Óvíða er náttúran jafn hrikaleg og í Öræfum. Sannarlega falleg í mikilfengleik sínum en óblíð um leið. Hvergi gerir eins svakaleg veður á Íslandi og sagan geymir frásagnir af miklum hamförum, jökulhlaupum og eldsumbrotum sem eiga sér fáar hliðstæður í heiminum.
Í þessum óblíðu aðstæðum er Steinþór Arnarson lögfræðingur alinn upp. Faðir hans var sauðfjárbóndi á Hofi en brá búi fyrir örfáum misserum. Alla tíð blundaði sú hugmynd í huga Steinþórs að vinna með landið sem bæði gefur og tekur. Á unglingsárum starfaði hann við hina umfangsmiklu ferðaþjónustu á Jökulsárlóni en upp úr aldamótum tók að móta fyrir minna og jafnvel magnaðra lóni nær heimahögunum. Þegar Fjallsárjökull tók að hopa gerðust töfrar sem nú sér stað í glæsilegu lóni sem hefur að geyma jökulkirkjur sem jafnt og þétt brotna úr sporði jökulsins og fleyta sér hægt um lónið uns þær bráðna og verða eitt með því.
Lónið sem gleymdist
„Hér var lítið lón og þá lá þjóðvegurinn hér rétt fyrir framan og þeir sem fóru fyrir áratugum hér um muna eftir því að hafa keyrt hér upp á hólinn minnast kannski lítils lóns. En hér var eiginlega enginn ís. Bara þessi mikilfenglegi jökull. Síðan þegar þjóðvegurinn var færður þá fór lónið í hvarf. Þetta var um 2000 og það dálítið gleymdist,“ útskýrir Steinþór.
En hann gleymdi því ekki þótt ekki hafi hann látið slag standa að hefja starfsemi í kringum lónið. „Svo var bara orðin traffík hérna upp að lóninu, engin aðstaða, fólk leggjandi hérna úti í móa og ekkert klósett. Þá hugsaði maður bara, nú er tímabært að gera eitthvað og þá hugsaði ég: ef einhver á að gera það, hví ekki heimamaður.“
Það var svo árið 2013 sem hann hóf siglingar á lóninu í félagi við aðra. Aðstæður voru frumstæðar, einn tuðrubátur og kerra þar sem fólk gat búið sig til ferðar. Leyfi fékkst frá sveitarfélaginu til að hefjast handa. Stundum var mikið að gera og á öðrum tímum ekkert. Bæklingum var dreift á strætóstoppistöðvar og fólk byrjaði undraskjótt að láta sjá sig.
„Þegar við vorum búin að vera starfandi í tvö ár þá komust menn að þeirri niðurstöðu að þetta yrði að bjóða út ef við ætluðum að fá lengra leyfi. Sveitarfélagið bauð þetta út 2015.“ Og fyrirtæki Steinþórs varð hlutskarpast. Í kjölfarið var mögulegt að hefja meiri uppbyggingu í kringum umsvifin nærri lóninu. Síðan þá hefur Steinþór reist hús sem bæði tryggja fullburða salernisaðstöðu, til þess að taka á móti gestum og undirbúa þá fyrir siglingar og svo einnig matsali sem þjóna gestum og gangandi en ekki síst einstaklingum og hópum sem fyrir siglingu eða eftir vilja fá sér hressingu.
Byggt til verndar
Eftir því er tekið þegar beygt er af þjóðveginum og upp að Fjallsárjökli hvað þessar byggingar falla vel að umhverfinu, eru í „sátt“ við það eins og kallað er. En Steinþór bendir á að þær geri meira. Þær ekki einasta raski umhverfinu lítið heldur komi í veg fyrir verra rask, bæði vegna þess að nú eru stikaðar gönguleiðir að lóni, bílastæði eru vel afmörkuð og fólk gengur ekki örna sinna hvar sem er, eins og raunin var oft áður en ráðist var í hina miklu fjárfestingu.
Tugir þúsunda koma og sigla á lóninu sumar hvert og stendur Steinþór sjálfur í ströngu við að þjónusta fólk. En hann hefur einnig öflugan hóp starfsmanna með sér, fjölþjóðlegan, sem hann segir að hafi reynst mjög vel. Erfitt sé að fá Íslendinga austur í sveitir til starfa sem þessara en því hafi kannski einnig ráðið að umsvifin hafa verið mjög árstíðabundin. „En svo held ég líka að Íslendingarnir mikli þetta svolítið fyrir sér,“ útskýrir hann.
Í fyrra festi fyrirtækið hins vegar kaup á tveimur jeppabifreiðum sem sinna nýjum verkefnum á vettvangi Fjallsárlóns. Þannig býður fyrirtækið upp á ísjöklaskoðanir sem Steinþór segir mjög vinsælar. Bendir hann á að mun stærri aðilar séu á þessum markaði fyrir en að með þessari viðbót eigi hann auðveldra með að bjóða öflugu fólki heilsársstörf.
„Nýlega réð ég bifvélavirkja til starfa. Hann kemur frá Reykjavík en er upprunalega frá Póllandi,“ útskýrir Steinþór en heilsársstörfin eru í kringum tuginn um þessar mundir.
Hann segir starfsfólkið sitt flest ætla sér að ílendast hér á landi. Ekkert fararsnið sé á þeim og það kunni mjög vel við sig. Hins vegar fylgi því áskoranir að koma fólki fyrir í Öræfum. Ekki sé mikið um húsnæði og Steinþór hefur sjálfur þurft að ráðast í uppbyggingu til þess að tryggja aðgengi starfsfólks að svæðinu.
Næturlangt á lóni
En það er fleira en siglingar, veitingaþjónusta og hellaferðir sem Steinþór býður upp á. Í leit að tækifærum til að lengja starfstímann yfir árið komst hann í tæri við finnskt fyrirtæki sem framleiðir fljótandi kofa sem hægt er að leggja á lóninu eða jafnvel draga eftir ísnum þegar þannig árar. Þrír slíkir eru nú í þjónustu fyrirtækisins og meðan lónið leggur ekki gefst viðskiptavinum kostur á að koma sér næturlangt fyrir í þessum kofum, upphituðum með allri nútímaðstöðu og virða fyrir sér lónið og jökulinn mikilfenglega sem teygir sig til himins og rennur saman við hann í ljósaskiptunum. Þessir kofar eru að hálfu úr gleri og segir Steinþór það vera óviðjafnanlega upplifun að vakna eldsnemma og sjá sólina rísa úr austri og baða jökulsporðinn sínum veiku en tæru geislum.
Þessi þjónusta hefur notið mikilla vinsælda og margir reynslumiklir ferðalangar vitna um það að upplifunin á sér fáar hliðstæður um veröld víða.
Uppbygging á svæðinu
Steinþór hefur rekstrarleyfi á lóninu fram á næsta áratug. Hann er spenntur fyrir framtíðinni og segir svæðið búa yfir miklum tækifærum. Nýtt lúxushótel rís til dæmis í nágrenninu og þá eru uppi hugmyndir um uppbyggingu aðstöðunnar við Jökulsárlón sem fyrir löngu var kominn tími á. Hlusta má á allt viðtalið við Steinþór á mbl.is og einnig á öllum helstu streymisveitum.