Nanna Heiðarsdóttir fyrir utan húsið við Stýrimannastíg 7, þaðan sem hún og vagninn hennar hurfu fyrir 64 árum.
Nanna Heiðarsdóttir fyrir utan húsið við Stýrimannastíg 7, þaðan sem hún og vagninn hennar hurfu fyrir 64 árum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég sé ömmu alveg fyrir mér klæða sig í sparikápuna og flýta sér upp á lögreglustöð að sækja mig.

Í maíbyrjun 1960 birtist frétt á forsíðu Morgunblaðsins undir fyrirsögninni „Ungbarn í óskilum“. Fréttinni fylgdu tvær ljósmyndir eftir Ólaf K. Magnússon, ljósmyndara Morgunblaðsins í áratugi. Önnur var af barninu í vagninum og hin af lögreglumönnum að taka vagninn með barninu innanborðs út úr Svörtu Maríu þess tíma. Í myndatexta var tekið fram að barnið væri ekki á leið í steininn.

Í fréttinni sagði:

„Í gærmorgun var tekinn vagn með 10 mán. gamalli telpu við heimili hennar á Stýrimannastíg 7, og hann skilinn eftir við verzl. Krónan á Vesturg. Svaf telpan hin rólegasta á þessu ferðalagi og vaknaði ekki fyrr en lögreglan var búin að taka hana í sínar hendur og setja auglýsingu um að hún hefði óskilabarn í útvarpið. Ekki er vitað hver valdur var að þessu „barnsráni“.“

Fram kom að telpan litla hefði að venju verið látin út í vagninn sinn um kl. 11.30 eftir að hún hafði fengið sína morgunhressingu og stóð vagninn í garðinum bak við húsið á Stýrimannastíg 7. Þar var hún vön að sofa langan miðdegisblund.

Um kl. 12.30 var hringt til Sigríðar Sumarliðadóttur lögreglukonu og henni tilkynnt að barn myndi vera í óskilum við Krónuna. „Höfðu kaupmennirnir veitt því athygli að barnavagn var búinn að standa í þrjá stundarfjórðunga fyrir utan búðina og höfðu árangurslaust grennslazt fyrir um hver ætti hann. Hringdu þeir á lögregluna og fóru lögregluþjónar í húsin í kring, en enginn kannaðist við barnið,“ sagði í frétt blaðsins.

Yndisleg telpa

Sigríður kom þá og sótti barnið og fór með það niður á lögreglustöð. Var síðan skotið tveimur auglýsingum um börn í óskilum inn í þáttinn „Við vinnuna“ í útvarpinu. „Amma barnsins heyrði auglýsinguna og fór að gæta að litlu telpunni, sem átti að sofa úti í garðinum, en hún var á bak og burt. Lögreglan ók svo telpunni heim til hennar,“ sagði Morgunblaðið.

„Þetta er yndisleg telpa,“ sagði Sigríður er blaðið leitaði hjá henni upplýsinga um málið. Hún vaknaði á lögreglustöðinni og var hin besta.

„Ekki kvað hún vitað hver hefði tekið vagninn og flutt hann, en sagði að amma telpunnar teldi að börn hefðu gert það í óvitaskap. Þó getur tæplega hafa verið um mjög litla krakka að ræða, því bremsan var á vagninum í garðinum og hún hafði verið sett aftur á hann þar sem hann var skilinn eftir við verzlunina.“

Alþýðublaðið sáluga fjallaði einnig um málið á forsíðu þennan sama dag og birti mynd. Fyrirsögnin var „Hetja dagsins“. Þar stóð:

„Þetta litla telpukorn leit inn á lögreglustöðina í gær þeirra erinda að fá úr því skorið hvar hún ætti heima. Hún hafði setið í vagni sínum fyrir utan verzlun á Vesturgötu, án þess nokkur vissi deili á henni. Telpan hreif hug og hjörtu lögreglumanna, og þegar heimilisfang hennar var fengið, báru þeir hana út og óku henni heim. Hún hélt sig eins og drottning meðan stóð á öllu umstanginu, – og minnti töluvert á Elisabetu, þegar hún er að aka í gullvagni sínum um Lundúnaborg.“

Fleira kom ekki fram og fréttinni var ekki fylgt eftir þetta vor.

