Björn Halldórsson fæddist á Vopnafirði 14. desember 1956. Hann andaðist á Sjúkrahúsinu á Akureyri 21. febrúar 2024.

Foreldrar hans voru Halldór Björnsson frá Svínabökkum, f. 5.4. 1930, d. 7.12. 2003, og Margrét Þorgeirsdóttir frá Ytra-Nýpi, f. 18.1. 1933, d. 10.1. 1999. Alsystkini Björns eru: 1) Jóna Kristín, f. 1.8. 1955, maki Gunnar Smári Guðmundsson, f. 4.8. 1954. 2) Ólafía Sigríður, f. 1.4. 1960, maki Þorsteinn Kröyer, f. 15.3. 1959. 3) Gauti, f. 23.9. 1963, maki Halldóra Andrésdóttir, f. 20.6. 1966. Hálfbróðir Björns er Þorgeir Hauksson, f. 19.11. 1952, maki Guðbjörg Leifsdóttir, f. 12.8. 1952, d. 12.11. 2021.

Sambýliskona Björns frá 1975 til 1995 var Álfhildur Ólafsdóttir frá Gerði í Hörgárdal, f. 27.8. 1956. Sonur þeirra er Bergþór Björnsson skurðlæknir í Linköping í Svíþjóð, f. 20.12. 1975 á Akureyri. Sambýliskona hans er Gunnþórunn Sigurðardóttir húð- og kynsjúkdómalæknir í Linköping, f. 7.9. 1975 í Reykjavík. Börn þeirra eru: Hilda Ósk, f. 20.11. 2007, og Viktor Máni, f. 23.11. 2013.

Hinn 15. ágúst 1998 kvæntist Björn Else Möller, f. 28.1. 1960. Þau skildu árið 2020.

Samferðakona Björns síðustu árin er Bryndís Sigurðardóttir, f. 9.3. 1962.

Björn ólst upp í Engihlíð. Hann stundaði nám við Torfastaðaskóla og Alþýðuskólann á Eiðum og lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri árið 1975. Eftir nám í Tækniskólanum á Akureyri og Búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri útskrifaðist hann sem búfræðikandidat (B.Sc.) vorið 1981. Á námsárunum stundaði Björn ýmis tímabundin störf s.s. byggingarvinnu, fór á vertíð í Grindavík, var fjósamaður á Hvanneyri og sinnti búskap og uppbyggingu í Engihlíð eftir því sem tími gafst til.

Vorið 1981 tók við kennarastarf við Bændaskólann á Hólum þar sem hann m.a. hafði umsjón með verknámi nemenda hjá bændum víða um land og tók mikinn þátt í þeirri endurreisn loðdýraræktar sem þá var að hefjast. Árið 1984 fluttist Björn heim til Vopnafjarðar, byggði íbúðarhúsið Akur úr landi Engihlíðar og hóf félagsbúskap með foreldrum sínum og bróður. Þá hófst uppbygging minkabúsins, sem varð gildur þáttur búrekstrarins allt til haustsins 2017.

Árið 1996 flutti hann til Danmerkur og vann þar á náttúruleikskóla og við smíðar en eftir heimkomu vorið 1999 helgaði hann sig búrekstrinum í Engihlíð og málefnum bænda.

Björn var mjög virkur í félagslífi bænda, bæði í héraði og á landsvísu. Hann vann að stofnun og uppbyggingu Sláturfélags Vopnfirðinga og Mjólkursamlags Vopnfirðinga og var stjórnarformaður Mjólkursamlagsins frá stofnun þess. Björn var formaður Búnaðarfélags Vopnafjarðar og í stjórn Búnaðarsambands Austurlands og sótti Búnaðarþing sem fulltrúi bænda á Austurlandi.

Björn var í fararbroddi fyrir uppbyggingu loðdýraræktar á Íslandi, gegndi formennsku Sambands íslenskra loðdýrabænda (SÍL) 2000-2018 og tók þátt bæði í faglegu og félagslegu samstarfi um loðdýrarækt á Norðurlöndum. Hann sinnti margvíslegum verkefnum fyrir Bændasamtökin og var skoðunarmaður reikninga þeirra síðustu árin. Björn sat í undirbúningsstjórn fyrir stofnun Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) árið 2012, síðar í varastjórn og var stjórnarformaður RML frá 2022 til dánardags.

Björn var virkur í stjórnmálum, var félagi í Alþýðubandalaginu frá unga aldri og gekk til liðs við Vinstrihreyfinguna – grænt framboð við stofnun árið 1999. Hann var lengi formaður kjördæmisráðs í Norðausturkjördæmi og sinnti ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir hreyfinguna.

Björn verður jarðsunginn frá Vopnafjarðarkirkju í dag, 2. mars 2024, klukkan 13.

