Kvikmyndir
Helgi Snær Sigurðsson
Fjöldi kvikmynda hefur verið gerður um helförina, útrýmingu nasista á gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni, en varla nokkur í líkingu við The Zone of Interest. Viðfangsefnið er hinar hryllilegu útrýmingarbúðir í Auschwitz-Birkenau í sunnanverðu Póllandi þar sem talið er að um 1,1 milljón manna hafi verið tekin af lífi, nær allt gyðingar. Alls voru um sex milljónir manna teknar af lífi af nasistum í seinni heimsstyrjöldinni og því um sjötti hluti þeirra í Auschwitz-Birkenau.
Óhugnaðurinn er slíkur að orð fá honum varla lýst og því fer bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Jonathan Glazer þá áhrifaríku leið að lýsa hryllingnum heldur með hljóðum en myndum í The Zone of Interest. Það er áhugaverð og áhrifarík nálgun. Út frá hljóðunum birtast hryllilegar myndir í huga áhorfandans sem ætla má að þekki sögu helfararinnar, ýmist vel eða í grófum dráttum.
Himnaríki og helvíti
Myndin hefst með friðsælu atriði á árbakka. Þar eru Höss-hjónin, Rudolf (Christian Friedel) og Hedwig (Sandra Hüller) að njóta sumarsælunnar með börnum sínum. Þau halda aftur í húsið sitt sem er stórt og mikið og fljótlega kemur þar hryllilegur raunveruleikinn í ljós. Í fallegum og miklum bakgarði, sem Hedwig hefur ræktað af mikilli alúð, blasir við útsýni yfir hluta útrýmingarbúðanna í Auschwitz-Birkenau sem flestir hljóta að kannast við af ljósmyndum. Óp og skothvellir heyrast reglulega frá búðunum og upp af þeim stígur mikill og þykkur reykur úr strompum brennsluofna. Lestarferðir eru tíðar en skelfingin virðist engin áhrif hafa á Höss-fjölskylduna, fyrir henni eru hljóðin og reykurinn daglegt brauð. Óttinn í augum þjónustufólks og hegðun þess segir aftur á móti það sem segja þarf, það forðast öll óþörf samskipti við fjölskylduna og augnsamband og lætur lítið fyrir sér fara. Einkar áhrifamikið er atriði þar sem Hedwig lýsir húsinu og garðinum fyrir móður sinni sem paradís á jörðu með útrýmingarbúðirnar í baksýn.
Hrollurinn sækir að manni við hvert atriðið á eftir öðru og þá ekki síst þegar Hedwig mátar pels af ónefndri konu sem að öllum líkindum endaði líf sitt í gasklefa. Atriðin eru fleiri og mörg sem vekja slíkan hroll og ónot, til dæmis eitt þar sem eldri sonur þeirra hjóna skoðar gulltennur sem hann hefur komist yfir og varla þarf að útskýra frekar hvaðan þær komu.
Fluga á vegg
Tónlistin í myndinni er sérlega áhrifamikil en um hana sá Mica Levi. Hefur hann hlotið fjölda verðlauna fyrir þær tónsmíðar og skal engan undra, betri kvikmyndatónlist hin síðustu ár er vandfundin.
En einna áhrifamest er sú óvenjulega leið handritshöfundar að láta myndina gerast að mestu á heimili aðalpersónanna, nasistaforingjans og útrýmingarbúðastjórans Höss og eiginkonu hans Hedwig. Áhorfendur fylgjast með þeim við hin ýmsu daglegu störf, heimilishald og uppeldi barna, í gegnum linsur fjölda falinna myndavéla í stóru húsi skammt frá hliðinu að Auschwitz. Með þessu vildi Glazer ná fram eðlilegri túlkun, markmiðið að láta leikarana gleyma því að þeir væru að leika. Ekki verður betur séð en honum hafi tekist það ætlunarverk sitt með miklum ágætum.
Friedel og Hüller eru vandaðir leikarar, eins og sjá má af túlkun þeirra á Höss-hjónunum. Friedel kannast margir við úr hinum vönduðu sjónvarpsþáttum Babylon Berlin og Hüller úr gæðakvikmyndum á borð við Toni Erdmann og Anatomy of a Fall. Í túlkun þeirra eru Höss-hjónin trúverðug og marghliða, enda byggð á raunverulegu fólki. Þess má geta að í endurminningum Höss, Kommandant in Auschwitz, má finna lýsingu á útrýmingunni sem ofanritaður treystir sér hreinlega ekki í að lesa.
Þeir sem komu að gerð þessarar vönduðu kvikmyndar eiga lof skilið. Þetta er einkar vandað verk og stóran þátt í því á myndatökustjórinn Lukasz Zal. Þær myndir sem varpað er á tjaldið eru sumar þannig að maður vildi gjarnan geta fryst þær og virt betur fyrir sér líkt og málverk (sjá t.d. meðfylgjandi stillu). Dýptin er jafnan mikil og skerpan og þessi atriði gætu hæglega spannað lengri tíma, líkt og fleiri í myndinni.
En þrátt fyrir þá kosti sem hér hafa verið nefndir og augljós gæði myndarinnar óskar maður þess að hún endi sem fyrst, svo óþægileg er hún. Þar með hefur Glazer tekist ætlunarverk sitt, að leggja sitt af mörkum svo við gleymum því ekki hversu hryllileg mannskepnan getur verið og afstýrum því, vonandi, að sagan endurtaki sig.