Ljósmyndin hans Óla K. er hins vegar fræg hér á Morgunblaðinu og hangir uppi innrömmuð í einu fundarherberginu í Hádegismóum. Allir sem sjá hana í fyrsta skipti staldra að vonum við enda ekki á hverjum degi sem fólk sér ungbarn í vörslu lögreglunnar. Hvað þá í þessum aðstæðum. Myndin hefur í tvígang birst í blaðinu síðan, 2009 og 2015, í svona horft um öxl-dálkum, en litlar viðbótarupplýsingar er þar að finna.

Það var svo nú fyrir um mánuði að myndin skaut upp kollinum á Facebook-síðunni Gamlar ljósmyndir og þar gaf sig fram kona, Jóhanna Kristjánsdóttir, sem kvaðst vera móðursystir barnsins. Í framhaldi af þessu hafði dyggur lesandi samband við ritstjórn Morgunblaðsins og hvatti blaðið til að fjalla um málið og mögulega upplýsa hvert barnið sé og hvað hafi orðið um það. Á þeim tímapunkti var lesandinn búinn að hafa upp á nafni „barnsins“, sem heitir Nanna Heiðarsdóttir og er í dag á 65. aldursári. Sögunni fylgdi að hún væri búsett í Svíþjóð.

Það var svo á þriðjudaginn var að sá er þetta skrifar tók upp símann og bjallaði í Jóhönnu Kristjánsdóttur, í þeim tilgangi að fá símanúmer Nönnu í Svíþjóð. Jóhanna tók honum vel en var því miður ekki með númerið við höndina. „En það skiptir kannski ekki máli,“ sagði hún. „Nanna er nefnilega að koma til landsins á morgun og mun dveljast hjá mér.“

Úr varð að ég hringdi aftur sólarhring síðar og þá var Nanna komin í hús og tilbúin að rifja upp þetta óvenjulega mál – sem er ekki alveg eins vaxið og fram kom í blöðunum vorið 1960.

Býr í sama húsinu

Við hittumst svo á fimmtudaginn heima hjá Jóhönnu á Stýrimannastíg 7. Já, þið lásuð rétt. Hún býr í sama húsi og vagninn hvarf frá fyrir 64 árum. Afi hennar og amma reistu það 1907 og það hefur verið í eigu fjölskyldunnar allar götur síðan. Og þó, fimmtudagurinn var nefnilega sá síðasti heili í þeirri löngu sögu en gengið var frá sölu á húsinu á föstudag.

Þegar mér bárust þær upplýsingar til eyrna varð mér hugsað: Það er eins og að þetta hafi verið teiknað upp fyrir okkur!

„Já, það ber ekki á öðru,“ segir Nanna brosandi, þegar ég viðra þá pælingu við hana. „Ég kem frekar sjaldan til landsins. Þetta er samt í annað skipti sem myndina ber á góma í síðustu heimsóknum. Fyrir níu árum var þetta rifjað upp í Mogganum af því tilefni að 55 ár voru liðin. Og núna hringdir þú. Þú ert heppinn að ég var þreytt eftir flugið, þegar við töluðum saman í gær. Annars hefði ég ábyggilega sagt nei.“

Hún glottir.

– Hefurðu aldrei talað um þetta opinberlega?

„Nei, aldrei.“

En hvað gerðist í raun og veru þennan dag?

Nanna var sannarlega lögð út í vagn fyrir hádegislúrinn. Enga óvita bar hins vegar að garði, líkt og menn gerðu skóna í fréttinni. Þvert á móti lá ábyrgðin hjá 14 ára gamalli móðursystur Nönnu, Elísabetu Kristjánsdóttur. Elísabet situr ekki með okkur í stofunni á Stýrimannastíg en ég hringi í hana síðar til að fá söguna beint í æð.