Streymi:

https://mbl.is/go/epx34

Elsku pabbi minn.

Sum verkefni eru ekki til ánægju en þarf þó að leysa. Að skrifa þessi fátæklegu orð sem síðasta þakklætisvott fyrir allt sem þú gafst mér á allt of stuttri lífsleið þinni er eitt þessara verka. Það er samt þér að þakka að ég geri mér grein fyrir þessu og tekst á við verkefnið þrátt fyrir að það svíði mikið. Fyrir þá sem ekki fengu tækifæri til að kynnast þér til fullnustu eru orðin dugnaður, ósérhlífni, hjálpsemi, kjarkur, jafnrétti og réttvísi það sem sennilega kemur fyrst upp í hugann. Þó að sú mynd sé vissulega alveg rétt og hafi verið mér fyrirmynd í næstum hálfa öld eru samt aðrir kostir sem síður ber á í opinberu samhengi sem einnig eru okkur ofarlega í huga. Hlýr, barngóður, styðjandi og áhugasamur er líka það sem við munum bera með okkur fram á veginn.

Lengi býr að fyrstu gerð og þegar ég fletti í gegnum gömlu myndaalbúmin og sé okkur saman i badminton þegar ég var um það bil eins og hálfs árs og saman að moka snjó þegar ég var rúmlega fjögurra ára skil ég betur samverustundirnar sem fylgdu.

Veiðiferðir í Sænautasel, í Hofsá, á sjó, smalamennska, íþróttaiðkun og síðast en ekki síst hið daglega amstur við vinnu og nám voru allt hlutir sem ég deildi með þér. Á síðari árum endurspeglaðist það sama í þeim mikla áhuga sem þú sýndir afabörnunum, bæði hvað varðar nám og frístundir.

Þó að langt hafi verið á milli okkar var alltaf auðvelt að hringja og spjalla um lífið og tilveruna og þegar við fengum tækifæri til að hittast fannst þér gaman að sjá upptökur af fimleikaiðkun og öðrum íþróttum.

Sérstaklega kært er okkur fjölskyldunni að við náðum að eiga samverustund í desember en aldrei grunaði nokkurt okkar að það yrði sú síðasta.

Takk fyrir allt.

Bergþór, Gunnþórunn, Hilda Ósk og Viktor Máni.

„Bói dó í morgun,“ sagði pabbi mér í símann þann 21. febrúar síðastliðinn. Fréttirnar komu sem þruma úr heiðskíru lofti, ég vissi að hann hefði verið fluttur norður daginn áður vegna verks fyrir brjósti en hafði ekki hugleitt að mögulega væri komið að endalokum. Einhvern veginn var komið logn um stund undir fjöllum.

Þau yrðu þá ekki fleiri samtölin um búskapinn og pólitísk málefni líðandi stundar. Við myndum ekki oftar þerra ennið og setjast niður í pásu frá einhverju puði. Þær minningar falla aftur í fortíðina til móts það fólk sem skóp Engihlíð af bjartsýni og eljusemi. Það fólk sem hefur alið mig upp alla tíð, fyrir en ekki síður eftir að þau hurfu á braut. Björn Halldórsson fór á sama hátt og foreldrar sínir, snögglega og of snemma.

Ég held að elsta minning mín af Bóa sé þegar hann bjargaði puttum pjakks á þriðja ári úr gini minkalæðu. Pjakkurinn ætlaði að ýta strái á sinn stað inn í búrið og lenti í hremmingum. Bói bjargaði mér úr þessum hremmingum á örskotsstundu. Á sinn hátt er það táknrænt fyrir þann mann sem Bói hafði að geyma. Hann stóð eins og steinveggur með sínu fólki, sinni sannfæringu og sínu samfélagi – í þessari röð.

Bói frændi var mikill örlagavaldur í mínu lífi, með ráðgjöf og hvatningu á mikilvægum tímapunktum. Fyrir þau ráð og þann stuðning er ég þakklátari en ég nokkurn tímann kom til skila. Örlæti hans í garð frænda sinna birtist á margan hátt, meðal annars í þolinmæði þeirri sem hann sýndi okkur bræðrum er hann kenndi okkur pjökkunum verkin og leiðrétti mistök.

Bói var sannur sósíalisti af gamla skólanum. Hann var ekki upptekinn af innantómum kennisetningum heldur hafði hann innbyggða réttlætiskennd, hélt með þeim sem minna máttu sín og hafði óbeit á gróðahyggju og óhófi. Hann stóð fram á síðasta dag með flokknum sínum og ég hygg að fáir hafi verið traustari talsmenn. Það sem einkenndi Bóa þó í mínum huga var ekki þátttaka í stjórnmálahreyfingum eða félagsmálum heldur miklu frekar framfarahyggja manns úr afskekktum firði sem hafði trú á þekkingu og getu til að gera ætíð betur. Verkgleði og þrautseigja manns sem lét aldrei deigan síga þrátt fyrir áskoranir dagsins.

