Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sló á létta strengi er hún gerði grein fyrir fylgistapi flokksins á flokksráðsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í gær. Hún sagði flokkinn myndu „rísa upp“ eins og Þorvaldur Örlygsson sem var á dögunum kjörinn formaður KSÍ

Geir Áslaugarson

geir@mbl.is

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sló á létta strengi er hún gerði grein fyrir fylgistapi flokksins á flokksráðsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í gær. Hún sagði flokkinn myndu „rísa upp“ eins og Þorvaldur Örlygsson sem var á dögunum kjörinn formaður KSÍ.

Samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi er fylgi VG komið í 4,7% og því myndi flokkurinn ekki ná manni á þing. Í ræðu sinni talaði Katrín fyrir því að flokkurinn tæki samtal um hvaða skilaboðum hann vildi koma á framfæri. Hún sagði að eins og staðan væri í dag gæti hún „bara batnað“.

Ekki sanngjarnt

Í samtali við Morgunblaðið sagði Katrín fylgistapið vera mikil vonbrigði: „Ég get ekki sagt að mér finnist þetta vera sanngjörn niðurstaða fyrir hreyfinguna sem hefur leitt ríkisstjórnina í gegnum síendurteknar hamfarir sem ég tel okkur hafa haldið vel utan um,“ sagði Katrín.

„Þetta bága fylgi sem er búið að vera í nokkrum könnunum er mikil vonbrigði, en þetta hlýtur að vekja okkur öll í hreyfingunni til hugsunar um okkar stöðu.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður VG og félags- og vinnumarkaðsráðherra, sagði útlendingamálin hafa litað alla stjórnmálaumræðu að undanförnu og að VG hefði orðið halloka í umræðunni. Hann sagði flokknum stillt upp við vegg til þess að samþykkja eða hafna mismunandi frumvörpum tengdum málaflokknum frá dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Geir Áslaugarson