Elísabet ætlaði sumsé að skjótast niður á Vesturgötu í Krónuna þetta hádegi og þegar hún kom út veitti hún því athygli að telpan var eitthvað óvær í vagninum. Hún hugsaði því með sér: „Ég tek hana bara með mér út í búð og vonandi sofnar hún á leiðinni.“ Það gekk eftir og Elísabet lagði vagninum fyrir utan búðina.

Mikil örtröð var í búðinni og eins og gjarnan á þessum árum var fullorðna fólkið afgreitt fyrst, börn og unglingar svo. Elísabet þurfti því að bíða lon og don eftir afgreiðslu. Loksins þegar hún komst að áttaði hún sig á því að hún væri að verða of sein í skólann, Gaggó Vest. Elísabet dreif sig því að versla og tók til fótanna. Og í öllu fátinu þá gleymdi hún barnavagninum og Nönnu frænku sinni.

Jóhanna var ekki heima og minnir að Guðrún, móðir Nönnu, hafi verið í vinnunni en hún bjó þá heima. Móðir hennar og amma Nönnu, Nanna Guðmundsdóttir, hafi þar með verið ein heima ásamt tengdamóður sinni, Jóhönnu Gestsdóttur. Gamla fréttin rennir stoðum undir það. Hún heyrir síðan auglýst eftir barni í útvarpinu. Það var opið fyrir útvarpið á öllum heimilum á Íslandi á þessum árum. „Amma sagði mér síðar að hún hefði orðið ægilega hneyksluð á því,“ segir Nanna, „og hugsað: Hvernig fólk týnir barninu sínu?“ Hún vissi ekki betur en að ég steinsvæfi úti í garði, þar sem allt átti að vera öruggt. Það gerði ég gjarnan í einn og hálfan, jafnvel tvo tíma. Það kennir okkur að dæma ekki aðra.“

Þegar ömmunni fór að finnast Nanna hafa sofið grunsamlega lengi fór hún að huga að henni. Og viti menn, vagninn var á bak og burt. Þá var hún fljót að leggja saman tvo og tvo – án þess þó að botna neitt í því hvað hefði átt sér stað.

„Ég sé ömmu alveg fyrir mér klæða sig í sparikápuna og flýta sér upp á lögreglustöð að sækja mig,“ segir Nanna. „Þetta hlýtur að hafa verið afskaplega erfitt fyrir hana enda voru amma og afi sómafólk af gamla skólanum, mjög vandvirk og samviskusöm og pössuðu vel upp á allt sitt. Það að sjá mig yfirgefna í vagninum hefur ábyggilega vakið athygli og áhyggjur vegfarenda, bæði fyrir utan búðina og lögreglustöðina, og sjálfsagt margir hugsað að eitthvert óreglufólk stæði að mér.“

Hvorki Jóhanna né Nanna vita fyrir víst hvað fór ömmunni og lögreglunni á milli.

Ekki fyrir skammir

Nönnu eldri hefur greinilega farið að gruna að Elísabet gæti verið viðriðin málið því sú síðarnefnda minnist þess að hafa verið kölluð út úr tíma í skólanum vegna símtals. „Mamma var í símanum og spurði hvort ég hefði nokkuð farið með Nönnu litlu niður á Vesturgötu í hádeginu. Þá fyrst mundi ég eftir því,“ segir Elísabet.

– Og hvernig varð þér við?

„Mér brá hrikalega; fékk eiginlega bara sjokk. Ég gleymi því ekki. Ég var búin að steingleyma barninu.“

– Varstu skömmuð?