Hann horfði alltaf fram á við. Í verkefnum þeim sem hann tók að sér var alltaf það grundvallarstef að byggja upp og halda áfram. Hvort sem það var í búskap, félagsmálum bænda eða í ýmiss konar störfum í þágu samfélagsins bar hann með sér fölskvalausa vondirfsku til hinsta dags. Ég mun sakna frænda míns á Akri djúpt en mun leita ráða hans áfram, eða að minnsta kosti geta mér til um hvað Bói hefði sagt. Þau ráð hafa gefist mér vel hingað til.

Kári Gautason.

Unnusti, barnsfaðir, sambýlismaður, skólabróðir, vinnufélagi, besti vinur. Þannig voru aldarfjórðungskynni okkar Bóa. Leiðir okkar lágu fyrst saman á Akureyri þegar hann kom við hjá frænku sinni, skólasystur minni, kátur á leið á vertíð í Grindavík ásamt frænda sínum. Mér þótti hann nokkuð glannalegur í framkomu og þarna hef ég sennilega fengið fyrstu kennslustundina í vopnfirsku, tungumálinu þar sem orðnotkun eins og skrílmenni er ekki tiltökumál. Mörg orð átti ég síðar eftir að læra í Vopnafirði sem auðguðu íslenskuþekkingu mína.

Bói var heilshugar jafnréttissinni í víðum skilningi. Honum var því sjálfsagt mál að skipa sér í sveit vinstrimanna til þess að styðja fjárhagslegt og búsetulegt jafnrétti, sem og jafnrétti kynjanna. Hann tók fullan þátt í umönnun sonar síns í bernsku hans og fannst sjálfsagt að sinna heimilisstörfum, sem var alls ekki sjálfgefið hjá okkar kynslóð. Sem dæmi skal nefnt að hann lagði sitt ríkulega af mörkum þegar við sniðum og saumuðum spariföt á son okkar þriggja ára gamlan. Þar sem oftar naut hann uppeldis móður sinnar og handlagninnar sem hún gaf afkomendum sínum að erfðum.

Hann var harðduglegur til allra verka og sást þá ekki alltaf fyrir, sem gat komið líkama hans í koll. Sama gilti um þau mál sem honum fannst mikilsverð og var hann reiðubúinn að leggja mikið á sig til þess að vinna að framgangi þeirra. Eitt af hans brennandi áhugamálum var ræktun lands og skógar. Vann hann mikið að þeim verkefnum á heimaslóð og stóð dyggilega að baki konu sinni, Else, við skógfræðinám hennar á Hvanneyri.

Bói var mikill ættjarðarvinur og landsbyggðarmaður og Vopnafjörður átti heiðurssætið í huga hans. Enda segir um hann í brag um þorrablótsnefnd í Hólahreppi: … engan stað veit á okkar jörð, yndislegri en Vopnafjörð …

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að verja blómaskeiði lífs míns í fylgd Björns Halldórssonar.

Álfhildur Ólafsdóttir.

Elsku Björn, ég trúi ekki að þú sért farinn frá okkur. Lífið er svo furðulegt, það var svo mikið sem við áttum eftir að gera saman.

Ég kynntist Birni fyrir þremur árum, mér líður samt eins og ég hafi þekkt hann miklu lengur. Björn var ótrúlegur einstaklingur, leiðtogi sem kenndi mér svo margt. Eins og flestir sem þekktu Björn vita þá var hann mjög hlynntur skógrækt og var umhugað um umhverfismál og samfélagið í heild sinni. Björn var sá sem dreif áfram skógræktarverkefni Six Rivers, verkefni sem er í miklum vexti og er það mest honum að þakka. Ég vissi lítið um skógrækt og kolefnisbindingu áður en ég kynntist Birni. Hann kenndi mér svo margt, það var hægt að spyrja hann að hverju sem er, sama hversu heimskuleg spurningin var, hann svaraði alltaf og lét manni aldrei líða eins og maður væri vitlaus. Ein af mínum eftirminnilegustu minningum um Björn var þegar við fórum saman að klippa stiklinga. Það var í fyrsta skiptið sem við vörðum góðum tíma saman. Ég sagði honum frá því að við Selja værum að fara að opna veitingastað á Vopnafirði. Ég gleymi ekki svipnum, hann var svo hissa og ánægður með okkur.

Björn gerði mikið fyrir samfélagið á Vopnafirði, ég held að margir átti sig ekki á því hversu mikið hann hefur gert. Björn var ekki eingöngu í því að sá fræjum í skógrækt, hann sáði fræjum fyrir fólkið í kringum sig og samfélagið, hann hugsaði til framtíðar.

