Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Nöturleg eru þessi örlög. Vér þurfum andspyrnuhreyfingu áhugamanna um djass(píanó)tríó til að hefja það upp til réttmætrar dýrðar.

Kjartan Magnússon

Á sviði er hálf tylft djasstónlistarmanna og þar af þrír tónstigamenn með gjallarhorn sem þeir kalla saxófón; gargfæri sem hefur í hundrað ár þreytt þolinmæði saklauss almúgans, sem hefur tekið sér kvöldstund til afþreyingar og er refsað með þremur 16-takta sólóum í röð, hver fyrir sig ígildi sjálfhverfs nautnaóps póstmódernisma og hrópandi höfnun fegurðar.

Árinni kennir illur ræðari. Ekki er við hana að sakast frekar en gargfærið, sem var einu sinni hljóðfæri, áður en það komst í rangar hendur og hljómsveitarstjórinn missti yfirsýn eða titilinn alfarið. Hertoginn af Ellington, sem vanhagaði um hvorugt, sá til þess að innanborðs væru góðir ræðarar og að þeir fengju sinn tíma í hófi. Menn fara betur með það sem takmarkað er, en í upplausn nútímans eru reglur til þess eins að brjóta þær, ræðararnir róa bátskriflinu í hring eftir hring og farþegarnir verða sjóveikir!

Þó er ekki hægt að ræða þetta mál án þess að gefa gaum að þjáningu hinna þriggja tónlistarmannanna, sem ekki leika á gargfærið, en eru tilneyddir að veita því undirleik og horfa upp á tónstigamennina gera lágkúru úr listgrein sinni. Bassaleikarinn og trymbillinn þurfa að halda skipinu á floti með taktfestu og góðri sveiflu, píanóleikarinn þarf að leika viðeigandi hljóma, sem geta ekki verið annað en óviðeigandi með formleysi og reiðareki tónstigamannanna. Nöturleg eru þessi örlög. Vér þurfum andspyrnuhreyfingu áhugamanna um djass(píanó)tríó til að hefja það upp til réttmætrar dýrðar. Að því loknu má bjóða tónstigamönnunum að vera með, en þá á forsendum tríósins, ekki þeirra eigin.

Höfundur er sveiflusinnaður trymbill.

Höf.: Kjartan Magnússon