— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hinn almenni íslenski kjósandi veit ekki annað en að sátt hafi löngum og lengst af verið í megindráttum innan núverandi ríkisstjórnar, enda er það fremur sjaldgæft að þaðan berist fréttir um veruleg innri átök og enn síður hafa borist trúverðugar fréttir um að samstarfið þar hafi „hangið á bláþræði“, þótt vitað hafi verið um meiningamun í einstökum málum og hann stundum allverulegan.

Hinn almenni íslenski kjósandi veit ekki annað en að sátt hafi löngum og lengst af verið í megindráttum innan núverandi ríkisstjórnar, enda er það fremur sjaldgæft að þaðan berist fréttir um veruleg innri átök og enn síður hafa borist trúverðugar fréttir um að samstarfið þar hafi „hangið á bláþræði“, þótt vitað hafi verið um meiningamun í einstökum málum og hann stundum allverulegan.

Þegar það hefur gerst, þá virðist ágreiningnum hafa verið ýtt til hliðar eða ýtt á undan sér um hríð eða saltaður og ekki reynt að ná samkomulagi, heldur í besta falli fundin útþynnt niðurstaða, sem allir kyngja loks, meira eða minna óánægðir.

Þegar margir flokkar koma að ríkisstjórn, hvort sem þær eru þriggja flokka eða með enn fleiri flokkum, eiga menn iðulega erfiðara með, þegar líða tekur á samstarfið, að halda óánægjunni innan hópsins og óánægja innan flokkanna eykst og tekur að leka út, sem stundum er aðferð sem notuð er til þess að fá nokkra útrás og skilning hjá sínu liði, að ekki hafi flokkshagsmunum og stefnu verið fórnað án átaka. Og þetta kann að gerast þó að ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu enn fjarri því að vilja taka hatt sinn og poka og leita annarra lausna, svo ekki sé talað um að setjast óbreyttir út í sal.

Stemning af þessu tagi getur hæglega komið upp þótt enginn innan borðs hafi persónulega út á samstarfið að setja. Hvað er þá að? Það gætu hafa birst kannanir nokkrum sinnum í röð sem sýna flokkinn sem á í hlut í „óásættanlegri“ stöðu. En aðrir flokkar, jafnvel hluti af stjórnarandstöðunni, hafa fengið meira út úr því en „eðlilegt er“ og braggast betur en æskilegt er og reyndar óþolandi til lengdar.

Það er á hinn bóginn einnig þekkt að hveitibrauðsdagar hverrar ríkisstjórnar, og þá sérstaklega þeirra sem styðjast við marga flokka, eru helst skrifaðir í skýin og þar er mismikil festa, eins og kunnugt er. Það eru nokkur lögmál sem koma við sögu, þegar spá skal fyrir um lífdaga ríkisstjórnar og velferð, þegar ráðherrar koma prúðbúnir og glaðbeittir út af sínum fyrsta ríkisráðsfundi, vongóðir og tilbúnir í slaginn, en eru þó misjafnlega upplagðir í þau verkefni sem forysta hvers flokks hefur úthlutað þeim. Það má gefa sér að ekki séu allir hásetarnir, sem skráðir eru um borð í tímahraki, jafn framsæknir og drjúgir til verka og vonast er til. Því að óhjákvæmilega er horft til margra sjónarmiða við þá kúnst sem myndun ríkisstjórnar er, og mismikill eða lítill tími gefst til ákvarðana um þætti eins og þessa. Horfa verður til þess hvernig einstaklingum hefur vegnað innan flokks og hvort þeir njóta almenns trausts eða binda sig við þrönga klíku. Spurt er um hvort einstök kjördæmi eigi einhverja óljósa kröfu, en kröfu þó, um að foringi þess eigi, af flokksins hálfu, meira tilkall en aðrir til ráðherrastóls að þessu sinni. Og þegar öll þau sjónarmið hafa verið skoðuð þarf foringi hvers flokks að meta hversu langt hann getur gengið gagnvart þingflokknum. Því á meðan hann hefur lagt nótt við dag við að berja saman ríkisstjórn er mikið brallað annars staðar og reynt að hnýta saman bandamenn í þingflokki hvers og eins, og er spennandi að horfa á hversu góð tök eða lin hver formaður hefur þá á sínum flokki eða þingflokki, því hann skiptir mestu þegar þarna er komið.