Það voru aldrei stutt símtöl þegar maður heyrði í Birni, að lágmarki klukkutími og samtölin voru svo skemmtileg. Ég man í síðasta skipti sem ég talaði við Björn, ég heyri enn þá röddina hans þegar við ræddum um skógræktarverkefni Six Rivers: „Þetta er svo spennandi, Helga, þetta er svo spennandi!“ Það kemur ekki maður í manns stað þegar það á við Björn. Við munum hjálpast að og keyrum hlutina áfram, fyrir þig Björn. Þú heldur áfram að vaxa, ég mun alltaf hugsa til þín – hvað hefði Björn gert? Takk fyrir allt elsku vinur minn, ég á eftir að sakna þín svo mikið.

Ég kveð kæran samstarfsmann og góðan vin. Mínar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina Björns.

Helga Kristín Tryggvadóttir.

Traustur félagi og gamall og góður kunningi, Björn Halldórsson bóndi á Akri í Vopnafirði, er óvænt og ótímabært fallinn frá. Björn tók virkan þátt í starfi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá upphafi, fylginn sér og ódeigur baráttumaður. Hann var formaður kjördæmisráðs Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi um árabil og gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir hreyfinguna á landsvísu, auk þess að vera oddviti okkar og andlit í heimahéraði meira og minna allan sinn tíma.

Við Vinstri græn söknum því félaga og vinar í stað þar sem er Björn Halldórsson og að honum er mikill missir. Fyrir hönd okkar allra, sem honum kynntumst og með honum störfuðu að sameiginlegum hugsjónamálum þessi tuttugu og fimm ár, flyt ég þakkir.

Björn Halldórsson kom víðar að félagsmálastarfi og lagði sitt af mörkum en í stjórnmálum. Hann var formaður Landssamtaka loðdýrabænda samfellt í átján ár og virkur í forustusveit bænda og félagsstarfi alla sína búskapartíð. Einnig lagði Björn sitt fram til málefna í heimabyggð sinni Vopnafirði og er þar skarð fyrir skildi að honum gengnum.

Björn Halldórsson hafði ákveðnar skoðanir og gat verið fastur fyrir ef í odda skarst, en honum var einnig eðlislægt að leita lausna og ná fram sanngjarnri niðurstöðu mála. Þeirri hlið hans kynntist ég vel og þar kom honum til góða hve skarpskyggn og félagsvanur hann var.

Ég kveð minn góða félaga með eftirsjá og votta aðstandendum hans samúð mína og fjölskyldu minnar.

Steingrímur J. Sigfússon.

Það er erfitt að horfast í augu við að kær vinur og félagi, Björn Halldórsson, bóndi á Akri í Vopnafirði, sé fallinn frá fyrir aldur fram. Við vorum svo heppin að kynnast Birni þegar við fluttum til Vopnafjarðar um hríð. Gamall vinskapur er á milli okkar og frænda Björns og því náðum við fljótt saman og mynduðum tengsl sem við mátum mikils og voru okkur dýrmæt.

Björn var einstaklega skynugur á samtímann og dugmikill þátttakandi í honum, hann gegndi víða trúnaðarstörfum og gerði það oftast lengi í senn. Hann hafði sterka skynjun fyrir brýnustu málum samtímans, ekki síst þeim sem snúa að byggðamálum, landbúnaði og náttúruvernd, vann ötullega að framgangi þeirra og skildi eftir sig stórt og mikið ævistarf á þeim sviðum.

Við höfðum yndi af því að ræða við Björn heima á Akri, hvort sem það sneri að málefnum nær eða fjær, gömlum eða nýjum. Hann var fróður mjög og vel lesinn og var í miklu og góðu sambandi við fólk víða um land sem hefur sitthvað um hlutina að segja. Ef borin voru upp einhver tíðindi þá var Björn ævinlega þegar kominn með fréttirnar á undan, hafði talsvert meiri innsýn í málið og sterkmótaða skoðun á vandanum og lausninni og það var aldrei út í loftið. Við lærðum því snemma að bera mikla virðingu fyrir Birni og að taka mikið mark á því sem hann sagði.

Á sama tíma og Björn hefur verið mörgum frábær liðsmaður hefur það líklega ekki verið neitt gamanmál að lenda upp á kant við hann því hann gat verið einþykkur og fylginn sér. Enginn átti neitt inni hjá honum við samningaborðið og líklega ágætt að hafa aldrei þurft að sitja gegn honum við það. Fyrst og fremst var hann þó stórbrotinn maður, sem skilur eftir sig mikið skarð. Það er okkur einhver huggun að handan við bíði Björn með kaffið í eldhúsi eilífðarinnar brosandi, kankvís og klókur.

Fjölskyldu hans og ástvinum vottum við okkar dýpstu samúð.

Þór Steinarsson og Guðrún Baldvina Sævarsdóttir.