Samsýning listamannanna Baldurs Helgasonar, Claire Paugam & Loja Höskuldssonar verður opnuð í dag, laugardag, klukkan 16 í Gallery Porti á Kirkjusandi, Hallgerðargötu 23. Safnið er nú flutt þangað eftir sjö ár á Laugaveginum.
Sýning listamannanna þriggja nefnist Týnt spor (Lost Track) og sýna þau ný verk. Í fréttatilkynningu segir að öll þrjú hafi verið dugleg við sýningahald undanfarið, bæði hér heima og erlendis.
Árni Már Þ. Viðarsson, Skarphéðinn Bergþóruson og Þorvaldur Jónsson stofnuðu Gallery Port árið 2016 og hafa síðan þá staðið fyrir á annað hundrað listsýninga og viðburða ef allt er talið, segir í tilkynningunni. Tugir listamanna, innlendir sem erlendir, hafa sýnt og starfað með Gallery Porti í gegnum árin og komið að fjölbreyttu sýningarhaldinu. Þetta er þriðji flutningur gallerísins. Kemur fram að þeir hlakki til að halda áfram á sömu braut, með „sama líflega og óútreiknanlega sýningarhaldinu.“ Sýningin stendur yfir til 27. mars.