Dagur Bjarni Kristinsson fæddist á sjúkrahúsinu á Akureyri 20. september 1978. Hann lést á heimili sínu 7. febrúar 2024.
Foreldrar hans eru Sveinfríður Sigurpálsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 4.8. 1948, og Kristinn Bjarnason stýrimaður og skipstjóri, f. 9.10. 1948, d. 26.11. 2019.
Einkadóttir hans er Krista Nótt, f. 20.7. 2006.
Systur hans eru: Dagný Hrönn, f. 29.6. 1969, hennar dætur eru Bryndís, f. 18.2. 1989, og Bergdís, f. 15.6. 1998. Dagný á tvö barnabörn; María Ingibjörg, f. 10.4. 1973, sambýlismaður hennar er Páll Sævarsson, f. 27.6. 1971. Börn hennar eru Kristinn Hrannar, f. 23.6. 1991, Bjartmar Freyr, f. 23.11. 1994, og Guðrún Alma, f. 30.5. 2001. María á fjögur barnabörn.
Dagur ólst upp á Blönduósi í foreldrahúsum og var þar í grunnskóla en stundaði nám við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og lauk þaðan prófi í vélvirkjun 1998 og sveinsprófi í sömu grein 2009.
Hann fluttist til Reykjavíkur og starfaði við vélvirkjun, áður hjá Vélsmiðju Alla, hjá Héðni, í Álverinu auk Marel. Markmið Dags var ætíð að hlúa sem best að dóttur sinni. Áhugamál hans voru fjölskyldan, tónlist og líkamsrækt/fitness, krossfit og var með einka- og fjarþjálfun DBK. Hann tók próf sem einkaþjálfari og starfaði við það hjá Reebok fitness og víðar.
Útförin fer fram frá Blönduóskirkju í dag, 2. mars 2024, klukkan 14.
Þú ert eins og náttúran vildi, að
þú værir.
Vöxt þinn hindraði aldrei neinn.
Allir vegir voru þér færir
viljinn sterkur og hreinn.
Þrunginn krafti, sem kjarnann nærir,
klifrar þú djarfur og einn,
léttur í spori, líkamsfagur.
Lund þín og bragur er heiðskír dagur,
frjálsborni fjallasveinn.
(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)
Þú vakir, faðir vor,
ó, vernda börnin þín
svo víð sem veröld er
og vonarstjarna skín,
ein stjarna hljóð á himni skín.
(Sigurbjörn Einarsson)
Elsku Dagur, sonur minn, þakka þér fyrir að vera ávallt stjarnan mín, gefa mér minningar og veita mér gleði.
Þín móðir,
Sveinfríður
Sigurpálsdóttir.
Elsku hjartans fallegi bróðir minn er dáinn. Langt fyrir aldur fram aðeins 45 ára. Oft hef ég nú verið áhyggjufull yfir lífsins brölti þessa einkabróður míns en síðustu árin voru áhyggjulaus því leiðin lá upp á við og var gengin með ákveðni og seiglu. Það var því mikið áfall fyrir okkur fjölskylduna þegar hann var kallaður til annarra heima, hann með hjartaáfall og við hin með hjartans áfall. Minningarnar í svefni og vöku eru sem hvirfilbylur og allsráðandi þessa dagana. Upp úr stendur okkar mikli systkinakærleikur, og þakklæti. Þakklát fyrir tímann okkar saman á þessari jörð. Þar sem við stóðum saman systkinin, oft með eða móti heiminum, í stormi eða logni, og gerðum okkar besta.
Dagur eignaðist sína einkadóttur, Kristu Nótt, árið 2006 og vá hvað hann bróðir minn var stoltur af þessu kraftaverki lífsins. Hann var einstakur pabbi og þau tvö áttu heiminn saman og allt sem í honum var. Missir hennar er mikill. Dagur átti líka sérstakt samband við frændsystkinin sín og hafði þann hæfileika að geta rætt við þau á jafningjagrundvelli og gott var að leita til hans. Dagur var nefnilega einstakur vinur vina sinna og síns fólks, ávallt hjartahlýr og stóð með sínum. Kátur og hress og ef ekki þá var nú samt stutt í brosið og auðvelt að fá það fram.
Hann gat einnig rætt alla hluti, nauðsynlega og bráðónauðsynlega og eyrað var til staðar og ráðin komu.
