Nóbelsverðlaunahafi Joseph Stiglitz á málþingi forsætisráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins í gær.
Nóbelsverðlaunahafi Joseph Stiglitz á málþingi forsætisráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz segir hryðjuverkastríðið hafa kostað Bandaríkjastjórn mun meira en hann áætlaði í umtalaðri bók kosningaárið 2008. Hann hefur ekki miklar áhyggjur af skuldastöðu Bandaríkjanna né heldur telur hann BRICS-ríkin ógna stöðu bandaríkjadals sem forðamyntar heimsins.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz segir hryðjuverkastríðið hafa kostað Bandaríkjastjórn mun meira en hann áætlaði í umtalaðri bók kosningaárið 2008. Hann hefur ekki miklar áhyggjur af skuldastöðu Bandaríkjanna né heldur telur hann BRICS-ríkin ógna stöðu bandaríkjadals sem forðamyntar heimsins.

Stiglitz var gestur á málþingi menningar- og viðskiptaráðherra í fyrradag, en kona hans, Anya Schiffrin, var þar meðal ræðumanna. Stiglitz var svo aðalræðumaður á málþingi forsætisráðuneytisins og menningar- og viðskiptaráðuneytisins í gær.

Stiglitz er heimsþekktur hagfræðingur, en hann var meðal annars efnahagsráðgjafi Bill Clinton Bandaríkjaforseta og í kjölfarið yfirhagfræðingur Alþjóðabankans.

Rætt var við Stiglitz í Morgunblaðinu í mars 2008 í tilefni af því að hann hafði í byrjun þess árs gefið út bókina The Three Trillion Dollar War, eða Þriggja billjóna dollara stríðið, ásamt meðhöfundi sínum, Lindu Bilmes, kennara við Harvard-háskóla.

Hryðjuverkastríð

Umfjöllunarefnið var kostnaður Bandaríkjanna af stríðsrekstrinum í Afganistan og Írak í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin hinn 11. september 2001.

Þegar Morgunblaðið fjallaði um bókina Þriggja billjóna dollara stríðið fyrir 16 árum var umfjöllun um þennan kostnað rifjuð upp:

„Fyrir nokkrum árum svaraði Larry Lindsey, efnahagsráðgjafi Bush-stjórnarinnar, því aðspurður að kostnaðurinn við fyrirhugaðan stríðsrekstur í Írak yrði á milli 100 og 200 milljarðar Bandaríkjadala. Hann var rekinn skömmu síðar. Donald Rumsfeld, þáverandi varnarmálaráðherra, var fljótur til og leiðrétti rangfærsluna og gaf stjórnin út að kostnaðurinn yrði líklega á bilinu 50 og 60 milljarðar dala.

Annað hefur komið á daginn. Hinn raunverulegi kostnaður sem fallið hefur á Bandaríkin vegna stríðsrekstursins er miklu, miklu meiri og hleypur á um þremur billjónum dollara, þremur milljónum milljóna dala (3.000.000.000.000 dollarar).

Tekið skal fram að þessi niðurstaða er umdeild en höfundunum telst til að stríðið sé það dýrasta sem Bandaríkin hafi nokkru sinni tekið þátt í sé heildarupphæðinni deilt á hvern hermann, eða allt að því átta sinnum dýrara en síðari heimsstyrjöldin, sem var vitaskuld miklum mun umfangsmeira stríð og að nær öllu leyti ósambærilegt.“

Kreppan tók sviðið

Þegar bókin kom út leit út fyrir að hryðjuverkastríðið yrði ofarlega á blaði í forsetakosningunum 2008. Alþjóðlega fjármálakreppan sem hófst þá um haustið yfirskyggði hins vegar önnur mál og átti vafalítið þátt í því að Barack Obama hafði betur gegn John McCain í kosningunum.

Nú er annað kosningaár fram undan og enn tekist á um kostnað af stríðsrekstri. Nú gætir hins vegar óþols, ekki síst meðal marga repúblikana á þingi, vegna kostnaðarins af stuðningi við Úkraínu í stríðinu gegn Rússum. Donald J. Trump verður að óbreyttu forsetaefni repúblikana en hann gagnrýndi „stríð án enda“ í kosningabaráttunni 2016 og stærir sig af því að hafa ekki hafið stríð sem forseti. Á vakt Obama geisuðu hins vegar stríð í Líbíu og Sýrlandi og eru demókratar nú í því hlutverki að verja útgjöld til hernaðar.

