Pétur Hannesson fæddist 28. júlí 1978. Hann andaðist 8. febrúar 2024. Útför fór fram 26. febrúar 2024.

Elsku Pési minn, mikið rosalega er sárt að missa þig.

Þú varst einstakur, og þó þú hafir einungis verið rétt rúmlega tvítugur þegar ég kynnist þér í gegnum tölvuleiki, þá varstu alltaf svo fullorðinn.

Stofnar fyrirtækið þitt 25 ára og var það einstakt gæfuspor í mínu lífi þegar þú bauðst mér vinnu stuttu síðar.

Samveran með þér, vinnandi að skemmtilegum og spennandi verkefnum í góðum félagsskap, varð til þess að árs pásan sem ég ætlaði mér að taka eftir menntaskóla, varð töluvert lengri.

Það voru forréttindi og lærdómsríkt að fá að fylgjast með þér byggja upp fyrirtæki og fjölskyldu. Hvernig þú nálgaðist vandamál sem hefðu verið mörgum óyfirstíganleg var einstakt. Því í þínum huga voru engin vandamál, það var aldrei neitt sem var flókið. Þetta voru bara verkefni sem þurfti að brjóta niður og ganga svo í að leysa.

Fæddur sigurvegari og íþróttamaður. Það var sama hvað við félagarnir fórum að gera, hvort sem fjölmennt var í keilu, pílu, go-cart eða hvað annað, þá var það almennt keppni um annað sætið, því þú lentir alltaf í því fyrsta.

Þú hafðir ekki einungis forskot í líkamlegu atgervi heldur var hausinn ekkert síðri, eins og sjá mátti þegar skákborðið var dregið fram.

Mikill hugsuður og skipulagður „dúer“. Það vafðist aldrei neitt fyrir þér, ef það vantaði afgreiðsluborð, þá bara hannaðir þú og smíðaðir afgreiðsluborð. Lausnirnar sem þú sást út úr IKEA-innréttingum voru magnaðar.

En óháð öðrum kostum þínum, þá var öllu framar hversu skemmtilegur og góður þú varst. Það var einstaklega gaman að vera í kringum þig, enda með góðan húmor og algjör púki.

Sama hvað bjátaði á, þá gat ég treyst því að þú myndir standa með mér og myndir aldrei vera leiðinlegur við mig. Þú vísaðir viðskiptavinum á dyr sem voru dónalegir við mig. Neitaðir að afgreiða starfsfólk smálánafyrirtækja, því þú kærðir þig ekkert um að hafa skíthæla í viðskiptum, þeir gátu bara farið annað. Óþolandi gjafmildur, hjálpsamur, hreinskilinn og sanngjarn.

Ég minnist allra útlandaferðanna, lan-anna, vinnustaðahittinganna, partíanna, CCP-hátíðanna, heimboðanna yfir boltanum, en þó mest af öllu vináttunnar og samstarfsins.

Það þýðir lítið fyrir mig að ætla að telja upp alla þína kosti, eða draga fram allar þær góðu minningar sem ég á af þér og með þér. Morgunblaðið er einfaldlega ekki nægilega langt.

Þó man ég sérstaklega eftir því þegar ég fór eitt haustið til Danmerkur og þú sendir mér skilaboð um að þú saknaðir mín meira en mamma mín.

Nú er það ég sem sit hér eftir og sakna þín, elsku vinur. Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst þér, stoltur af því að átt þig að vini og veit að ég mun aldrei eignast annan eins.

Klemenz (Klemmi).