í fyrsta skipti enda hún og mamma heitin systkinabörn og ágætis samgangur þeirra á milli. Síðan voru allar frænkurnar eins enda frænkur í sömu ættir eins og gekk í Skaftafellssýslunum. Svava hafði orð á því að þessu fólki í ættinni þætti hitt fólkið í henni best, mest og fallegast. Hún var ekkert mikið fyrir að skafa utan af hlutum þegar kom að umræðum og ráðahag um ráðskap í ættboganum. Þetta fólk væri hvort eð er allt undan því sem það elskaði mest, hvert öðru.

Svava var ein af þeim sem fara ekki út úr húsi nema vel tilhafðar. Það átti reyndar við þær allar frænkurnar að það var passað upp á stílinn. Það risti þó ekki djúpt enda hestabúskapur viðloðandi heimilið alla tíð, hundurinn Peron var einn af fjölskyldumeðlimunum og garðyrkja alltaf ofarlega á blaðinu. Hún og Örn voru iðin við að pota niður trjám, með mömmu og pabba, í skógræktarfélaginu og kvenfélagið ekki langt undan. Það fór henni ekki vel að vera iðjulaus, enda held ég að hún og mamma hafi passað upp á að hafa alltaf nóg að gera. Ófáir göngutúrarnir um Heiðmörk, eða á milli Heiðarlundar og Ásbúðar. Gönguskíði á túnunum við Vífilsstaði, kvenfélagið, skógræktin, leikfimistímarnir, sundið, alltaf að.

Þegar Siggi hringdi í mig á dánardægrinu varð mér að orði að það væri skrítið hvernig hlutirnir birtust og raungerðust. Ég hafði þá helgina áður verið að tala um mömmu heitna við Elísu mína og þá var ekki hægt að sleppa því að tala um Svövu frænku í hinu orðinu.

Við fjölskyldan óskum henni góðrar ferðar í sumarlandið, við vitum að Pétur bíður hennar með lykilinn, tilbúinn.

Fyrir hönd fjölskyldunnar,

Sindri Karl Sigurðsson.