Þorsteinn Hafsteinsson fæddist í Reykjavík 6. ágúst 1950. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 11. febrúar 2024.

Þorsteinn var þriðji elsti af átta börnum þeirra Hafsteins Þorsteinssonar, f. 29.12. 1927, d. 5.1. 2014, og Jóhönnu Sigríðar Björnsdóttur, f. 6.5. 1931, d. 13.7. 1993. Úr systkinahópnum eru einnig farnir Björn, f. 7.5. 1948, d. 17.4. 1999, og Sævar, f. 25.8. 1951, d. 20.1. 2014. Björn var kvæntur Sigrúnu Hraundal Óskarsdóttur, f. 1947. Eftirlifandi systkini Þorsteins eru Hörður, f. 1949, maki hans Þórunn Erla Guðmundsdóttir, f. 1950. Anna María, f. 1952, gift Einari Guðmundssyni, f. 1945. Tvíburarnir Ægir og Elsa, f. 1954, maki hennar Einar Axel Kristinsson, f. 1950, yngstur er Hafsteinn, f. 1962.

Eftirlifandi eiginkona Þorsteins er Marsibil Baldursdóttir, f. 1952. Börn þeirra: 1) Anna Birna, f. 1972, gift Pétri Þresti Baldurssyni, f. 1969. Börn þeirra Rakel Sunna, f. 1994, maki Jóhann Bragi Guðjónsson, f. 1994, Róbert Máni, f. 1998, og Friðbert Dagur, f. 2000. 2) Bryndís Huld, f. 1974, börn hennar Ásbjörn Einarsson, f. 1997, og Tristan Viggó Nökkvi Thim, f. 2007. 3) Hafsteinn, f. 1975, kvæntur Ingu Rut Guðmannsdóttur, f. 1983. 4) Eva Dögg, f. 1978, dætur hennar Ólafía Sigurrós Einarsdóttir, f. 2000, og Sigurlaug Anna Einarsdóttir, f. 2004.

Þorsteinn, eða Steini eins og hann var alltaf kallaður, ólst upp í Reykjavík í foreldrahúsum. Ungur fór hann í sveit að Heiði á Rangárvöllum eftir að hafa valið annan af tveimur sveitabæjum sem Ægir bróðir hans hafði ráðið sig á. Dvölin á Heiði reyndist Steina vel og á einu margrómuðu sveitaballi hitti hann eiginkonu sína, Marsibil Baldursdóttur. Þau giftust 29. maí 1971 í Breiðabólstaðarkirkju. Steini starfaði við margt bæði til sjós og lands. Eftir að hann gekk í hjónaband fluttu þau á Sauðárkrók en fljótlega lá leið þeirra hjóna til Patreksfjarðar þar sem Steini starfaði á sjó, vann sem lögreglumaður og menntaði sig í þeim fræðum en starfaði einnig sem vöruflutningabílstjóri. Eftir átta ára búsetu á Patreksfirði flutti fjölskyldan á Selfossi þar sem Steini vann við vöruflutninga fyrir kaupfélag Árnesinga. Nokkrum árum síðar tóku þau við búskap á Torfastöðum í Fljótshlíð og fóstruðu þar fjögur börn sem urðu þeim eins og þeirra eigin. Að vera fósturforeldrar hefur fylgt þeim hjónum allar götur síðan. Eftir dvölina á Torfastöðum lá leiðin í Vatnsholt en lengst af hafa þau búið í Grashól eða um 20 ár, bæði með og án fósturbarna. Fjölskyldan minnist hans sem þúsundþjalasmiðs hvort sem var húsbyggingar, rafmagns- og pípulagnir eða bílaviðgerðar. Steini naut sín best í faðmi fjölskyldu sinnar, þegar allir voru saman komnir heima hjá honum í spjall, grín og hlátur. Hann elskaði líka að fara á rúntinn og voru sunnudagsbíltúrar mjög algengir.

Útförin fór fram 29. febrúar 2024.

Vegna mistaka við vinnslu blaðsins birtist eftirfarandi texti um Þorstein ekki á útfarardegi þann 29. febrúar. Hlutaðeigandi eru beðnir afsökunar á því.

Það er komið að kveðjustund og nú er það elsku Steini bróðir, og er hann þriðji bróðirinn sem kveður þetta líf. Það er efni í heila bók að ætla að lýsa honum Steina bróður svo ég læt duga að minnast hans í fáeinum orðum. Hann bróðir minn var maður með stórt skap og fljótfær en átti til einstaklega mikla hlýju.

Hann var með eindæmum bóngóður og var snöggur að bregðast við ef einhver leitaði til hans eftir hjálp. Hann bróðir minn var mikill safnari á því sem hann kallaði verðmæti en ég kallaði algjört drasl. En hann Steini átti stóran demant sem var konan hans hún elsku Marsý.

Hún gekk með honum í gegnum lífið sem stundum var súrt og stundum var sætt. Það komu stundir sem mæddi mikið á henni Marsý en alltaf stóð hún eins og klettur við hlið bróður míns. Það var hans mesta gæfa og blessun að eiga svona góða og þolinmóða konu. Börnin hans fjögur syrgja nú pabba sinn en ég veit að þau eiga eftir að hlúa að mömmu sinni í framtíðinni.

Ég vil þakka honum bróður mínum fyrir alla hans hjálpsemi og væntumþykju. Allar samverustundirnar sem Einar áttum með þeim Steina og Marsý þökkum við af alhug og höldum litríkum minningabankanum opnum í framtíðinni. Við Einar kveðjum þig með Steini minn með þessu fallega ljóði:

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Við vottum fjölskyldu Steina okkar innilegustu samúð.

Anna María (Maja) og Einar.