Það hefur því mikið vatn runnið til sjávar síðan bókin Þriggja billjóna dollara stríðið kom út og lék blaðamanni forvitni á að vita hvort Stiglitz teldi að þessi greining hans og Lindu J. Bilmes hefði staðist tímans tönn.

Vildu vera varfærin

Ég hlustaði um daginn á Jeffrey Sachs [hagfræðing við Columbia-háskóla], sem vitnaði í þessa niðurstöðu ykkar og færði rök fyrir því að stríðsreksturinn hefði í raun kostað allt að níu billjónir. Hvað áætlarðu nú að stríðin hafi kostað?

„Mér var það ljóst jafnvel þegar ég skrifaði bókina að áætlun okkar væri mjög varfærin. Við sögðum í bókinni að kostnaðurinn væri þrjár til fimm billjónir dala. Við héldum hins vegar að talan fimm billjónir hljómaði of há, svo að við kölluðum bókina Þriggja billjón dollara stríðið. En þegar við vorum að leggja lokahönd á bókina voru að berast gögn sem bentu til þess að við hefðum verið gríðarlega varfærin. Til dæmis var kostnaðurinn einn og sér við að hlúa að bandarískum hermönnum sem höfðu særst um ein billjón dala. Það var árið 2010 og ég hef ekki uppfært töluna en það er alveg ljóst að talan níu billjónir er ekki ósennileg.“

Ekki sambærilegt

Hart hefur verið tekist á Bandaríkjaþingi um 60 milljarða dala framlag til Úkraínu [sem samsvarar 0,06 billjónum] en andstaða er við framlagið meðal repúblikana. Erum við að nálgast það stig að einangrunarhyggja muni aukast í Bandaríkjunum og að því verði minni áhugi á slíkum útgjöldum?

„Ég tel að grundvallarmunur sé á því hvort um sé að ræða stríð sem hefur óljóst markmið eins og stríðið gegn hryðjuverkum og stríð þar sem voru að mínu mati litlar líkur á árangri eins og í Írak og í Afganistan. Forsendur stríðsins í Írak voru umdeilanlegar. Þær voru ekki gjöreyðingarvopn. Forsendur stríðsins í Afganistan voru líka umdeilanlegar utan mjög takmarkaðra marka. Stjórnvöld í Afganistan stjórnuðu ekki öllum svæðum innan landsins. Það var heldur ekki ljóst hvort árás einstaklinga frá Sádi-Arabíu [hinn 11. september 2001] réttlætti slíka árás í Afganistan. Við hefðum getað gripið til harðari aðgerða gegn Sádi-Arabíu, en gerðum það ekki vegna olíu[hagsmuna].

Afleiðingarnar miklar

Þú nefndir tiltekna aðgerð [sem var stríðið í Úkraínu]. Sé litið til kostnaðarábatagreiningar gæti það vakið spurningar. Nú horfi ég á Rússland í öðru ljósi. Ljóst er að innrás Rússa í Úkraínu braut gegn alþjóðalögum. Og afleiðingarnar ef svo alvarlegu broti á alþjóðalögum er ekki refsað, með öllum þeim afleiðingum sem það hefur fyrir úkraínsku þjóðina og lög og reglu í heiminum, eru gríðarlegar. Enn fremur getum við það [með því að refsa Rússum]. Úkraínumenn hafa sýnt mikið hugrekki í baráttu sinni en stuðningur Íraka [við að steypa Saddam Hussein af stóli] var mjög óljós. Stuðningur Afgana var líka óljós. Stuðningur Úkraínumanna [við framlag Bandaríkjanna og bandamanna þeirra] er hins vegar yfirgnæfandi. Ef við myndum veita þeim nægan stuðning tel ég að enginn vafi sé á að við myndum að minnsta kosti þrýsta Rússum aftur að landamærunum eins og þau voru fyrir innrásina og jafnvel alla leið aftur að landamærunum eins og þau voru fyrir 1914. Svo að hér virðist mér sem afleiðingarnar af því að grípa ekki til aðgerða yrðu hörmulegar.“

En að öðru. Hagfræðingurinn Paul Krugman hélt því fram [í viðtali á farsóttartímanum] að heildarskuldir Bandaríkjanna væru ekki mikið áhyggjuefni vegna lágra vaxta. Nú hafa vextir og verðbólga rokið upp að hluta til vegna stríðsins í Úkraínu. Hver er þín skoðun á málinu?