„Nei, mamma var ekkert fyrir það og alls ekki fyrir að gera drama úr hlutunum.“

Elísabet kveðst þó hafa lært eitt af þessu – að svína aldrei á börnum í búðum. „Ég hef passað upp á það alla tíð. Börn eiga ekki að þurfa að bíða eftir afgreiðslu þangað til búið er að sinna öllu fullorðna fólkinu.“

En hvarf Nönnu litlu hafði eftirmál í för með sér fyrir Krónuna. „Við versluðum alltaf við Krónuna og kaupmaðurinn, sem kallaður var Stjáni blái, vissi alveg hver átti barnið í vagninum og hefði getað leyst málið með því að hringja heim. Hann hringdi hins vegar bara í lögregluna til að fá ókeypis auglýsingu fyrir búðina. Sem var mjög ómerkilegt af honum. Þetta varð til þess að við steinhættum að versla við hann og sama gilti um marga aðra í hverfinu. Samstaðan var mikil,“ segir Jóhanna.

– Versluðuð þið þá aldrei aftur við Stjána?

„Aldrei! Og hann fann fyrir því. Hann hefði betur hugsað þetta til enda.“

Nanna kveðst ekki hafa verið gömul þegar hún frétti af þessu ævintýri sínu og sá myndina fyrst. „Það var reglulega talað um þetta heima. Myndina fengum við frá Ólafi ljósmyndara og ég á hana ennþá heima í Svíþjóð. Þegar ég er spurð hvort ég hafi einhvern tíma komist í kast við lögin þá segi ég þessa sögu og hún vekur iðulega kátínu.“

Týndist aftur

Þetta var, merkilegt nokk, ekki í eina skiptið sem Nanna týndist sem barn. Það gerðist líka þegar hún var átta ára. Móðir hennar bjó þá í Moskvu og Nanna átti að fljúga til Helsinki, þar sem Guðrún ætlaði að sækja hana. Ásta Kristjánsdóttir, móðursystir hennar, sem nú er látin, vann þá sem flugfreyja og hafði búið þannig um hnúta að áhöfnin kæmi Nönnu í öruggar hendur á flugvellinum í Helsinki, þangað til Guðrún kæmi að sækja hana. Þegar á reyndi kom hins vegar enginn að taka á móti henni þar. „Það tók einhver starfsmaður á flugvellinum mig að sér og fór með mig á hótel, þar sem ég gisti um nóttina. Ég man að ég missti tönn eftir að hafa bitið í epli – þetta var mikið drama. Daginn eftir fann Ásta frænka mig og ég man að hún grét þegar hún sá mig. Síðan kom mamma. Eins og á lögreglustöðinni forðum hugsaði gott fólk um mig þarna og allt fór vel.“

Nanna flutti til Svíþjóðar árið 1988, þar sem hún lærði hjúkrunarfræði og sálþerapíu. Eftir það settist hún að ytra og hefur rekið meðferðarheimili í Hudiksvall í bráðum 35 ár. „Þetta er eingöngu fyrir konur; týndar sálir sem þurfa að rata aftur heim. Það fer líklega vel á því í ljósi sögu minnar.“

Hún brosir.

Nanna hefur alla tíð haldið góðum tengslum við sitt fólk og gamla landið. „Ég finn fyrir því úti að ég er ekki Svíi og þess vegna hefur verið gott að hafa lykilinn að Stýrimannastígnum hangandi á króki í eldhúsinu úti. Nú þarf ég að vísu að skila honum en ætla að nota peninginn sem ég fæ úr sölunni til að kaupa mér litla íbúð hérlendis. Ég er að fara að skoða nokkrar á næstu dögum og næ vonandi að ganga frá þessu áður en ég fer aftur til Svíþjóðar.“

Það voru langamma hennar og -afi, fyrrnefnd Jóhanna Gestsdóttir og Pétur Mikael Sigurðsson, sem byggðu húsið á Stýrimannastíg 7 árið 1907. Jóhanna mætti miklu mótlæti í lífinu en hún missti tvo eiginmenn í hafið, Pétur og þann sem hún var gift á undan, Kristján hét hann. „Afi fæddist hér, líka mamma og ég,“ segir Nanna, „og ég ólst hér upp þangað til ég flutti að heiman. Þannig að tilfinningatengslin eru mikil.“