Misjafn endingartími

Og stundum þurfti það ekki endilega að koma verulega á óvart þegar ríkisstjórn hrökk óvænt upp af stampi sínum, eftir aðeins fáeina mánuði, enda alltaf ráð fyrir því gert, án þess að orð hafi verið um það haft við fleiri en þurftu nauðsynlega að hafa þá vitneskju, eða svo laust hafi allir endar verið hnýttir að illa dygði, eða þá að byggt hafi verið á mörgu reynslulausu fólk innanborðs, að það beri dauðann í sér. Ríkisstjórnin sem sat í tæpa ellefu mánuði árið 2017 er dæmi um þetta síðasta. En hitt er líka þekkt að settar hafi verið á eins konar millibilsríkisstjórnir, á meðan forsetinn eða forystumenn stjórnmálaflokkanna leituðu kosta til að mynda varanlega stjórn.

Í fyrra tilvikinu var mynduð minnihlutastjórn Alþýðuflokksins, sem síðar varð annar hluti Viðreisnarstjórnarinnar og það var Ásgeir Ásgeirsson forseti sem hélt í þá spotta. Þá stýrði forsetinn því að Emil Jónsson fór fyrir minnihlutastjórn sem sat í 11 mánuði og varð undanfari Viðreisnarstjórnar Ólafs Thors og síðar Bjarna Benediktssonar og loks Jóhanns Hafstein, sem sat lengi og var farsæl stjórn.

Ömurlegt erindisleysi

En í seinna tilvikinu réði Sjálfstæðisflokkurinn mestu um það að Benedikt Gröndal fór fyrir minnihlutastjórn sem sat í fjóra mánuði og endaði ekki vel fyrir flokkinn, því að Gunnar Thoroddsen myndaði stjórn sem var á alla lund mjög veik og sat alfarið í skjóli Framsóknar og Alþýðubandalags, en þeir flokkar töldu augljóslega að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki lifa það af að varaformaður flokksins yrði forsætisráðherra í óþökk flokksins, en formaður flokksins yrði á sama tíma leiðtogi stjórnarandstöðunnar. En Sjálfstæðisflokkurinn þraukaði, þrátt fyrir þessar þrautir, mótbyr, og algjörlega óábyrga stjórnmálamenn í ríkisstjórn, en það gerði fjárhagur landsins hins vegar ekki og fór flest úr böndum sem farið gat. Verðbólgan mældist 130% skömmu fyrir fall þessarar stjórnar og um 80% á ársgrundvelli.

Tók Steingrímur Hermannsson svo að sér að vera í fyrirsvari nýrrar stjórnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði meirihluta ráðherra, 6 af 10. Fór sú ríkisstjórn að mestu eftir tillögum sem Jónas Haralz hafði að mestu samið, en þær tillögur voru fordæmdar mjög af þeim stjórnmálamönnum sem stóðust ekki freistingarnar um að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn þegar þeir töldu líkur á slíku. Sem betur fer hafa íslenskir stjórnmálamenn ekki fallið í slíka gryfju ábyrgðarleysis á ný til þess eins að koma skammtíma höggi á andstæðingana, en almenningur varð óhjákvæmilega að standa undir öllu saman.

Þetta dæmi sýnir að þeir eru til sem gera hvað eina fyrir völd og frama og það þótt hvort tveggja standi stutt. Menn minnast þess enn þegar gildra var lögð fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson á sínum tíma, og komst hann ekki hjá því að biðjast lausnar sem forsætisráðherra um nokkurt hlé á meðan hann hreinsaði af sér sakir. Sem hann gerði. Nánustu samstarfsmenn hans í flokknum hétu honum tryggð og heilindum, sem þeir stóðu ekki við.

Við höfum horft upp á önnur dæmi af slíku tagi erlendis frá. Þannig var Boris Johnson, leiðtogi Íhaldsflokksins breska, leikinn, einn mestur sigurvegari flokksins, allt frá því að frú Margrét Thatcher var og hét.

Á lokaspretti hennar í stjórnmálum snerust samsærismenn á æðstu stöðum flokksins gegn henni og felldu hana úr formannssætinu. John Major, sem staðið hafði með samsærismönnum, þótt hann vildi lengi vel ekki gangast við því, varð forsætisráðherra og vann einar kosningar naumlega. Eftir það var draumur hans og Íhaldsflokksins búinn í bili.

