Óbyggðanefnd halda engin bönd

Kröfugerð íslenska ríkisins um þjóðlendur á skerjum og eyjum í kringum landið hefur vakið uppnámi margra og furðu fleiri.

Meira að segja ráðherrann, sem er með málið á sinni könnu, er ekki sáttur við framgönguna, en virðist nauðbeygður þurfa að fylgja eftir kröfum ráðsins – sér þvert um geð. Í eðlilegri stjórnsýslu mætti þó ætla að ákvörðunin væri þess sem ber ábyrgðina.

Fáir hafa þó orðið jafn hlessa og Þórhildur Þorsteinsdóttir, bóndi á Brekku í Borgarfirði. Hún hefur fengið erindi frá óbyggðanefnd og þarf nú að sýna fram á eignarrétt sinn á 11 hektara túni í miðjum Norðurárdal. Þarna er reyndar örnefnið Kerlingarhólmi og Þórhildur segir í viðtali við Morgunblaðið í gær að þetta sé „eins fáránlegt og mest má vera. Það var ekki annað hægt en að hlæja í fyrstu en svo er ég bara fjúkandi reið yfir því að svona mistök séu gerð.“

Þórhildi er mikið niðri fyrir í viðtalinu: „Það er ekki nema von að embættismannakerfið svokallaða þrífist vel og tútni út eins og blöðruselur og fari sínar eigin leiðir. Þarna er tilviljanakennd krafa í hólma lengst inni í landi og ekki bara þennan heldur einnig í tún sem nefnist Hólsey sem er hér enn lengra inni í dal. Er nóg að bera heitið -ey og -hólmi?“

Þegar Morgunblaðið leitaði til óbyggðanefndar vegna málsins í fyrradag vísaði hver á annan, en fékkst þó uppgefið að málið yrði skoðað.

Samkvæmt óáreiðanlegum heimildum hyggst ríkið nú slá eign sinni á allar konur sem heita Þórey, Disney, Sverri Stormsker og lagið Blindsker eftir Bubba Morthens.