Jóhanna hefur búið í húsinu mestallt sitt líf. Þegar foreldrar hennar létust tók hún við því en það hefur verið í eigu systkinanna, sem voru fimm, og nú afkomenda þeirra tveggja sem eru látin. Þá bjó Guðrún, móðir Nönnu, þar um tíma á seinni árum. „Það eru blendnar tilfinningar varðandi söluna á húsinu,“ segir Jóhanna. „Auðvitað mun ég sakna þess en á móti kemur að erfitt hefur verið að vera ein í húsinu. Það þarf líka að gera mikið fyrir það og kaupandinn, sem er ungur maður héðan úr götunni, ætlar að einhenda sér í það verk. Þetta er yndislegur drengur sem getur gert það upp sjálfur og vill búa í því. Í því er fólgin mikil huggun. Hann hefur lengi dreymt um að eignast þetta hús og kom hlaupandi þegar hann frétti að við ætluðum að selja. Húsið á eftir að verða voða fallegt.“

Guðrún, móðir Nönnu, lést á síðasta ári. Hún var á sínum tíma blaðamaður á Þjóðviljanum en flutti síðan til Rússlands, þar sem hún nam fyrst rússneskar bókmenntir en síðan læknisfræði. Alls bjó hún í um tvo áratugi í Moskvu en var síðar læknir á Djúpavogi og Þórhöfn.

„Mamma ól mig ein upp, ásamt ömmu og afa, og ég flakkaði milli Reykjavíkur og Moskvu. Faðir minn var eiginlega aldrei inni í myndinni. Síðar giftist mamma rússneskum vísindamanni,“ segir Nanna.

Talar rússnesku

– Talar þú þá rússnesku?

„Já, ég geri það. Þó ég sé ekkert sérstaklega stolt af því í dag. Rússar hafa hagað sér eins og svín í Úkraínu. Það er heldur ekki hægt að ræða stríðið við fólk í Rússlandi; ég reyndi að tala um þetta við æskuvinkonu mína en það var ekki viðlit. Hún brást mjög illa við. Það er ófremdarástand í Rússlandi; fólkið er ýmist logandi hrætt eða jafnvel heilaþvegið.“

Nanna á sex dætur. Fjórar sem hún hefur alið sjálf, eina stjúpdóttur og eina frænku sem hún gekk í móðurstað. Barnabörnin eru orðin 15 talsins. Dæturnar búa allar í Svíþjóð, nema ein sem er í Ósló. „Ég er einmitt að fara að hitta allar stelpurnar mínar um næstu helgi í Stokkhólmi,“ segir hún glaðróma en hópurinn nær ekki oft að koma allur saman. Sambýlismaður Nönnu er sænskur.

Hún segir dætur sínar allar hafa séð myndina frægu og þekki söguna. „Þær hafa mjög gaman af þessu, sérstaklega því að lögreglan hafi haft mig sitjandi í vagninum í bílnum,“ segir hún hlæjandi.

Ekki er annað hægt í lokin en að ganga með Nönnu sem leið liggur frá Stýrimannastíg 7 niður á Vesturgötu, þar sem verslunin Krónan var til húsa. Það er örstutt leið en líklega frægasti göngutúr sem Nanna hefur farið í um dagana – enda þótt hún muni ekkert eftir því. Kristinn Magnússon ljósmyndari er með í för og smellir af henni mynd, bæði fyrir utan gamla heimilið og búðina alræmdu. „Það hefur verið gaman að rifja þetta upp með ykkur,“ segir Nanna, „og upplýsa málið loksins gagnvart lesendum Morgunblaðsins. Þessi mynd hefur fylgt mér alla tíð og mun áreiðanlega gera það áfram.“