Með miðlun á þekkingu tekst að blása til þeirrar samstöðu meðal bandamanna sem dugar til að halda friði og stöðugleika á norðurhjara veraldar.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Fyrir þann sem hefur tekið þátt í umræðum um öryggismál á Norður-Atlantshafi áratugum saman minnir margt núna á atburðarás sem hófst fyrir rúmlega hálfri öld þegar norskir fræðimenn undir forystu Johans Jørgens Holsts (1937-1994), hjá Norsku utanríkismálastofnuninni og síðar varnar- og utanríkisráðherra Noregs, hófu að kynna herfræðilegar breytingar í Norður-Noregi, á Norður-Atlantshafi og Íslandi með málstofum, greinaskrifum og útgáfu fræðirita sem náðu til allra norrænu ríkjanna, þótt tvö þeirra, Svíþjóð og Finnland, væru þá utan hernaðarbandalaga.

Johan Jørgen stefndi saman norrænum hópi sem hittist reglulega og hélt norrænum sjónarmiðum fram fræðilega og á stjórnmálavettvangi. Hann var fullviss um að gættu norrænu ríkin ekki sjálf að því að kynna breytingar í nágrenni þeirra gerði það enginn. Með miðlun á þekkingu tækist að blása til þeirrar samstöðu meðal bandamanna sem dygði til að halda friði og stöðugleika á norðurhjara veraldar.

Þetta reyndist rétt í kalda stríðinu þegar Sovétmenn unnu að því að breyta Kólaskaganum við austurlandamæri Norður-Noregs í mesta kjarnorkuvopnahreiður heims. Þeir höguðu sér þó ekki eins og Vladimír Pútín Rússlandsforseti gerir um þessar mundir. Ræðan sem hann flutti núna fimmtudaginn 29. febrúar hafði að geyma eina skýrustu kjarnorkuhótun hans til þessa í garð Vesturlanda.

Kjarnorkuhótanir Pútíns eru reistar á styrk rússnesku kafbátanna frá Kólaskaganum. Þeir bera langdrægar eldflaugar búnar kjarnaoddunum sem tryggja Rússum gjöreyðingaraflið. Norðurflotinn, styrkur hans og varnirnar umhverfis hann skipta Pútín höfuðmáli. Þar er undirrót hernaðarlegu spennunnar á norðurslóðum.

Enn þann dag í dag, eins og fyrir hálfri öld, er það verkefni norrænna fræðimanna og stjórnvalda að vekja athygli á nauðsynlegri samstöðu til að halda ógnarríki í norðri í skefjum. Þetta var rætt á málstofu sem sendiráð Íslands í London undir forystu Sturlu Sigurjónssonar sendiherra boðaði til í samvinnu við RUSI-hugveituna þriðjudaginn 27. febrúar með þátttöku Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands.

Þegar fjallað er um stöðuna á norðurslóðum núna standa norrænu ríkin öll sameinuð innan NATO. Þar fyrir utan er tvíhliða varnarsamningur frá 1951 í gildi milli Íslands og Bandaríkjanna og mun yngri tvíhliða samningar um varnarsamstarf milli Bandaríkjanna og hinna norrænu ríkjanna fjögurra. Þessir samningar veita Bandaríkjaher aðgang að um 50 stöðvum á Norðurlöndunum öllum.

Þetta er byltingarkennd breyting á nokkrum misserum sem rekja má til innrásar Pútíns í Úkraínu. Þá eru norrænu ríkin fimm undir sameiginlegri herstjórn NATO í Norfolk í Virginíuríki. NATO-varnaráætlanir fyrir löndin eru gerðar sameiginlega undir forystu herstjórnarinnar. Áætlanirnar teygja sig frá Norður-Ameríku, norður í Barentshaf að Kólaskaga og þaðan suður með landamærum Finnlands til Eystrasaltslandanna þriggja.

Grænlenska landstjórnin, Naalakkersuisut, kynnti í fyrsta skipti stefnu sína í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum miðvikudaginn 21. febrúar og er gildistími hennar til ársloka 2033.

„Ekkert um okkur án okkar“ er leiðarstef grænlensku stefnuskýrslunnar, sem er 25 bls. og skiptist í 12 efniskafla.

Lagt er til að stofnaður verði nýr pólitískur vettvangur undir heitinu Arctic North American Forum. Þar beri framkvæmdarvaldshafar og þingmenn í Alaska, á norðurskautssvæðum Kanada og á Grænlandi saman bækur sínar og ákveði samstarfsverkefni. Þá er mælt með auknum samskiptum við Íslendinga t.d. í ferðaþjónustu, samgöngum og við nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Bandaríkin eru sögð eitt nánasta samstarfsríki Grænlands. Bæði löndin séu í NATO. Grænlendingar hafi árum saman þróað samskipti sín við Bandaríkjamenn, sem í meira en 80 ár hafi haldið úti herstöð á Grænlandi. Bandaríkjamenn hafi í raun tekið að sér varnir Grænlands með varnarsamningi frá árinu 1951. Þá sé Pituffik Space Base (Thule-stöðin) mikilvæg fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna sjálfra. Lýst er vilja Grænlendinga til að halda áfram góðu samtali við Bandaríkjamenn um varnarsamstarfið, enda gegni Grænland mjög mikilvægu hlutverki fyrir varnir Bandaríkjanna gegn ytri ógn einkum úr norðri.

Í 12. kafla grænlensku stefnuskýrslunnar um öryggis- og varnarmál er lögð er áhersla á að Grænlendingar skipi sér í sveit þjóða sem virði lýðræði, mannréttindi, virðingu fyrir alþjóðalögum og sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Virðing fyrir þessum grunnþáttum setji skorður við því með hvaða þjóðum Grænlendingar geti starfað.

Dönum og Bandaríkjamönnum er lýst sem nánustu samstarfs- og bandamönnum Grænlendinga en einnig sé mikilvægt að starfa með nágrannaþjóðunum í Kanada og á Íslandi. Allar þjóðirnar séu í NATO.

Með afstöðu sinni vilja Grænlendingar viðhalda lágspennu og friði. Í því skyni stefnir hugur þeirra til þess að koma á fót Friðarsetri á Grænlandi, gjarnan með stuðningi annarra, til að vinna að friði á norðurslóðum. Samhliða verði starfað með dönskum og bandarískum hernaðaryfirvöldum að því að tryggja hervarnir og leitað til Íslands og Kanada í því skyni að efla almannavarnir.

Landafræðin er óbreytt frá því að Johan Jørgen hóf kynningarátakið til að styrkja varnir Norðurlanda í norðri fyrir rúmri hálfri öld. Pólitísk samstaða ríkjanna frá Grænlandi til Finnlands í öryggismálum er nú meiri en nokkru sinni. Staðreynd sem nýta ber í þágu friðar.