Karl Sigurbjörnsson fæddist 5. febrúar 1947. Hann lést 12. febrúar 2024.

Útför Karls fór fram 26. febrúar 2024.

Fyrir margt löngu fletti skrifari útskriftarbók Menntaskólans í Reykjavík, Faunu. Það var mynd af útskriftarnema, sem horfði til kirkju. Kirkjan var aðeins til í kór, útveggjum og í teikningu. Útskriftarneminn er látinn segja, að það þurfi stóran prest til að þjóna í þessari kirkju. Jafnframt fær útskriftarneminn málshátt; „enginn verður óbarinn biskup“.

Hvort tveggja varð. Sóknarprestur í Hallgrímskirkju og biskup Íslands.

Ferill biskups var einstakur. Ungur var hann kallaður til þjónustu í blíðu til safnaðarins að Löndum, í einni elstu steinkirkju landsins, þar sem hljómar klukka frá dögum Tyrkjaránsins. Við vígslu prestefnisins var allt í stríðu. Aðstæður höfðu breyst á einni nóttu og söfnuðurinn tvístraðist í eldgosi. Ekki var látið hugfallast.

Þegar skrifari kom til veraldlegra starfa í Vestmannaeyjum var talað um eldklerkinn sem helgan mann. Prestsins, sem leiddi fermingarbörnin til fermingar í dómkirkjunni í Skálholti og prestsins, sem skírði litlu stúlkuna í návist eldsins í Landakirkju.

Ekki minnist skrifari hvenær hann hitti herra Karl fyrsta sinn, ef til vill í heimsókn hjá frænda hans í Vestmannaeyjum. Síðar tókust ágæt kynni.

Prófessor Einar, bróðir herra Karls, hafði leiðbeint mér við notkun orðstöðulykils Biblíunnar. Þar kom að, að ég gat leitað til herra Karls á stundum og fengið leiðbeiningar og skýringar þegar annað þraut. Sérstaklega minnist ég samtals um skáldskap séra Hallgríms um píslarsöguna. Og uppörvunar í öðrum skrifum.

Mér verður minnisstæð örstutt ferð með herra Karli og dóttursyni hans í hús Hæstaréttar. Hinn minni dómsalur Hæstaréttar varð herra Karli hugstæður, enda áhugamaður um húsagerð og tilvísanir. Þakgluggi yfir borði málflytjanda, fyrir augliti Guðs, og eyra réttvísinnar í vegg. „Greina skal satt og rétt frá.“

Ég minnist herra Karls, biskups míns, með þökk fyrir hlýju og stuðning. Virðingu fyrir störfum þjóns kirkju og kristni.

Ég votta eiginkonu, frú Kristínu Þórdísi, og allri fjölskyldu herra Karls samúð.

Verði góður drengur Guði falinn. Megi minning um herra Karl Sigurbjörnsson biskup heiðrast í vitund þinni.

Vilhjálmur Bjarnason.