Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, og Louis Dunford. Arteta á stóran þátt í því að gera The Angel að slagsöng Arsenal.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, og Louis Dunford. Arteta á stóran þátt í því að gera The Angel að slagsöng Arsenal. — X.com
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Algengt er að knattspyrnufélög í Englandi eigi sér slagsöngva (e. anthems) sem sungnir eru rétt áður en flautað er til leiks á heimavelli. Og svo sem á öðrum tímum líka. Þeirra langfrægast er auðvitað You’ll Never Walk Alone, sem áhangendur Liverpool kyrja á Anfield

Algengt er að knattspyrnufélög í Englandi eigi sér slagsöngva (e. anthems) sem sungnir eru rétt áður en flautað er til leiks á heimavelli. Og svo sem á öðrum tímum líka. Þeirra langfrægast er auðvitað You’ll Never Walk Alone, sem áhangendur Liverpool kyrja á Anfield. Einnig má nefna I’m Forever Blowing Bubbles hjá West Ham, Blue Moon hjá Manchester City, Glad All Over hjá Crystal Palace og Can’t Help Falling In Love hjá Sunderland.

Arsenal hafði aldrei átt sér slagsöng. Eftir að félagið flutti búferlum frá Highbury yfir á Emirates-leikvanginn í Lundúnum árið 2006 var að vísu gerð tilraun með The Wonder Of You með Ella gamla prestsins. Fínt lag en engin negla og dagaði á endanum uppi. Fyrir tveimur árum breyttist þetta, nánast fyrir tilviljun, og áhangendur Arsenal eiga sér nú loksins alvöru slagsöng, The Angel (North London Forever), sem smýgur inn að beini, og mun án efa verða sunginn hástöfum fyrir hvern heimaleik næstu árin, jafnvel áratugina.

Saga þessa lags er stórmerkileg en ólíkt lögunum sem nefnd voru hér að framan þá var það glænýtt þegar það vann sér sess í hjörtum Gúneranna. Höfundurinn heitir Louis Dunford og er ekki mörgum kunnur. Hann er fæddur og uppalinn í Arsenal-hverfinu, Islington, og er ákafur stuðningsmaður liðsins og fólkið hans allt.

The Angel (North London Forever) er þó ekki samið sérstaklega um Arsenal, heldur er það einfaldlega ástaróður til hverfisins í heild og andans sem þar ríkir. „Lagið er samið um heimabæ minn,“ sagði Dunford við tímaritið Music Republic þegar lagið kom út. „Allir sem búið hafa í Norður-Lundúnum eins lengi og ég munu bera kennsl á fólkið og staðina sem ég get um í textanum. Sumir eru hér enn, aðrir ekki. Þetta er það af lögunum mínum sem er í mestu uppáhaldi hjá vinum mínum og fjölskyldu. Hver maður upplifir borgina á sinn hátt. Ég gerði mitt besta til að fanga mína.“

Fátt sagði af laginu fyrsta kastið en síðan fór mögnuð atburðarás af stað. Eftir að Dunford flutti lagið á ónefndum bar í Islington tveimur mánuðum síðar settist kunningi hans, sem var búinn að fá sér einn eða tvo svellkalda, hjá honum og sagði að menn yrðu að leika The Angel (North London Forever) á Emirates. „Þannig að, í algjöru gríni, þá taggaði ég Arsenal á Twitter og sagði: Spilið The Angel. Það er það sem fólkið vill. Ég var bara að hugsa um þá fáu sem fylgdu mér á Twitter og að þeim kynni að þykja þetta fyndið,“ hefur sparkmiðillinn 90 Min eftir Dunford.

Honum brá því í brún þegar hann vaknaði daginn eftir og sá að búið var að endurtísta skilaboðunum yfir 1.000 sinnum. „Ég skildi ekki neitt í neinu.“ Og enginn stöðvaði þann þunga nið, endurtístin urðu 2.000, 10.000, 15.000 og loks yfir 30.000. „Ég hugsaði bara með mér: Hvur rækallinn, og allt út af einum fyllerísbrandara!“

Þarna voru menn farnir að velta fyrir sér tengingunni við Arsenal og Dunford hefur aldrei verið með nein þykjustulæti í þeim efnum.

„Eigi ég að vera ærlegur þá hafði ég Arsenal alls ekki í huga þegar ég samdi lagið. Minnst er á Highbury og leikvang í fyrsta versinu en það er vegna þess að þetta er hluti af landslaginu mínu,“ hefur 90 Min eftir Dunford. „Arsenal er nefnilega snar þáttur í uppvexti manns hér um slóðir. En þegar fólk þakkar mér fyrir að hafa samið lagið fyrir Arsenal þá verð ég að viðurkenna að það var algjörlega óvart. Hefði ég átt að setjast niður og semja lag sem ég héldi að myndi heilla stuðningsmenn Arsenal þá hefði mig ábyggilega rekið í vörðurnar.“

Stjórinn steig inn í málið

Einn af þeim sem fengu veður af málinu var Mikel Arteta, hinn spænski knattspyrnustjóri Arsenal. Hann hlustaði á raddirnar (skeytin til hans skiptu víst þúsundum) og lék lagið fyrir leikmenn sína á liðsfundi með þeim orðum að sólin hefði komið til þeirra. Nýr slagsöngur væri fundinn. „Hvað finnst ykkur?“ Þetta má sjá í heimildarþáttum um tímabilið 2021-22 hjá Arsenal sem sýndir voru á Amazon Prime Video.

Úr varð að söngvarinn var heiðursgestur á næsta heimaleik Arsenal, gegn Leeds United 8. maí 2022, og viðlag The Angel (North London Forever) var leikið rétt áður en flautað var til leiks. Svo til hver kjaftur á vellinum, sem tekur 60.000 manns í sæti, tók undir af mikilli innlifun og ástríðu – og ekki varð aftur snúið.

Myndavélarnar voru á Dunford meðan lagið ómaði og hann gat lítið annað en þakkað áhangendum Arsenal fyrir alla ástina og hlýjuna. „Ég er orðlaus.“

Arteta komst líka við í samtali við vefsíðu Arsenal eftir leikinn. „Þetta var tilfinningaþrungin stund. Ég held að þetta hafi haft áhrif á það hvernig liðið byrjaði leikinn, vegna þess að leikmennirnir voru að tala um þetta í klefanum á undan, að hafa hlustað á lagið og andann og tilfinningarnar sem það kveikti. Það var engu líkt. Ég hef ekki í annan tíma upplifað þetta hérna, þetta var í fyrsta sinn og ég naut þess í botn og vona að áhangendurnir hafi gert það líka.“

Í dag dettur ekki nokkrum dómara í hug að flauta til leiks á Emirates-leikvanginum fyrr en viðlag The Angel (North London Forever) hefur fengið að hljóma – hátt og snjallt.

Fleiri tilviljanir

Tilviljanir eru greinilega hreyfiafl í lífi Louis Dunfords. Hann gaf sig ekki að tónlist fyrr en hann var orðinn 15 ára og fjölskyldan flutti inn í íbúð, þar sem píanó fylgdi með. Pilturinn bað foreldra sína um að halda gripnum en síðar þurfti hann líka að læra á gítar, vegna þess að hávaðinn í slaghörpunni var of mikill er leið á kvöldið.

Kappinn var uppgötvaður fyrir áratug og hefur sent frá sér tvær EP-plötur. Yrkisefnið er gjarnan persónulegt. Árið 2022 fékk Jake Bugg hann til að hita upp fyrir sig á tónleikaferð. The Angel (North London Forever) er hans lang, lang, langþekktasta lag til þessa.

Móðir Dunfords, Linda Robson, er leikkona og sjónvarpskona, þekktust fyrir að hafa verið í hinum lífseiga gamanmyndaflokki Birds of a Feather.