Sigursæll foringi

Tony Blair, leiðtogi Verkamannaflokksins, komst til valda og hélt þeim í ein 10 ár, allt þar til Gordon Brown fjármálaráðherra náði að ýta honum út með vísun til persónulegs samnings þeirra Blair, sem pískrað hafði verið um lengi vel en hafði ekki birst opinberlega. Samningurinn var sagður gerður á milli þeirra tveggja, nánar tiltekið á veitingastaðnum Granita í Islington, og væri bindandi. Innihald hans gekk loks eftir. Brown náði því þó aldrei að verða eins vinsæll og Tony Blair, sem vann hvern kosningasigurinn af öðrum. Stuðningur hans við Íraksstríðið, sem hafði góðan byr lengi vel, dvínaði brátt, en báðir stóru flokkarnir á þinginu í Westminster studdu lengst af ákvarðanir og stríðsrekstur George W. Bush, forseta Bandaríkjanna.

Gordon Brown hikaði of lengi að boða til sinna fyrstu kosninga, en breski forsætisráðherrann fer einn með vald til að ákveða kjördag, þó innan þeirra marka sem lög um kjörtímabil setja. Loks þegar hik Browns hætti var farið að standa illa í bólið hans og Brown tapaði og náði því aldrei að sigra í kosningum. Að hika er hið sama og að tapa, sannaðist enn.

Ekki tildursmaður

Mjög er því haldið fram að flestir stjórnmálamenn séu mjög veikir fyrir tildri og frama af hvers konar tagi og vilji miklu fórna fyrir slíkt. Á því eru, sem betur fer, margar undantekningar. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, skrifar vandaðan kafla í bókina „Forsætisráðherrar Íslands“ um Jón Þorláksson, leiðtoga Íhaldsflokksins og síðar Sjálfstæðisflokksins. Þar segir: „Jón Þorláksson fjármálaráðherra sóttist ekki eftir því að verða forsætisráðherra heldur reyndi að finna annan til að taka að sér starfið þegar Jón Magnússon forsætisráðherra varð bráðkvaddur á Norðfirði 23. júní 1926. Magnús Guðmundsson sat með þeim Jónum í ríkisstjórninni sem var mynduð í mars 1924 og hafði Jón Magnússon beðið Magnús að gegna fyrir sig sem forsætisráðherra, á meðan hann ferðaðist með Kristjáni X., konungi Íslands og Danmerkur og drottningu hans norður og austur um land.

Andlátsfrétt forsætisráðherrans barst til höfuðstaðarins daginn eftir. Jón Þorláksson gerði þá þegar ráðstafanir til að ná til Magnúsar sem nú var einn með honum í ríkisstjórninni en Magnús var þá á ferðalagi í Húnaþingi. Þá setti Jón sig í samband við Svein Björnsson, sendiherra í Kaupmannahöfn og síðar fyrsta forseta Íslands, sem var staddur í Reykjavík og kallaði hann á sinn fund að morgni 24. júní. Þeir Sveinn og Jón voru þremenningar en áttu ekki alltaf samleið í stjórnmálum. Jón spurði Svein hvort hann gæti tekið að sér að verða forsætisráðherra, tryggja mætti honum þingsæti í landskjöri, sem yrði síðar þetta sama sumar. Sveinn svaraði tilmælunum neitandi, auk þess sem hann vildi ekki ganga í flokk Jóns, Íhaldsflokkinn. Undir samtali þeirra Jóns og Sveins náðist símasamband við Magnús Guðmundsson og eftir að hafa rætt við hann þótti Sveini sem Jón væri fallinn frá þeirri hugmynd sinni um Svein sem forsætisráðherra. Þeir Jón Þorláksson og Magnús Guðmundsson hittust á ríkisstjórnarfundi 27. júní og ákváðu að Magnús skyldi starfa sem forsætisráðherra fram yfir jarðarför Jóns Magnússonar. Hvorugur ráðherranna, Magnús eða Jón, vildu taka að sér starf forsætisráðherra en Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, höfundur ævisögu Jóns Þorlákssonar, getur sér þess til að fyrir Jóni hafi vakað með samtalinu við Svein Björnsson að fá vanan mann til að gegna samkvæmisskyldum þeim sem hlóðust á forsætisráðherra, en Jóni væri óljúft að rækja.“