Kristín Jóhanna Mikaelsdóttir fæddist 16. júlí 1964. Hún lést 14. febrúar 2024.

Útförin fór fram 28. febrúar 2024.

Langar að minnast Kristínar í fáeinum orðum. Á mínu heimili var hún alltaf kölluð amma Stína, af Öglu, okkar sameiginlega barnabarni. Ég fékk reglulega fréttir af ömmu Stínu og augljóst að hún skipaði mjög stórt hlutverk í lífi Öglu. Hún sótti hana reglulega á leikskólann sem er í hverfinu hennar og var fastur og öruggur punktur í lífi Öglu, og reyndi hún af fremsta megni að vera til staðar eftir því sem veikindin ágerðust.

Síðustu samskipti okkar Kristínar voru í janúar þegar við vorum að skiptast á pössun og ég fékk skilaboð frá ömmu Stínu, að Agla væri að borða sushi og föndra með Auði sinni. Það var svo morgunljóst að Agla skipaði öndvegi á heimili ömmu Stínu og Philippe bónusafa og var hún amma með stóru A. Hún kunni að tala við börn og augljóst að hún hafði gefið mörgum öðrum börnum hlýju og góðvild á sinn náttúrulega og eðlilega hátt í sínu lífi og starfi. Svo var svo stutt í gleðina. Agla og allir aðrir ástvinir hafa misst mikið, en amma Stína lifir í Öglu og þeim minningum sem þær hafa skapað. Okkar hinna er að halda verðmætum minningum á lofti og varðveita þær.

Helena Bragadóttir.