Jóhann Kristmundsson Hann lá fjóra daga undir snjó og lýsti skelfilegri reynslu sinni í viðtali við ritstjóra Morgunblaðsins.
Jóhann Kristmundsson Hann lá fjóra daga undir snjó og lýsti skelfilegri reynslu sinni í viðtali við ritstjóra Morgunblaðsins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1948 „Eins og öllum er ljóst getum við aldrei orðið áberandi á sviði alþjóðlegra viðskipta. Til þess erum við of fáir. Úr leiðara

Baksvið

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Á forsíðu Morgunblaðsins 19. desember 1948 var sagt frá því að sex manns hefðu farist í snjóflóði vestur á Ströndum og ítarlegri fréttir voru sagðar 21. desember. Hinir sex látnu voru allir heimilisfólk á bænum Goðdal í Goðdal, sem liggur inn af Bjarnarfirði. Einn lifði af, bóndinn Jóhann Kristmundsson, en hann hafði þá legið undir fönn í fjóra sólarhringa. Veður hafði verið vont á þessum slóðum og símalínur slitnað og engum fannst því athugavert við það að ekkert heyrðist frá fólkinu í Goðdal.

Morgunblaðið náði tali af stöðvarstjóranum á Hólmvík sem sagði að piltur hefði verið sendur með póst inn að Goðdal, sem var eini bærinn í dalnum, en þegar þangað var komið sá hann að snjóflóð hafði fallið á bæinn. Pilturinn sneri þegar til næstu bæja en þangað var klukkutímaferð.

Sextán manns héldu til björgunar en það tók þá nokkurn tíma að ná til fólksins. Bóndinn, Jóhann Kristmundsson, var á lífi og einn til frásagnar. Hann var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík.

Heimilisfólk í Goðdal voru Jóhann og kona hans Svanborg Ingimundardóttir 35 ára og dætur þeirra tvær, Svanhildur 8 ára og Ásdís 2 ára. Einnig bjuggu þar Jónína Jóhannsdóttir 75, ára, Guðrún Jóhannsdóttir 53 ára og Jónas Sæmundsson, sonur Guðrúnar, 19 ára.

Jóhann sagði að fjölskyldan, fyrir utan Jónínu, hefði verið í eldhúsinu þegar snjóflóðið féll um sexleytið á sunnudagskvöldi. Það reif þakið af steinhúsinu og braut veggina niður. Eftir það gat Jóhann lítið sem ekkert hrært sig í snjónum. Hann taldi að eiginkona sín og eldri konurnar tvær hefðu látist samstundis

Lengi vel heyrði Jóhann til Jónasar, sem hafði verið með Ásdísi litlu í fanginu þegar flóðið féll. Þeir töluðust við en smám saman fór að draga af unga piltinum. Ásdís litla heyrðist kalla á móður sína og föður sinn, en svo hætti að heyrast til hennar.

Þegar björgunarmenn komu loks á staðinn var Jónas með lífsmarki en andaðist skömmu síðar. Svanhildur, dóttir Jóhanns, 8 ára, var einnig lifandi þegar til hennar náðist en andaðist úr hjartabilun þremur klukkustundum eftir að hafa verið bjargað. Læknir sagði það ekki hafa komið sér á óvart því svo hart hefði hún verið leikin, en hún var mjög kalin þegar hún fannst.

Þrjú eldri börn Jóhanns og Svanborgar voru í skóla þegar slysið varð. Bergþór 15 ára, Haukur 13 ára og Erla 12 ára.

Byggði á álagahól

Í Morgunblaðinu 21. desember kom fram að Jóhann bóndi hefði byggt bæ sinn á álagahól. Þar sagði: „Jóhann bóndi er bráðduglegur maður, er hefur unnið mikið við umbætur á jörð sinni. Tók hann við búskap eftir föður sinn. Og byggði meðal annars þetta hús. Það var reist á hól, í túninu. En svo einkennilega vildi til, að því er blaðið hefur frétt, að frá fornu fari var það siður, að hreyfa sem minnst við hól þessum, og til dæmis slá hann ekki.“

Sunnudaginn 23. janúar 1949 var Jóhann bóndi í löngu viðtali í Lesbók Morgunblaðsins. Fyrirsögnin var Fjóra sólarhringa í snjóflóði. Það var Valtýr Stefánsson ritstjóri Morgunblaðsins sem tók viðtalið og merkti með stöfunum V. St. Hann sagðist í byrjun greinar hafa litið inn á sjúkrastofu Jóhanns tæpum mánuði fyrr, á aðfangadag 1948, og fannst Jóhann vera þungt haldinn. Valtýr lýsti hugsunum sínum, upplifun og samtali þeirra Jóhanns:

„Við skulum bíða með allar frásagnir, sagði ég við hann. Það koma vonandi dagar, sem við getum talað betur saman. Því hvað sem þessu karlmenni leið, er á koddanum lá fyrir framan mig, og hlotið hafði svo mikil sár, bæði líkamleg og andleg margfalt meiri, treysti ég mér ekki til þess á helgum jólum að gefa tilefni til að hann hlyti að rifja það allt upp fyrir sér og segja mér.

Það er öllu óhætt, segir þá sjúklingurinn. Ég er ekkert taugaveiklaður. Ég þoli vel að tala um allt sem fyrir mig hefur komið.

Hann hefur vissulega sýnt það, hugsaði ég með mér að honum er ekki fisjað saman. En samt tók ég ekki boði hans, hvarf frá rúmstokki hans.“

Átakanleg frásögn

Valtýr segist hafa komið aftur eftir nýárið og þá var viðtalið tekið. Þar lýsti Jóhann af nákvæmni sólarhringunum fjórum. Átakanlegasti kaflinn er þegar Jóhann segir frá því þegar Jónas kallaði til hans og sagði að Ásdís litla, tveggja ára, kvartaði undan því að sér væri kalt. Jónas bað Jóhann að koma til sín og taka hana. Jóhann braust um en komst hvergi. Þau höfðu þá verið tvo sólarhringa undir fönn. Valtýr sagði að tár hefðu hrokkið niður kinnar Jóhanns þegar hann lýsti þessu.

Jóhann sagði Valtý að allir hefðu verið sér einkar góðir eftir slysið en bætti við að fyrstu dagana á spítalanum hefði hann getað tapað sér við tilhugsunina um það sem gerst hafði.

Taka varð af Jóhanni annan fótinn. Hann settist að í Reykjavík ásamt þremur börnum sínum, en lést árið 1953, 46 ára gamall. Til eru fleiri viðtöl við hann en Morgunblaðsviðtalið og hann skildi eftir sig vel skrifaða, nákvæma og afar áhrifamikla frásögn af harmleiknum í Goðdal.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir