Söngvaseiður Hildur Vala Baldursdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir í hlutverkum systranna Elsu og Önnu á sviðinu.
Söngvaseiður Hildur Vala Baldursdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir í hlutverkum systranna Elsu og Önnu á sviðinu. — Ljósmynd/Jorri
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Teiknimyndin Frozen úr smiðju Disney hefur notið gífurlegra vinsælda og nú er svo komið að aðdáendum myndarinnar, stórum og smáum, gefst færi á að sjá söguna lifna við á Stóra sviði Þjóðleikhússins því söngleikurinn Frost verður frumsýndur þar á laugardag, 2

Viðtal

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Teiknimyndin Frozen úr smiðju Disney hefur notið gífurlegra vinsælda og nú er svo komið að aðdáendum myndarinnar, stórum og smáum, gefst færi á að sjá söguna lifna við á Stóra sviði Þjóðleikhússins því söngleikurinn Frost verður frumsýndur þar á laugardag, 2. mars.

Leikstjórinn Gísli Örn Garðarsson tekur á móti mér í forsal leikhússins áður en æfingar hefjast þann daginn. Hann segir verkið fyrst og fremst snúast um kærleika og vináttu. „Þetta er líka saga um að óttast ekki það sem maður er heldur finna frelsið í þeim eiginleikum sem hver og einn býr yfir. Í þessu tilfelli býr Elsa yfir ákveðnum töframætti, að geta fryst allt í kringum sig, og það verður hennar bölvun og blessun. Svo snýst þetta líka um að það þarf ekki alltaf að fara yfir lækinn til að finna þá sem standa manni næst og eru raunverulegu hjörtun í lífinu okkar.“

Magnaðar vinsældir

Söguna af systrunum Elsu og Önnu, sem sögð er í söngleiknum, þekkja margir úr teiknimyndinni frá 2013. „Maður lítur svolítið á það sem sjálfsagðan hlut en það er í raun magnað hvað allir þekkja þetta,“ segir Gísli Örn.

Spurður hver hann haldi að lykillinn að vinsældunum sé segir hann: „Ætli það sé ekki milljón krónu spurningin; hvað býr til klassík og hvað ekki, því Frost er vissulega að festa sig í sessi sem sígild klassík. Auðvitað sækir hún innblástur í mjög sterkan sagnagrunn úr ævintýrinu Snædrottningin eftir H.C. Andersen og það má ekki gleyma að á bak við Frost er mjög stórt teymi af einstaklega fjölhæfum einstaklingum sem hefur tekist að skapa þennan eftirminnilega ævintýraheim. Maður heldur oft að Disney sé vél sem dæli út efni, en auðvitað er þetta ekkert nema fjöldinn allur af listamönnum á bak við hverja einustu sekúndu sem er framreidd á skjánum,“ segir hann.

„Í Frosti er stutt á milli húmors og drama. Kúvendingin er oft á nokkrum augnablikum og það er hluti af vinnunni að leysa þessi augnablik. Þetta er ákveðin formúla í sumum verkum Disney og auðvitað krefjandi að takast á við. Það er stutt á milli tilfinninganna.“

Aðspurður viðurkennir Gísli að það sé vandasamt að snúa teiknimynd yfir í sviðsverk. Í myndinni hafi verið einfalt að teikna ísgaldra Elsu, svo dæmi sé tekið. „Við erum að reyna að beita þeim brögðum og aðferðum sem við þekkjum hérna í leikhúsinu til þess að galdra það fram.“

Hann nefnir að ef til vill muni margir áhorfendur vera að koma í leikhús í fyrsta sinn á ævinni, en sýningin er fyrir alla fjölskylduna. „Svo það er vissulega gefandi að fá að nota töframátt leikhússins, sem er vissulega annar en í kvikmyndum.“

Spurður hvort það sé áskorun að vinna með efnivið sem fólk þekkir svona vel segir hann: „Það er kannski það sem gerir þetta svona spennandi en ekki áskorun í sjálfu sér. Þetta er falleg saga, sem fjallar um fjölskyldu, systur, snjókarl, hreindýr og ástina svo eitthvað sé nefnt og það eru frekar forréttindi að fá þennan efnivið í fangið til að leika sér að, svo ég tali nú ekki um að hafa unnið þetta í nánu samstarfi við alveg hreint frábæra einstaklinga innan Disney-samsteypunnar. Fyrst og fremst hefur það verið gjöfult og lærdómsríkt.“

„Ekki að stytta okkur leiðir“

Til grundvallar sýningunni liggur handrit að Frozen-söngleik sem settur var upp á Broadway og þar er að finna ný lög sem eru ekki í myndinni. Að öðru leyti segir Gísli að listræna teymið hans hafi haft frjálsar hendur við uppsetninguna.

Gísli og samstarfsfólk hans munu setja söngleikinn upp í stóru norrænu löndunum fimm, fyrsta sýningin var sett upp í Noregi fyrir jól og sýningar í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi fram undan. Spurður hversu líkar þessar sýningarnar verði segir Gísli að sýningin hér sé að mörgu leyti ólík þeirri í Noregi.

