Hella Unnið er á fullu við byggingu annars áfanga viðbyggingar Grunnskólans á Hellu.
Hella Unnið er á fullu við byggingu annars áfanga viðbyggingar Grunnskólans á Hellu. — Morgunblaðið/Óli Már Aronsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hreiðar Hermannsson, eigandi Stracta hótels, hefur fest kaup á Hótel Hellu sem stendur við Þrúðvang á Hellu. Nú standa yfir gagngerar endurbætur á húsnæðinu, sem verður allt tekið í gegn innandyra og fært til nútímahorfs

Úr bæjarlífinu

Óli Már Aronsson

Hella

Hreiðar Hermannsson, eigandi Stracta hótels, hefur fest kaup á Hótel Hellu sem stendur við Þrúðvang á Hellu. Nú standa yfir gagngerar endurbætur á húsnæðinu, sem verður allt tekið í gegn innandyra og fært til nútímahorfs. Hótelið mun fá nafnið Stracta Mosfell hótel og stefnir Hreiðar að því að geta opnað fyrir gestum á vordögum.

Sótt hefur verið um lóðirnar Faxaflatir 5, 7 og 9 undir hótelstarfsemi en þetta svæði er sunnan við þjóðveg 1 gegnt húsnæði Reykjagarðs. Einnig hefur eigandi Hótels Kanslarans á prjónunum að stækka við sig til austurs meðfram þjóðvegi 1.

Opið hús var hjá Grunnskólanum á Hellu þar sem íbúum var gefinn kostur á að skoða og kynna sér 1. áfanga nýrrar skólabyggingar. Það er óhætt að fullyrða að þessi framkvæmd hafi tekist vel og starfsfólk og nemendur eru mjög ánægð með nýja og endurbætta aðstöðu. Á fundi byggingarnefndar um uppbyggingu á skólahúsnæði á Hellu var tekið saman lokauppgjör 1. áfanga viðbyggingar. Uppgjör gefur til kynna að kostnaður per fermetra sé 711 þúsund krónur með hönnunarkostnaði og er það í samræmi við upphaflega kostnaðaráætlun. Nýbyggingin sem tekin hefur verið í notkun er 530 fermetrar.

Nýbygging við Útskála er viðbót við núverandi skóla og er um 2.700 m2. Byggingin er 2. áfangi af fjórum við frekari stækkun skólans á lóðinni. Áfanginn er með sérgreinastofum, mötuneyti, samkomusal, bókasafni og tónlistarskóla á 1. hæð. Á 2. hæð eru skólaskrifstofur, móttaka, fundar- og viðtalsherbergi, kaffistofa starfsmanna, vinnuherbergi og fagbókasafn kennara, búningsherbergi og önnur stoðrými starfsmanna auk tæknirýma. Viðbyggingin tengist núverandi elsta hluta skólans að sunnanverðu með tengigangi. Aðalaðkoma mun færast og vera frá Þingskálum samhliða uppbyggingu áfanga 2.

Kynningarfundur var haldinn nýverið á Stracta hóteli fyrir sveitarstjórn og nefndarfólk vegna áforma Landsvirkjunar um vindorkuver á hraun- og sandsléttu við Vaðöldu austan Sultartangalóns. Góðar umræður sköpuðust um verkefnið og var fundurinn upplýsandi fyrir fundarfólk, farið var yfir umfang og tímaáætlun og næstu skref í málinu. Skipulagsnefnd lagði til á síðasta fundi sínum breytingu á nafni verkefnisins úr Búrfellslundi í Vaðölduver enda orðin breyting á staðsetningu vindorkuversins.

Guðni Guðmundsson frá Þverlæk var útnefndur fyrsti samborgari Rangárþings ytra á árlegri samverustund með eldri borgurum í nóvember sl. í menningarsalnum á Hellu. Guðni hefur síðustu ár verið ötull við að tína rusl ásamt dósum og flöskum meðfram vegum á Suðurlandi. Andvirði þessa hefur runnið til íþróttastarfs í Holtum og í Landsveit.

Um þessar mundir er verið að auglýsa eftir áhugasömum aðilum til að sitja í hverfaráðum Rangárþings ytra. Hverfaráðin skulu vera fjögur talsins og starfa á Hellu, í Holta- og Landsveit, í gamla Djúpárhreppi og í dreifbýli Rangárvalla. Hlutverk hverfaráða skal vera að fjalla um hvers konar mál á svæðinu og vera sveitarstjórn til halds og trausts. Hverfaráðin eru skipuð þremur fulltrúum skipuðum af sveitarstjórn og þremur varamönnum. Sveitarstjórnarfulltrúar eru ekki kjörgengir í hverfaráð. Auglýst skal eftir fulltrúum í ráðin á opinberum vettvangi.

Lagt hefur verið fram kauptilboð Rangárþings ytra vegna kaupa á 13,03 ha spildu úr landi Helluvaðs, undir íþróttasvæði og tengd svæði á Hellu að fjárhæð kr. 52.000.000. Í tilboðinu þykir rétt að upplýsa að náist ekki samkomulag um kaup á umræddri landspildu þá má búast við að sveitarstjórn taki til skoðunar hvort efni standi til þess að óska heimildar til eignarnáms.

Sveitarstjórn Ásahrepps bókaði á fundi sínum á dögunum áhuga sinn á að leita eftir því við sveitarstjórnir í Rangárvallasýslu hvort vilji væri til þess að hefja sameiningarviðræður þessara sveitarfélaga. Rangárþing ytra hefur samþykkt að mæta á fund til viðræðna.

Verið er að leggja lokahönd á nýtt deiliskipulag á Bjargstúninu. Það verður vonandi hægt að kynna það fljótlega, m.a. eru 16 lóðir fyrir einbýlishús frammi á kantinum fyrir vestan Ytri-Rangá sem verða glæsilegar útsýnislóðir með allan fjallahringinn í augsýn.

Höf.: Óli Már Aronsson