ReykjaDoom skipuleggur tónleika yfir allt árið sem og tónlistarhátíð undir sama nafni sem verður haldin 8. og 9. mars. Hátíðin hét áður Doomcember. Hugmyndin er einföld: Að safna saman aðdáendum dómsmálms í tveggja daga gjörning af heimsendatónlist. Saman koma þekktar hljómsveitir úr senunni, gamlar kempur sem hafa ekki spilað til lengri tíma og nýjar hljómsveitir sem eru að taka sín fyrstu skref.
Að þessu sinni munu Konvent frá Danmörku, Dread Sovereign frá Írlandi og Moonstone frá Póllandi stíga á svið. Þar að auki eru ellefu íslenskar hljómsveitir. Sleeping Giant eru að taka sína fyrstu tónleika í meira en áratug en einnig koma fram Kælan mikla, Múr, Volcanova, Morpholith, Nornahetta, Altari, Kvelja, Slor, MC Myasnoi og CXVIII.
Hátíðin verður haldin í hjarta málmsins á Íslandi, Gauknum í Reykjavík. Miðasala er á midix.is.