Þrjú Norðmaðurinn Erling Haaland fagnar þriðja marki Manchester City með Bernardo Silva og Phil Foden, en Foden skoraði tvö fyrstu mörkin.
Þrjú Norðmaðurinn Erling Haaland fagnar þriðja marki Manchester City með Bernardo Silva og Phil Foden, en Foden skoraði tvö fyrstu mörkin. — AFP/Paul Ellis
Manchester City vann verðskuldaðan heimasigur á grönnum sínum í Manchester United, 3:1, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. City var með mikla yfirburði allan leikinn og var það algjörlega gegn gangi leiksins þegar Marcus Rashford kom United yfir á 8

England

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Manchester City vann verðskuldaðan heimasigur á grönnum sínum í Manchester United, 3:1, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. City var með mikla yfirburði allan leikinn og var það algjörlega gegn gangi leiksins þegar Marcus Rashford kom United yfir á 8. mínútu með glæsilegu skoti í slána og inn.

Eftir markið spilaðist stór hluti leiksins á vallarhelmingi United og var aðeins spurning hvenær en ekki hvort ríkjandi meistararnir myndu jafna. Það gerði Phil Foden á 56. mínútu með öðru glæsilegu skoti. Englendingurinn ungi kom United svo yfir með sínu öðru marki á 80. mínútu.

Erling Haaland, sem átti eitt versta klúður tímabilsins í fyrri hálfleik, gulltryggði síðan sigurinn í uppbótartíma.

Þrátt fyrir að United hafi verið yfir í um 50 mínútur í leiknum, var City mikið sterkari aðilinn og er gríðarlegur gæðamunur á liðunum.

City er nú með 62 stig, einu stigi á eftir toppliði Liverpool. United er í sjötta með 44 stig eftir tvö töp í röð.

Núnez hetja Liverpool

City væri komið á toppinn með sigrinum í gær, ef ekki hefði verið fyrir sigurmark Darwins Núnez fyrir Liverpool á níundu mínútu uppbótartímans í útileik gegn Nottingham Forest. Stefndi allt í markalaust jafntefli, en sá úrúgvæski skallaði boltann í netið á allra síðustu stundu og Liverpool-menn fögnuðu vel.

Liverpool var nokkuð frá sínu besta en tókst engu að síður að knýja fram sigur í lokin, sigur sem gæti reynst mjög mikilvægur, með City andandi ofan í hálsmálið á sér.

Það verður sannkölluð veisla þegar liðin mætast á Anfield um næstu helgi.

Liverpool er með 63 stig, einu stigi á undan Manchester City og fimm á undan Arsenal en Arsenal á leik til góða gegn botnliði Sheffield United á útivelli í kvöld.

Hræðileg helgi fyrir United

Var um hræðilega helgi að ræða fyrir United, því Aston Villa og Tottenham unnu einnig og juku forskotið á Manchester-liðið.

Villa vann sigur á Luton á útivelli, 3:2, þar sem Ollie Watkins gerði tvö mörk og Lucas Digne skoraði sigurmarkið í lokin.

Tottenham vann endurkomusigur á Crystal Palace, 3:1. Eberechi Eze kom Palace yfir með glæsilegri aukaspyrnu en þeir Timo Werner, Cristian Romero og Heung-min Son svöruðu fyrir Tottenham-menn.

Villa er í fjórða sæti með 55 stig, Tottenham í fimmta með 50 og United í sjötta með 44.

Fallbaráttan breyttist lítið því liðin í neðstu sætunum töpuðu öll. Staðan er orðin býsna erfið fyrir Burnley eftir fjórða tapið í röð, en Burnley-menn máttu þola tap gegn Bournemouth, 2:0, á heimavelli. Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á hjá Burnley í lokin, en liðið er áfram níu stigum frá öruggu sæti.