Skagaströnd Kátar starfskonur BioPol að gera grásleppu klára í reykofninn, þær Þórhildur M. Jónsdóttir, til vinstri, og Judith M. Scheja.
Skagaströnd Kátar starfskonur BioPol að gera grásleppu klára í reykofninn, þær Þórhildur M. Jónsdóttir, til vinstri, og Judith M. Scheja. — Morgunblaðið/Ólafur Bernódusson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Líftæknifyrirtækið BioPol, Bjargið á Bakkafirði, Háskólinn á Akureyri og Brim hafa að undanförnu gert tilraunir með það fyrir augum að auka verðmæti grásleppuafurða. Hér er um að ræða grásleppuna sjálfa eftir að hrognin hafa verið fjarlægð úr henni…

Ólafur Bernódusson

Skagaströnd

Líftæknifyrirtækið BioPol, Bjargið á Bakkafirði, Háskólinn á Akureyri og Brim hafa að undanförnu gert tilraunir með það fyrir augum að auka verðmæti grásleppuafurða. Hér er um að ræða grásleppuna sjálfa eftir að hrognin hafa verið fjarlægð úr henni en þau eru verðmætust af því sem gráleppan gefur af sér.

Á árum áður var grásleppunni sjálfri, þ.e. skrokknum af henni, hent í sjóinn aftur eftir að búið var að skera úr henni hrognin. Örlítið brot var hirt og látið síga og enn minna var saltað til átu.

Eftir að skylt var að koma með alla grásleppuna í land fannst markaður í Kína fyrir heilfrysta grásleppu en verðið var frekar lágt. Eftir að covid 19 skall á lokaðist sá markaður og hafa menn verið í vandræðum með hvað ætti að gera við grásleppuna.

Tilraunir með niðursuðu

Nú hefur fólk í Vörusmiðju BioPol gert ýmsar tilraunir með grásleppuna og gert úr henni matvæli á annan hátt en áður. Reynt er að nýta hráefnið sem allra best. Þannig er hveljan tekin og þurrkuð og er þá orðin fyrirtaks hundanammi. Að öðru leyti hefur grásleppan síðan verið flökuð til manneldis og flökin kald- og heitreykt.

Einnig hafa verið gerðar tilraunir með að niðursjóða flökin í mismunandi marineringu en með niðursuðu eykst geymslutími hennar um mörg ár. Þeir sem hafa smakkað þessar afurðir hafa lýst ánægju sinni með áferð og bragð þannig að framleiðsla á henni lofar góðu.

Fyrirhugað er að nýta tengsl Brims hf. til að kynna vörurnar á mörkuðum fyrir sjávarafurðir. Enn er bara um tilraunaframleiðslu að ræða en ef svo fer sem horfir og markaðurinn tekur vörunni vel er hér komin lausn á fullnýtingu grásleppunnar.

Höf.: Ólafur Bernódusson