„Ég tel að skuldirnar hafi meiri áhrif pólitískt en á efnahagskerfið. Ástæða þess að ég segi það er að hagfræðingar horfa á raunvextina og þótt skuldirnar séu að aukast er raunvirði þeirra að lækka.“

Þú hefur ekki miklar áhyggjur af skuldastöðunni?

„Hún er ekki mikið áhyggjuefni.“

Hafa mörg verkfæri

Skuldirnar eru 33 billjónir dala [sem eru um 120% af þjóðarframleiðslu]?

„Ég myndi ekki segja að ég horfi framhjá því en verðbólgan hefur tekið fram úr vöxtunum. Raunvextir hafa verið neikvæðir. Ég tel að farsóttin sé vonandi einstakur atburður og að okkur lánist að lækka skuldirnar smám saman. Við höfum mörg verkfæri til þess. Við getum hækkað skatta, en í Bandaríkjunum er hlutfall skatta af þjóðarframleiðslu mjög lágt. Svo að við höfum verkfærin [til þess að lækka skuldirnar]. Þetta er pólitískt vandamál, ekki efnahagslegt vandamál.“

Ávinningurinn óviss

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í nýlegu viðtali [við Tucker Carlson í Kreml] að BRICS-ríkin væru að eflast og færði rök fyrir því að nú væri verulega verið að grafa undan stöðu bandaríkjadals sem forðamyntar heimsins. Hefurðu áhyggjur af því?

„Nei. Það eru að mínu áliti margar ástæður fyrir því að ríki myndu vilja dreifa forðamyntum meira, en sérhverjum hinna gjaldmiðlanna fylgja hins vegar vandamál. Kína stendur frammi fyrir sínum efnahagsvanda og er ekki með opinn fjármagnsmarkað. Evrópa hefur evrukreppuna og sín eigin vandamál. Og að lokum vil ég segja að ég hef alltaf litið svo á að ávinningur þess að hafa forðamynt væri óviss. Þ.e.a.s. að erlend ríki láni ríkinu fé á lágum vöxtum. Það er jákvætt en hefur tilhneigingu til að þýða innstreymi fjármagns og viðskiptahalla og það veikir efnahagslífið. Því hef ég fært rök fyrir því að tilgangurinn með stofnun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við lok síðari heimsstyrjaldar hafi verið að tryggja að Bretland væri ekki með forðamynt, sem það vildi ekki hafa. Hugmynd [hagfræðingsins John Maynard] Keynes var að tryggja að alþjóðlegum gjaldmiðli yrði komið á fót. Það gerðist ekki. En það er það sem ég færi enn rök fyrir, vegna þess að það er mun betra að hafa alþjóðlega forðamynt en stakan gjaldmiðil [sem forðamynt]. Okkur hefur hins vegar ekki tekist það enn. En það er ólíklegt að þetta muni hafa veruleg áhrif á stöðu Bandaríkjanna [hafandi bandaríkjadal sem forðamynt heimsins].“

Ekki ógn af BRICS

Að áhrifin verði óveruleg vegna BRICS-ríkjanna [sem eru Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka] eða frá öðrum ríkjum sem geta veitt áskorun í þessu efni?

„Ekki frá BRICS-ríkjunum. Hver er að fara að geyma peningana sína í Rússlandi? Hver er að fara að geyma peningana sína á Indlandi? Eða í Kína eða í Suður-Afríku eða í Sádi-Arabíu eða í Íran? Hið nýja BRICS-bandalag hefur verið útvíkkað og nær nú til Sádi-Arabíu og Írans. Ætla menn að nota gjaldmiðla þessara landa sem forðamynt? Þegar þessi ríki eru talin upp sést að þessi leið verður ekki farin. Það kann að vera að margir óski sér að til væri önnur forðamynt, að þeir séu ef til vill ósáttir við dollarann, en þeir eiga ekki margra kosta völ,“ segir Joseph Stiglitz að lokum.

Höf.: Baldur Arnarson