Þóra Guðleif Jónsdóttir fæddist 14. október 1924. Hún lést 22. febrúar 2024.
Útför Þóru fór fram 29. febrúar 2024.
Í dag kveð ég konu sem hefur verið mér mjög kær og tel ég hana hafa haft heilmikið að segja um lífsviðhorf mitt á lífið og tilveruna. Það var fyrir rúmum sextíu árum sem ég vistaðist í sveit þá átta ára hjá Þóru og Steina í Lækjarhúsum í Suðursveit, þar var ég í þrjú sumur og átti góðan tíma hjá þeim hjónum og börnum. Þóra var hamhleypa til verka og lét verkin ganga. Það þurfti að sinna heimilinu, þvo þvotta, vera í heyskap og mjólka kýrnar sem voru handmjólkaðar, sem betur fer voru þær ekki margar. Það voru líka aukabörn á sumrin á heimilinu. Á þessum árum voru sveitastörfin ekki auðveld, engin nútímaþægindi. Alltaf hélst vináttan á milli okkar og fjölskyldu hennar, ef ég fór austur kom ég við á Læk og Höfn eftir að hún flutti þangað. Ég minnist oft stundanna úr fjósinu þegar Þóra var að mjólka og við krakkarnir sátum upp við vegg og um leið og fyrsta bunan small í fötuna hallaði hún sér upp að kúnni og sagði okkur sögur þarna í rökkrinu, því ekki var rafmagn, bara kertaljós. Eða þegar við vorum úti á túni að heyja og Þóra hljóp létt á fæti heim á bæ og eftir smástund kom hún aftur með stórt fat fullt af nýbökuðum lummum með sykri vafið inn í dúk og í hinni hendinni mjólk í glerflöskum í ullarsokkum svo þær brotnuðu ekki. Ég get talið endalaust upp fallegar minningar sem ég á úr sveitinni. Þóra var létt í lund og gaman að hitta hana og hélt hún sér vel fram á efri ár. En nú er komið að leiðarlokum enda árin orðin ansi mörg og vil ég þakka fyrir vináttu hennar við mig og mína og að taka alltaf á móti okkur með hlaðið veisluborð, ekki færri en tíu sortir á boðstólum. Einnig sendi ég fjölskyldu hennar mínar innilegustu samúðarkveðjur, Guð geymi ykkur.
Nú ríkir kyrrð í djúpum dal,
þótt duni foss í gljúfrasal.
Í hreiðrum fuglar hvíla rótt,
þeir hafa boðið góða nótt
(Árni Thorsteinson)
Kær kveðja,
Ingibjörg Guðmundsdóttir.