Bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda er hafinn í húsnæði Knattspyrnusambandsins á Laugardalsvelli. Markaðurinn var fyrst haldinn í Listamannaskálanum við Austurvöll árið 1952 en hefur síðan verið haldinn á fjölmörgum stöðum, til dæmis á Eiðistorgi, í Smáralind og í Perlunni. Frá árinu 2014 hefur hann verið haldinn undir stúkunni á Laugardalsvelli.
Bryndís Loftsdóttir er framkvæmdastjóri Félags íslenskra bókaútgefenda. „Á síðasta ári seldust 97.827 bækur á markaðinum á Laugardalsvelli og tæplega 15.000 bækur til viðbótar á markaðinum sem haldinn var á Akureyri síðastliðið haust. Ég vona að 100.000 bækur seljist í ár og biðla til þjóðarinnar að hjálpa mér að ná því markmiði,“ segir Bryndís. Hún segir um 6.400 titla vera komna á skrá. Þeir skiptast nokkuð jafnt á milli flokka, 2.200 barna- og ungmennabækur, 1.800 skáldverk og ljóð og um 1.400 fræði- og handbækur, hannyrðir og heimspeki, sagnfræði og sjálfshjálp, garðrækt og göngubækur svo eitthvað sé nefnt. Þessir 6.400 titlar koma frá um það bil 150 útgefendum.
„Það sem er ólíkt með Bókamarkaðinum og hefðbundinni bóksölu er hversu dreifð salan er,“ segir Bryndís. „Hér er sjaldgæft að titlar fari í miklu upplagi og líka sjaldgæft að bækur seljist alls ekki. Flestar bækur eru að fara í þetta 10-20 eintökum. Útivistarbækur voru vinsælar í heimsfaraldrinum, í fyrra voru það prjónabækur og svo er eftir að koma í ljós hvað slær í gegn í ár. Barnabókaúrvalið hefur aldrei verið jafn mikið. Þar munar mest um metfjölda léttlestrarbóka sem í ár eru um 250 talsins en á markaðinum má einnig finna stafakennslubækur, stærðfræðibækur, skáldverk fyrir alla aldurshópa og fræðibækur af öllu tagi.“
Matreiðslubók Jóhönnu Vigdísar
Sigurður Ólafsson var að leita að matreiðslubókum og ferðahandbókum. „Ég á svo mikið af bókum að ég hef ekki pláss fyrir mikið meira og les núna aðallega rafbækur. Það er samt pláss fyrir nokkrar bækur í viðbót í hillurnar,“ sagði hann. Hann var þegar kominn með matreiðslubók Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur, Hvað er í matinn? „Konan skipaði mér að ná í hana. Svo ætla ég að kíkja á ferðahandbækur.“
Með fulla körfu af bókum
Jón Hörður Guðjónsson og Hulda Sif Ólafsdóttir voru með fulla körfu af bókum. „Við erum að kaupa fyrir börnin og okkur sjálf. Við erum með eina sex ára sem er nýbyrjuð að lesa, tíu ára lestrarhest og ungling. Allt eru þetta stelpur sem lesa mikið,“ sagði Hulda Sif sem var með langan skrifaðan lista yfir bækur sem til stóð að kaupa. Hún var komin með tvær skáldsögur fyrir sjálfa sig, Seiðstorm eftir Alexander Dan og Duft eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur, og ætlaði að leita að bókum eftir Yrsu Sigurðardóttur og Vilborgu Davíðsdóttur. Jón Hörður sagðist aðallega lesa spennusögur og var í leit að slíkum
Skanna bækur
Ragna Lóa Stefánsdóttir og Steinunn Jónsdóttir voru mættar á markaðinn með tölvu og skanna og voru í óðaönn að skanna bækur þegar blaðamaður gekk fram á þær. „Við vinnum fyrir Forlagið og erum að skanna bækur sem eru að dælast út. Daginn áður en markaðurinn hófst komu fulltrúar bókasafna á markaðinn og þá seldi Forlagið 1.500 bækur. Nú erum við að panta fleiri þúsund bækur. Við göngum frá bókabrettum á hverjum einasta morgni eins og hörkuverkamenn. Það er dásamlegt að sjá að þjóðin er enn að hamstra bækur,“ sagði Ragna Lóa.
Í leit að ættfræði
„Ég er að leita að fræðibókum, ættfræðibókum og sögubókum. Ég hef mikinn áhuga á ættfræði og mér sýnist vera gott úrval hérna,“ sagði Sigurður Hermundarson sem kemur á bókamarkaðinn á hverju ári og hefur gert árum saman. Meira hafði hann ekki að segja heldur rauk af stað í leit að ættfræðinni.
Líst vel á Jón Gnarr
Kristjana Guðmundsdóttir og Tryggvi Bjarnason mættu á markaðinn. „Ég er að kaupa prjónabækur og bækur fyrir barnabörnin. Svo er hundabók fyrir soninn og tengdadótturina,“ sagði Kristjana. Hún var búin að velja Dimmalimm fyrir barnabörnin og ætlaði að kanna hvort ekki vantaði Gagn og gaman á heimilið.
Tryggvi var kominn með Útlagann eftir Jón Gnarr. Spurður af hverju segir hann: „Af því að mér líst vel á karlinn. Ég ætla að kaupa fleiri bækur, en það er ekki alveg ákveðið hvaða bækur verða fyrir valinu. Við komum hingað árlega. Ég held að ég lesi eitthvað meira en konan af því að ég er kominn á eftirlaun.“
Leitar að góðum þýðingum
Anna Steinunn Ingólfsdóttir var á markaðnum. „Ég er helst að leita að góðum þýðingum sem ég hef misst af eða vantar í bókasafnið. Ég er líka að skoða fræðibækur og barnabækur fyrir dóttur mína,“ sagði hún. Anna var þegar komin með Útlínur liðins tíma eftir Virginiu Woolf og síðan fræðibækur frá Sögufélaginu, þar á meðal bók um Gamla sáttmála, sem hún segir koma sér vel en hún er að læra stjórnmálafræði og lögfræði.
Hún segist reyna að koma á bókamarkaðinn á hverju ári. „Nú er ég að skanna bækur og svo kem ég seinna með manninum mínum, hann er líka veikur fyrir bókum.“