Svana Einarsdóttir fæddist 31. október 1934 í Varmahlíð undir Eyjafjöllum. Hún lést í Sunnuhlíð í Kópavogi 20. febrúar 2024.

Foreldrar hennar voru þau Ingibjörg Bjarnadóttir og Einar Sigurðsson. Svana var yngst sex systkina, en auk þeirra var uppeldisbróðir sem kom ungur að Varmahlíð. Elst var Þóra Dóra, fædd 1918, dó 2013, síðan komu þau Bjarni, fæddur 1923, dó 1990, Hólmfríður, fædd 1925, dó 2002, Sigríður Bjarney, fædd 1927, hún lifir systkini sín, Einar Ingi, fæddur 1931, dó 1996, og svo Svana. Uppeldisbróðirinn var Guðmundur Óskar, fæddur 1919, dó 1996.

Svana ólst upp í Varmahlíð og var þar fram á unglingsár, eða þar til hún lauk námi í Skógarskóla. Þaðan lá leiðin í Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni. Svana útskrifaðist sem íþróttakennari 1954. Hugurinn leitaði þó annað en til kennslu, því sótti hún um sjúkraþjálfaranám í Noregi. Þar vann hún fyrst í eitt ár á sjúkrahúsi til að undirbúa sig fyrir námið. Hún útskrifaðist sem sjúkraþjálfari 1958 frá Oslo Ortopediske Institutt. Eftir að hafa unnið hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra um skeið fór hún til Brandon í Manitoba í Kanada. Þar vann hún í tvö ár og kom heim 1962. Fljótlega eftir heimkomuna fékk Svana réttindi á Íslandi sem löggiltur sjúkraþjálfari. Hún er meðal þeirra fyrstu sem skráð voru í Félag íslenskra sjúkraþjálfara því það var stofnað sama ár og Svana fékk sín réttindi.

Við heimkomuna hóf Svana sjálfstæðan rekstur á Selfossi en árið 1965 tók hún við sem yfirsjúkraþjálfari á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Árið 1967 ákvað hún að fara aftur í sjálfstæðan rekstur og stofnaði Sjúkraþjálfun Keflavíkur. En hugurinn leitaði enn á ný í ferðir og árið 1988 lá leiðin til Færeyja. Þar starfaði hún í fjögur ár. Eftir heimkomuna stofnaði hún Sjúkraþjálfun Suðurlands, sem hafði starfsstöðvar í Laugarási í Biskupstungum, Vík í Mýrdal og á Kirkjubæjarklaustri.

Ein af samstarfskonum Svönu í Hveragerði var Barbara ThinatThinat og það var fyrir hennar tilstilli sem Svana kynntist bahá´í-trúnni. Svana varð strax frá upphafi mjög virk í starfi og uppbyggingu samfélagsins. Hún var meðal þeirra fáu sem lögðu grunninn að bahá‘í-samfélaginu á Íslandi og vann ötullega að uppbyggingu þess alla tíð.

Útförin fer fram frá Fossvogskirkju kl. 15 í dag, 4. mars 2024.

Ég kynntist Svönu fyrst þegar ég flutti til Íslands frá Írlandi 1978. Svana og vinkona hennar Barbara Thinat byrjuðu strax að kenna mér íslensku. Þær völdu sérstaka bahá‘í-bæn fyrir erfiðleikum sem þær kenndu mér og ég yrði að fara með þetta á bjagaðri íslensku daglega, og ég geri enn í dag með aðeins betri tök á íslensku. Við Svana vorum báðar meðlimir bahá‘í-trúarinnar.

Hún kynnti mér fyrsta ísinn minn í Eden í Hveragerði þegar hún fór með mér til Vestmannaeyja þetta fyrsta sumar mitt og eftir það fór hún með mér til Ísafjarðar og skildi mig þar eftir. Á leiðinni tjölduðum við á ýmsum stöðum og ég fékk mín fyrstu kynni af íslenskri náttúru sem ég elska enn í dag.

En Svana var sannur brautryðjandi, hún lifði brautryðjendalífi. Hún hafði hugrekki til að fylgja sannfæringu sinni, að vera bahá'í og gera hlutina öðruvísi en allir í kringum hana, á þeim tíma þegar breytingar voru ekki alltaf samþykktar, hún synti á móti straumnum. Hún helgaði líf sitt algerlega málstað Bahá'u'lláh, stofnanda bahá‘í-trúarinnar og lagði dag við nótt í að byggja upp Bahá‘i-samfélagið á Íslandi. En á síðustu árum hennar var heilsa hennar ekki góð og hún var meira en tilbúin að kveðja þennan heim. En Svönu verður minnst af okkar bahá‘íum ekki bara hér á Íslandi, heldur um heim allan sem mjög merkrar konu, brautryðjanda, kvenréttindakonu; sjálfstæð og með mjög áhugaverða skoðun á heimsmálum og framtíð mannkynsins sem hún deildi óspart með okkur.

„Að halda því fram að andinn verði eyðingu að bráð þegar líkaminn deyr jafngildir því að ímynda sér að fuglinn í búrinu farist ef búrið brotnar, þótt fuglinn hafi ekkert að óttast þótt búr hans brotni. Þessi mannlegi líkami er eins og búrið og andi hans er eins og fuglinn … Væri búrið brotið myndi fuglinn ekki aðeins halda lífi heldur myndi skynjun hans eflast og gleði hans margfaldast.“ (Abdu’l-Bahá)

Bridget Ýr McEvoy.

Við andlát Svönu koma margar minningar upp í hugann, en vinátta okkar spannaði rúmlega 50 ár. Svana kynntist bahá´í-trúnni snemma á sjöunda áratugnum. Trúin og sýn hennar á það hvernig stuðla má að nýju heimsskipulagi og hagsæld mannkynsins mótaði líf Svönu upp frá því og lagði hún mikið og óeigingjarnt starf af mörkum á því sviði.

Heimili Svönu, hvar sem hún bjó, var alltaf opið fyrir þá sem höfðu áhuga á að kynna sér andleg málefni og að taka þátt í gefandi umræðum. Ég kynntist Svönu fyrst þegar ég fór með skólasystur minni á svokallað opið hús heima hjá henni og Barböru Thinat vinkonu hennar. Ég man ekki hvert umræðuefnið var, en ég man eftir hlýju og glaðværu viðmóti húsráðenda, gestrisni þeirra og því góða andrúmslofti sem ríkti þarna. Kvöld eftir kvöld laðaðist leitandi ungt fólk að þessum opnu húsum þar sem Svana og fleiri miðluðu af þekkingu sinni og komu af stað innihaldsríkum umræðum. Svana var iðulega fljót að mynda sér skoðanir á ýmsum málefnum og hvikaði oft ekki frá sannfæringu sinni sem hún rökstuddi einarðlega. Í gegnum árin fannst mér því talsverð áskorun að rökræða við hana og stundum sátum við og fleiri saman langt fram eftir nóttu við að kryfja málin. En Svana sló líka á létta strengi og oft var gantast og hlegið. Hún greip gjarna í gítarinn sinn og gat á augabragði skapað skemmtilega og létta stemningu með því að fá alla með í söng.

Fyrir allmörgum árum keypti Svana jörðina Helludal í Árnessýslu. Áður hafði henni birst í draumi tvær steinhellur. Hún vissi ekki þá hver gæti verið merking draumsins, en heimfærði hann síðar á Helludal þar sem voru jú tvö íbúðarhús, Helludalur I og II. Þegar Svana var að ganga frá kaupunum þá bauð hún mér að koma með sér austur til þess að skoða jörðina og húsakynnin. Það var gaman að ganga með Svönu um svæðið og hlusta á hana lýsa draumum sínum og framtíðarsýn. Hún sá fyrir sér að þarna væri hægt að byggja upp nokkurs konar fræðslusetur þar sem boðið væri upp á námskeið, meðal annars í formi sumar- og vetrarskóla. Skref í þá átt var stigið þegar hún lét gera eldra íbúðarhúsið á jörðinni fallega upp þar sem er gistipláss fyrir lítinn hóp og aðstaða til námskeiðahalds. Ég minnist margra góðra samverustunda með Svönu og fleirum á þessum yndislega stað þar sem allt virtist dafna. Ekki bara vináttubönd þeirra sem dvöldu þarna saman, heldur var rabarbarinn risastór, gnótt var af bláberjum, birkikjarrið gróskumikið og líka furan sem sáði sér af krafti. Það er nú í höndum okkar sem eftir stöndum að fylgja eftir hugsjónum Svönu og stuðla að því að þær fái að dafna.

Svana glímdi við heilsuleysi síðustu árin. Hún hafði þá oft á orði að nú væri þetta orðið gott, fullviss um að eftir þessa jarðvist tæki önnur tilvera við þar sem sálin væri laus við fjötra líkamans. Ég þakka Svönu fyrir vináttuna og allt það sem hún kenndi mér. Guð blessi minningu hennar.

Sigríður Lóa Jónsdóttir.

Við kynntumst Svönu fyrst á menntaskólaárunum á áttunda áratugnum þegar við hjónin höfðum orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að komist í snertingu við bahá‘í trú heima á Ísafirði. Svana var þá leiðandi í starfinu og geislaði af lífsþrótti og smitandi gleði.

Nokkru áður, eða 1972, urðu þáttaskil í sögur trúarinnar hér á landi þegar forsendur höfðu skapast til að halda fyrsta landsþingið og kjósa níu manna þjóðarráð. Svana var ein þeirra sem kjörin var til þjónustu í því ráði. Tveimur árum síðar var hún valin í það hlutverk að styðja við svæðisráð og samfélagsuppbygginu um allt land, hlutverk sem hún sinnti af alúð í rúman áratug.

Svana var einkar söngelsk eins og allt hennar fólk. Í hugann koma minningar frá varðeldi með hópi ungmenna við sumarbústað þeirra Svönu og Barböru í Grímsnesinu og frá samverustundum í íbúð þeirra í Dalalandi í Fossvoginum. Hún var ávallt með gítarinn innan seilingar og ætíð vel tekið undir. Unun hafði hún af bílum og átti m.a. fallega rauðan Ford Mustang. Þær stöllur voru óþreytandi að ferðast um landið til að heimsækja og hvetja.

Á efri árum festi Svana kaup á jörðunum Helludal 1 og 2 í Bláskógabyggð, steinsnar frá Geysi, og dvaldi þar öllum stundum meðan heilsan leyfði. Hún átti sér þann draum að í framtíðinni yrði í Helludal mennta- og fræðasetur og afsalaði eigninni til bahá‘í samfélagsins á Íslandi eftir sinn dag. Þetta lýsir vel hve umhugað henni var um að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir.

Svana sameinaði í lífi sínu og starfi djúpa ást á landi og þjóð og þá fullvissu að jörðin væri aðeins eitt ættland og mannkynið þegnar þess. Hún var mjög markviss í öllu sem hún tók sér fyrir hendur, fórnfús og ósérhlífin. Hún var sannur brautryðjandi í bestu merkingu þess orðs, horfði fram á veginn og hafði viljastyrk og þor til að gera það sem þurfti svo sýnin yrði að veruleika.

Á kveðjustund er okkur efst í hjarta þakklæti og djúp virðing.

Halldór Þorgeirsson
og S. Heiða Steinsson.

Fundum okkar Svönu bar fyrst saman í góðra vina hópi á sólríkum sumardegi í Keflavík árið 1973. Mér varð nokkuð starsýnt á þessa glaðlyndu, djarfmæltu og galvösku konu sem geislaði af orku og lífsfjöri, og undrun mín jókst þegar hún lýsti því yfir í vinahópnum að hún vildi leigja þyrlu til að dreifa kynningarefni yfir nálæg byggðarlög um nýjan og merkilegan málstað sem hún hafði gengist á hönd og tekið ástfóstri við. Sá málstaður snerist, og snýst enn, um jafnrétti og félagslegt réttlæti, frið á jörðu, einingu mannkyns og ást og eindrægni meðal mannanna barna. Hugmynd Svönu um að útbreiða þennan boðskap með þyrlum Varnarliðsins fékk ekki hljómgrunn í hópnum en hún hafði aðrar tillögur á reiðum höndum um hvernig leiða mætti landsmönnum fyrir sjónir að hér væru á ferðinni undur og stórmerki sem engum manni ætti að dyljast

Þessum málstað, bahá´í-trúnni, helgaði Svana allt sitt líf, ávallt vakin og sofin yfir velferð hans og gengi og þá ekki síður öllum tækifærum sem buðust til að leiða þessa framtíðarsýn gestum og gangandi fyrir sjónir, fá þá til að velta fyrir sér hugsjóninni um réttlátan, friðsælan og sameinaðan heim, kveikja með þeim áhuga á kynjajafnrétti og upprætingu allra fordóma og telja þá á að ganga til liðs við andlega sinnað fólk sem vildi vinna að bættum heimi. Enginn vafi er á því að einlægnin, hjartahlýjan og áhuginn sem fylgdi orðum hennar snerti hjörtu margra og fékk þá til að kanna betur og jafnvel hrífast af þessum málstað sem sumum fannst í fyrstu nokkuð framandi og jafnvel útlenskur en var Svönu svo hjartfólginn.

Stjórnmál voru Svönu nokkuð hugleikin á yngri árum þótt hún væri aldrei flokksbundin. Það sem vakti brennandi áhuga hennar á bahá´í-trúnni var stjórnskipanin sem hafnar forræði einstaklinga eða sálusorgara yfir andlega hugsandi fólki, hvetur það til sjálfstæðrar leitar að sannleikanum í andlegum og veraldlegum efnum og byggir allt sitt starf á einlægu og hreinskilnu samráði allra samfélagsmeðlima, ungra og aldinna og kjörinna ráða þeirra. Það var þessi bjarta og frjálsa sýn á framtíð manns og heims sem heillaði Svönu og hvatti hana til að nota sérhvert tækifæri sem gafst til að bregða á loft ljósinu sem hún hafði fundið í málstaðnum sem hún elskaði.

Við vinir þínir og félagar kveðjum þig, kæra Svana, með þökkum fyrir tryggð þína og ómetanlegt framlag til bahá´-samfélaganna á Íslandi og í Færeyjum.

Eðvarð T. Jónsson.