Mikið er erfitt að kveðja þig, elsku bróðir, mig vantar svo þig, sárið og sorgin eru svo ofboðslega mikil en ég hef þá fallegu og bjargföstu trú að við munum hittast aftur.
Hjartans bróðir minn, sjáumst í fallegu eilífðarsólinni.
Elska þig.
Þín systir,
María Ingibjörg Kristinsdóttir.
Mínar fyrstu minningar af Degi frænda eru þegar hann er unglingur og ég bara polli.
Hann var að hlusta á rokkmúsík í fermingargræjunum sínum inni í herbergi sínu á Brekkubyggðinni og hlustaði á vandaða músík. Einnig var hann alltaf á seglbretti með pabba mínum í vötnunum í kring um Blönduós. Alltaf fannst mér hann vera alger töffari og flottur frændi.
Dagur var alla tíð mikikl áhugamaður um tónlist, tölvuleiki og líkamsrækt og leyfði okkur að njóta þessar þekkingar sinnar. Hann var duglegur að rækta líkama sinn og leit oft mjög vel út, aðaltöffarinn á svæðinu. Takk fyrir allt elsku frændi minn.
Legg ég nú bæði líf og önd,
ljúfi Jesús, í þína hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitji Guðs englar yfir mér.
(Hallgrímur Pétursson)
Þinn
Kristinn Hrannar.
Það var sárt og erfitt að heyra um andlát þitt, elsku Dagur minn. Við höfum fylgst að síðan í leikskóla, verið trúnaðarvinir og með okkur myndaðist bræðralag. Við studdum hvor annan alla tíð síðan.
Brekkubyggð 11 var sem mitt annað heimili í barnæsku enda var ég þar hjá ykkur allmargar stundir daga og nætur. Þegar mamma var á kvöldvöktum eða næturvöktum gistum við vinirnir ófáar nætur í sama rúmi og skemmtum okkur vel í miklu bræðralagi. Við snerum ungir bökum saman og gættum hvor annars. Andlát þitt minnir mann á hve lífið getur verið hverfult, ósanngjarnt og vægðarlaust. En eins og við báðir vitum, þá getur lífið líka verið gott, skemmtilegt og spennandi og þannig var það einmitt að eiga þig að sem vin og bróður. Þú varðst snemma stór, sterkur og glæsilegur drengur í alla staði og vaktir eftirtekt hvar sem þú komst. Þú varst alltaf svo hugaður og djarfur og það gaf mér svo mikinn styrk og kjark að vita að ég hefði þig mér við hlið, hvað sem á bjátaði. Fylgdi okkur félögunum lengi framan af mikil gleði og gauragangur sem átti það þó til að bitna á öðrum enda tillitssemi við náungann kannski ekki efst í huga ungra manna í uppreisn. En þrátt fyrir lætin í okkur og misgáfuleg uppátæki okkar þá var aldrei illur ásetningur í neinu sem við gerðum enda hafðir þú mjög fallegt hjartalag undir grjóthörðum töffaranum. Það var svo ótal margt sem þú gafst mér með vináttu þinni og á ég svo margar góðar, skemmtilegar og kærleiksríkar minningar um þig og okkur vinina. Þó þykir mér í dag sérstaklega vænt um þann tíma sem við áttum saman á Blönduósi, æskustöðvum okkar síðasta sumar.
Þú varst að jafna þig á erfiðum veikindum og ætlaðir að ná fullum bata. Enda sannur bardagakappi í eðli þínu. Við báðir loks búnir að sættast við okkur sjálfa, Guð og menn. Friður ríkti innra með okkur, þakklátir, auðmjúkir feður. Yndislegt var að hlusta á þig og sjá þig ljóma þegar við töluðum um gimsteininn þinn, Kristu Nótt. Það leyndi sér ekki að Krista var ljós þitt og kraftur. Líf þitt snerist um hana að öllu leyti. Gaman var að hitta ykkur saman og sjá hve mikið er af þér í henni.
Vil ég votta Kristu, Mæju, Sveinfríði, Dagný og þeirra fjölskyldum sem og öllum sem syrgja Dag Bjarna Kristinsson mína dýpstu samúð. Kærleikur og friður veri með ykkur öllum.
Þinn vinur, félagi og bróðir,
Ásgeir Blöndal.