„Sviðið í Noregi er til dæmis miklu stærra. Svo lærir maður margt á því að fara í gegnum þetta í fyrsta skipti. Þetta fer líka eftir því hverjir leika og hvaða listrænu stjórnendur koma að þessu hverju sinni. Þær eru mun ólíkari en ég hefði haldið í fyrstu. Við erum ekki að stytta okkur leiðir. Mér líður eins og við séum að gera þetta í fyrsta sinn hér. Þetta er sama handritið og sömu lögin en flest annað er öðruvísi.“

Sömu listrænu stjórnendur koma þó að leikmyndinni, búningum og ljósum. „Þegar við kláruðum í Noregi settumst við niður með autt blað og byrjuðum upp á nýtt, með þá reynslu sem við höfðum frá Noregi. Það eru svo kannski tvö eða þrjú ár í að maður fari á næsta stað svo þá mun líða tími á milli og áherslurnar munu pottþétt breytast aftur.“

Disney ekki á stefnuskránni

Börkur Jónsson sér um leikmyndina. „Við höfum unnið saman margoft þannig að það lá bara beint við. Þetta er skemmtilegt ferðalag sem við erum búnir að eiga frá því við byrjuðum í bílskúr á Vesturgötu og Vesturport varð til og vera núna að gera stóran Disney-söngleik. Það er rökrétt fyrir okkur Börk að gera það saman. Við hlæjum að því hvað þessi vegferð hefur verið asnalega skemmtileg. Frá því að vera í einhverju rosa avant-garde-leikhúsi yfir í þetta. Þetta er svo frábrugðið því sem maður hefur verið að gera. Þetta var ekkert á stefnuskránni en það er það skemmtilega við þetta starf, hvað það er fjölbreytt og litríkt og leiðir mann í áttir sem maður hafði alls ekki getað séð fyrir,“ segir Gísli Örn.

Christina Lovery hannar búninga og Torkel Skjærven hannar lýsingu. Chantelle Carey bættist svo í hópinn hér heima og sér um dans og sviðshreyfingar. „Þegar við byrjuðum í Noregi þá langaði mig að prófa að vinna með góðu fólki þar. Við komum öll úr svipuðum aðstæðum, úr grasrótinni. Svo er Disney sett í fangið á okkur og það hefur verið gaman að leiða saman okkar hesta,“ segir Gísli.

Hann nefnir að teymið hafi farið í marga hringi með það hvernig snjókarlinn Ólafur, sem lifnar við í myndinni, ætti að líta út á sviðinu. Niðurstaðan var að hann yrði að vera auðþekkjanlegur. „Þú verður að sjá strax að þetta er Ólafur lifandi á sviðinu og fá hlýtt í hjartað. En það er mjög flókið að fara úr teiknimynda-Ólafi í sviðs-Ólaf. Við erum með Góa [Guðjón Davíð Karlsson] í því hlutverki og búin að finna mjög skemmtilega leið.“

Þenja mörk leikhússins

Haldnar voru miklar áheyrnarprufur fyrir hlutverk systranna en Vala Kristín Eiríksdóttir var að lokum valin í hlutverk Önnu og Hildur Vala Baldursdóttir í hlutverk Elsu. „Þær höfðu þetta sem þarf í þetta, sönginn, leikinn og hreyfingarnar, og þetta „glimt i øjet“ sem maður þarf að hafa.“

Almar Blær Sigurjónsson er síðan í hlutverki Hans og Kjartan Darri Kristjánsson er Kristófer, eða Kristján eins og hann heitir í íslensku uppfærslunni. Ernesto Camilo Aldazábal Valdés fer síðan með hlutverk hreindýrsins Sveins. „Hann er stórkostlegur dansari þannig að hreindýrið er á miklu flugi.“

Bragi Valdimar þýðir verkið og vann auk þess nýjar þýðingar á lögunum sem fólk þekkir úr myndinni. „Lagið „Let It Go“ heitir ekki lengur „Þetta er nóg“ heldur „Ég er frjáls“. Hann er hárréttur í þetta verkefni. Það hefur áhrif á heildaruppsetninguna, hvernig þýðingin endar á að vera. Það sem leikararnir segja veitir innblástur í það sem maður gerir á sviðinu,“ segir Gísli.

„Þetta er stór sýning með mörgu fólki og lifandi hljómsveit. Við erum eðlilega að þenja mörk leikhússins. Ef þetta væri ísjaki þá myndi gnesta í honum og bresta,“ segir hann og um leið og hann sleppir orðinu er hann kallaður inn í Stóra sal.

„Komdu og sjáðu eitt flug!“ segir hann við mig. Þegar inn í salinn er komið blasir við okkur að búið er að hífa Kjartan Darra upp undir rjáfur og þar svífur hann vængja á milli. Mikið líf er í salnum enda formleg æfing í þann mund að hefjast; leikararnir streyma að og fá festa á sig hljóðnema, sviðsmenn eru á ferð og flugi um sviðið, hljóð- og ljósateymi vinnur úti í sal og smiður festir lausa fjöl hátt uppi á ísilagðri leikmyndinni.

„Hápunkturinn er að sjá þetta allt koma saman. Það er uppáhaldstímabilið mitt þegar allt fer að smella saman og maður sér ljósið við enda ganganna,“ segir Gísli Örn áður en við kveðjumst.

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir